Fögnum fjölbreytileikanum

Fagna ber fjölbreytileika mannlífsins. Í fjölbreytileikanum er styrkur alls samfélagsins og á það við á öllum sviðum. Við viljum ekki einn RÍKISskóla, eina RÍKISkirkju, eina RÍKISáfengisverslun, einn RÍKISbanka. Við viljum samfélag þar sem einstaklingarnir og sköpunarkraftur þeirra fá að njóta sín í öllum sínum fjölbreytileika. Við viljum ekki samfélag Marteins Mosdals, eins og það birtist hér:

http://www.youtube.com/watch?v=jsoOm5WAd-U&feature=PlayList&p=1D11B4BC964A1E33&playnext=1&playnext_from=PL&index=4


mbl.is „Stærsta gangan til þessa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögregluríki

Ríkisstjórnin er í óða önn að herða tök sín á öllu þjóðlífi. Vitanlega hafa menn uppi göfug fyrirheit varðandi hertari þvingunarúrræði, en eftir því sem úrræðin eru harðari þeim mun meiri líkur eru á að þau verði misnotuð. Ríkið beitir borgara þessa lands nú þegar miklu ofríki. En hér sýna vinstrimenn sitt rétta eðli, því þeir unna aðeins mannréttindum og lýðræði í orði. Undir niðri býr stæk fyrirlitning á einstaklingsfrelsinu. Stórhert tök ríkisins á öllu þjóðlífi færa okkur sífellt nær lögregluríki.
mbl.is Skatturinn fær að kyrrsetja eignir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundraðir vinstrimenn

Hinni svokölluðu borgarahreyfingu kippir í kynið. Hún eru ámóta sundruð og aðrar klíkur íslenskra vinstrimanna hafa verið umliðna öld. Síðan koma menn fram í fjölmiðlum og brigsla hverjir öðrum um óheilindi og láta fúkyrðin falla um svokallaða samherja sína. Sagan endurtekur sig í sífellu. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sprakk vegna sundungar innan síðarnefnda flokksins. Þar bárust menn á banaspjóti og níddust á fársjúkum formanni sínum. Sú saga er smánarblettur á íslenskri stjórnmálasögu.


mbl.is Enginn þingmaður mætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullorðinn?

Í fréttinni er talað um að maðurinn sem skemmdarverkinu olli hafi verið fullorðin. Það má efast um að menn sem valda skemmdum á annarra eigum hafi nokkurn tímann fullorðnast. Lítilsvirðingin fyrir friðhelgi einkalífsins ríður ekki við einteyming.
mbl.is Sást skvetta málningu á húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ályktun Frjálshyggjufélagsins 6. ágúst 2009

Frjálshyggjufélagið hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun til helstu íslensku fjölmiðla:

 

Á undanförnum mánuðum hefur tilgangsleysi þess að ríkið standi í fjölmiðlarekstri, með rekstri Ríkisútvarpsins, enn og aftur sannast. Helstu rök manna fyrir því að ríkið reki fjölmiðil í samkeppni við einkarekna fjölmiðla hafa jafnan verið þau að þannig sé tryggð óhlutdræg fréttaumfjöllun, enda er kveðið á um óhlutdrægni Ríkisútvarpsins í lögum. Engu að síður er það svo að hlutdrægari fjölmiðill en Ríkisútvarpið er vandfundinn, einkum er kemur að aðildarumsókn Íslands að ESB og Icesave-frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur tekið eindregna afstöðu með aðild Íslands að ESB og samþykkt Icesave-frumvarpsins og rekið markvissan áróður fyrir þeim málstað sínum undir því yfirskini að þar séu sagðar fréttir.

Í byrjun þessarar viku keyrði þetta um þverbak, þegar birtar voru niðurstöður Gallup-könnunar um afstöðu landsmanna til þessara tveggja stærstu mála íslenskra stjórnmála þessa stundina. Um var að ræða fyrstu skoðanakönnun sem gerð er um afstöðu til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu frá því að Alþingi samþykkti að leggja inn slíka umsókn og fyrstu skoðanakönnun sem gerð er um afstöðu landsmanna til Icesave-frumvarps ríkisstjórnarinnar. Hvort sem menn eru með eða á móti í framangreindum málum ættu því allir að geta fallist á að um var að ræða nokkur tíðindi sem vert var að fjalla um, enda fjölluðu allir íslenskir vefmiðlar aðrir en ruv.is um málið auk fjölda erlendra fjölmiðla.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins, undir stjórn Óðins Jónssonar og Páls Magnússonar, ákvað hins vegar að minnast á hvoruga könnunina. Ekki var að finna staf um málið á fréttavef ruv.is, ekki var minnst á það í útvarpsfréttum og þaðan af síður í sjónvarpsfréttum.

