Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bann við ræktun kannabisplantna veldur lífshættu

Þessi frétt er stórmerkileg og færir okkur enn betur heim sanninn um hversu fráleitt það er að banna ræktun, framleiðslu, dreifingu og sölu á jafnalmennri neysluvöru og kannabisefni eru. Neysla þeirra er mjög útbreidd í okkar heimshluta og ljóst að maður undir áhrifum kannabisefna er ekki hættulegur umhverfi sínu.

Fólk þarf að taka ábyrgð á eigin gjörðum - það þarf að innleiða ábyrgðarhyggju í okkar stjórnlynda samfélag. Einstaklingarnir sjálfir eru best til þess fallnir að velja og hafna. Sumar vörur eru skaðlegar, eins og tóbak, kannabisefni, áfengi og feitur matur, en löstur er ekki glæpur.


mbl.is Varaðir við marijúanaræktendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðför að atvinnufrelsi

Hvers vegna má einstaklingur sem tekur fallegar myndir að mati markaðarins ekki selja myndirnar sínar þótt hann sé ekki með sérstaka gráðu í ljósmyndun?

Hverju breytir gráða í ljósmyndun um ánægju kaupandans með myndina?

Lögverndun starfsheita með þessum hætti er til þess fallin að standa vörð um fámennan hóp hagsmunaaðila á kostnað almennings í landinu.


mbl.is Sektuð fyrir að reka ljósmyndastofur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tuttugu prósent tekjuskattur?

Þriðju hrunfjárlög ríkisstjórnarinnar eru nú smám saman að koma í ljós. Fátt óvænt er þar að finna. Heilbrigðisþjónustu á að skera niður og inn að beini á sama tíma og ýmiss óþarfi fær áfram að þrífast hjá hinu opinbera, skatta á enn að hækka, og skuldir ríkissjóðs munu aukast frekar með áframhaldandi hallarekstri. Landflótti er hafinn en stjórnmálamenn vona að ekki herðist á honum enda fækkar þeim óðum sem vinna verðmætaskapandi störf, og fjölgar í hópi vinnufærra sem þiggja opinbera framfærslu. Stjórn og stjórnarandstaða rífast um „þolmörk" skattgreiðenda en slík umræða leiðir nánast undantekningalaust til þess að skattar eru hækkaðir örlítið meira.

Ríkið lætur sér ekki nægja að reka skóla, sjúkrahús, lögreglu og dómstóla, en um slíkan ríkisrekstur er nokkuð breið pólitísk sátt á Íslandi þótt undirritaður sé honum mótfallinn. Ríkið stendur auk þess í umsvifamikilli og rándýrri miðstýringu á landbúnaði, skiptir sér ítrekað af sjávarútveginum, semur um orkuverð og skattaundanþágur við erlend fyrirtæki og fjármagnar kaffihúsahangs fjölmennrar ríkislistaelítu, svo fátt eitt sé nefnt. Þessu hafa Íslendingar ekki efni á. Svo einfalt er það.

Lækning hins íslenska hagkerfis getur eingöngu átt sér stað með stórkostlegri lækkun skatta, miklum samdrætti í kæfandi umsvifum hins opinbera og opnun hagkerfisins fyrir verslun og viðskiptum. Umræðan ætti ekki að snúast um „þolmörk" skattgreiðenda, heldur „þolmörk" hins opinbera. Hvað stendur í vegi fyrir því að helminga hið opinbera á Íslandi á næsta ári og leyfa einkaframtakinu að taka við starfsmönnum ríkisins? Er hluti ástæðunnar kannski sá að nú er verið að byggja tónlistarhús fyrir marga milljarða og eyða þúsundum milljóna í aðildarviðræður við Evrópusambandið? Eru þetta mikilvægari útgjaldaliðir en heilbrigðisþjónusta og löggæsla? 

Ég legg til að fjárlög ríkisins verði færð aftur til ársins 2004 fyrir árið 2011, en í krónum svarar það til um 60% niðurskurðar á skatttekjum ríkisins miðað við fjárlög ársins 2010. Útgjöld þurfa að lækka ennþá meira til að stoppa í fjárlagagatið, sem þýðir stórkostlega fækkun opinberra starfsmanna.  Það sem ríkið hafði ekki á sinni könnu árið 2004 á það ekki að hafa á sinni könnu árið 2011. Á árinu 2004 mældust kjör barnafólks, ellilífeyrisþega og fátækra á Íslandi með þeim bestu í heimi. Þau geta verið það áfram þótt ríkisvaldið helmingist. Á árinu 2004 var skattaumhverfið á Íslandi talið aðlaðandi fyrir bæði fólk og fyrirtæki. Stefnum að því að svo megi aftur vera.

Geir Ágústsson

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 19. október 2010.


"Stjórnlagaþing" er skrípaleikur

Á tímum niðurskurðar munar stjórnvöldum ekki um að henda hálfum milljarði króna í svokallað "stjórnlagaþing", sem þjónar þeim eina tilgangi að vera leiktjöld - leiktjöld sem eiga að fela það hversu hörmulega vinstriflokkunum hefur tekist vil landsstjórnina. Fjölmiðlar munu á næstu vikum og mánuðum vera fullir af fregnir af "dásemdum lýðræðisins". En "stjórnlagaþing" er leiksýning, skrumskæling á lýðræðinu, þar sem helstu ofurkverúlantar landsins munu þrasa um allt og ekki neitt.

Vinnandi menn á hinum almenna vinnumarkaði hafa ekki tíma og oft ekki fjármuni til að standa í samkomum af þessu tagi, því er nokkuð öruggt að til stjórnlagþings mun einkum veljast fólk sem er á opinberu framfæri og hefur litla sem enga vinnuskyldu. Síðan verður sósíalisminn sem út úr þessu kemur kallaður "vilji þjóðarinnar".

Niðurlæging Alþingis var algjör með ákærunni á hendur Geir Haarde. Algjör niðurlæging þjóðarinnar er í nánd.


mbl.is Líst ekkert á stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjörbrot félagshyggjunnar

Nei, það er ekki vonlegt að fólk af ólíkum kynþáttum, trúarbrögðum og menningarheimum fái lifað í sátt og samlyndi þar sem ríkisvaldið er allsráðandi. - Ríkisvald sem heldur stórum hópum innflytjenda í fátæktargildrum í formi ölmusa úr opinberum sjóðum.

Innflytjendur líkt og aðrir borgarar