Framangreint er fjarri því að vera eina dæmið um áróður Ríkisútvarpsins umræddum málum en hér er um að ræða einna skýrustu dæmin sem fram hafa komið um hann.

Frjálshyggjufélagið harmar að fréttastofu Ríkisútvarpsins sé beitt með þessum hætti en bendir um leið á að þetta er aðeins enn eitt dæmið sem sannar tilgangsleysi þess að ríkið standi í fjölmiðlarekstri. Telji menn að það megi ekki gerast að allir fjölmiðlar séu í einkaeigu þar sem umfjöllun um þjóðmál verði þá ekki hlutlaus þykir Frjálshyggjufélaginu rétt að vekja hér athygli á þeirri staðreynd að hlutdrægasta fréttastofa landsins er fréttastofa Ríkisútvarpsins. Sú röksemd sem einna mest er notuð fyrir ríkisrekinni fréttastofu fellur því um sjálfa sig og enn sannast að ríkisrekstur fjölmiðils er óþarfur. Í núverandi efnahagsástandi hefðu margir landsmenn eflaust viljað sleppa því að greiða um 17.000 krónur í rekstur Ríkisútvarpsins. Frjálshyggjufélagið tekur undir með þeim.


Bruðl á krepputímum

Nú er talað um að flensan sé væg og engu skæðari en venjuleg árstíðarbundin inflúensa, hvaða ástæður liggja þá að baki þess að bólusetja 300 þúsund manns?

Þetta eru óþarfa ríkisútgjöld sem ætti ekki að leggja út í. Betra væri að fólk gæti keypt sér bóluefni á frjálsum markaði þannig að þeir sem þurfandi væru fengju bóluefni en aðrir ekki.

Miðað við 380 milljóna kostnað við 300 þúsund skammta þá kostar hver skammtur ekki nema 1200 krónur. Það hlýtur að vera sanngjarnt mat að hver einasti landsmaður hafi efni á því liggi líf hans við.


mbl.is Bóluefni fyrir 380 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin kallar örbirgð yfir þjóðina

Nú ríður á að koma vinstristjórninni fá völdum. Með sífelldum skattahækkunum og öðru oki og áþján á fyrirtæki og borgara blasir við stórkostlegur landflótti. Það vill nefnilega oft gleymast að íslenskir launamenn eru mjög hreyfanlegt vinnuafl. Létta þarf okinu af atvinnulífinu með skattalækkunum og miklum niðurskurði ríkisútgjalda samhliða. Þá þurfa að setjast í ráðherrastóla alvöru karlmenni með bein í nefinu sem geta gætt hagsmuna Íslendinga á erlendri grund.


mbl.is Mesta hættan fólksflótti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falsspámenn

Það er rétt athugað að norska frúin opinberar úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar - stjórnvalda sem eru með öllu vanfær um að halda málstað Íslands á lofti. Það breytir því ekki að megininntakið í greininni er byggt á marxískum söguskilningi. Norska frúin segir meðal annars:

"Ábyrgðarlaus afstaða sumra ríkja, Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart hruni íslenska fjármálakerfisins sýnir að þau eru ófær um að draga lærdóm af hruni þess samfélags sem Ísland var holdgervingur fyrir - þ.e. samfélags óhefts markaðsfrelsis, einkum frjálsra fjármálamarkaða sem þessir sömu aðilar tóku að móta."

Hér á landi var aldrei neitt við lýði sem kallast gæti "óheft markaðsfrelsi". Gömlu bankarnir voru til að mynda niðurnjörvaðir í net opinbers eftirlits. Meinsemd íslensks fjármálakerfis var veikur gjaldmiðill. Vandinn var kerfislægur - tilbúinn af stjórnmálamönnum, en það er fjarri öllum sannleik að þeir hafi skapað óheft markaðsfrelsi.

Hér fer frúin því einfaldlega með rangt mál, en boðskapur hennar kann að klingja vel í eyrum margra. Og ekki er hún fyrsti falsspámaðurinn til að ná athygli fjöldans.


mbl.is Joly tókst það sem öðrum tekst ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í vinstri villu

Rétt er að huga að því hvernig umræddur viðsnúningur er til kominn. Hann er sprottinn af sósíalískum inngripum stjórnmálamanna í fjármálakerfi landsins. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks þjóðnýttu Glitni, þrátt fyrir ítrekar viðvaranir. Sú þjóðnýting hratt af stað atburðarás sem ekki sér fyrir endann á. Allt fjármálakerfið hrundi.

Vissulega stóð fjármálakerfið völtum fótum, þar sem það var of stórt sem hlutfall af landsframleiðslu (raunar nærri tólfföld landsframleiðsla). En það var vandi sem stjórnmálamenn og embættismenn höfðu búið til. Í alþjóðlegum samanburði stóðu íslenskir bankar ekki verr en bankar í nágrannalöndunum, en í þeim löndum voru traustari og stærri gjaldmiðlar og seðlabankar sem gátu verið lánveitendur til þrautavara.

Hinn stóri lærdómur af efnahagskreppunni er sá að afskipti hins opinbera af starfsemi fjármálafyrirtækja beri dauðann í sér. Hið blandaða hagkerfi beið algjört skipbrot. En þetta var því miður ekki sá lærdómur sem stjórnmálamenn drógu af hruni fjármálakerfisins. Núverandi valdhafar vilja fjötra þjóðina í hlekki hæstu skatta í heimi og telja fólki trú um að í því felist réttlæti. Lausnarorðið hlýtur að vera frelsi. Ríkisvaldið mun ekki skapa ný atvinnutækifæri. Hins vegar ætti verkefni stjórnmálamanna að vera það umfram allt að lækka skatta einstaklinga og fyrirtækja og draga úr útgjöldum hins opinbera um nokkra tugi prósenta. Í ljósi þess hve ógnarhratt ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað á umliðnum árum má draga þá ályktun að stór hluti þeirra séu afætur á kerfinu.

Gleymum því ekki að það verða engin verðmæti til í opinberum rekstri.


mbl.is Algjört hrun í afkomu ríkissjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andæfa þarf lyginni

Af umræðum í fjölmiðlum á undanförnum misserum að dæma voru allir þeir sem komu nálægt stórum fjárfestingum glæpamenn. Sérhver viti borinn maður sér hversu mikil fjarstæða er að halda slíku fram. Höfundur þeirrar fréttar sem hér er vísað til titlar Björgólf Thor Björgólfsson "auðmann". Þetta hugtak, "auðmaður", hefur á undanförnum misserum verið notað af íslenskum vinstrimönnum með viðlíka hætti og þýskir nasistar töluðu um Gyðinga. Lög og réttur eiga ekki að gilda um "auðmenn" að mati þeirra sem hæst láta. Segja margir að réttast sé að stinga "auðmönnunum" í fangaklefa og kyrrsetja allar eignir þeirra - á grundvelli þess að þeir séu svokallaðir "auðmenn". Hliðstæðurnar í íslensku þjóðfélagi nútímans eru óhugnanlega miklar við Þýskaland á uppgangstíma nasismans.

Svo virðist sem sá fréttaflutningur Stöðvar tvö sem hér er vísað til í fréttinni sé í besta falli reistur á mjög vafasömum heimildum og í versta falli sé hann uppspuni frá rótum. En þetta gengur vel í hælbítana, sem þola ekki að mönnum vegni vel í viðskiptum og nú er umræðan í þjóðfélaginu komin á það stig að svo virðist sem menn séu jafnvel farnir að semja fréttir sem eru uppspuni frá rótum - og þeir sem spyrna við fótum eru síðan sakaðir um að hafa annarlegra hagsmuna að gæta. Við frjálshyggjumenn unnum réttlæti og sannleika, en ekki því skrílræði sem ríkir á Íslandi samtímans.


mbl.is Björgólfur Thor: Skipulagður óhróður, véfréttir og lygar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband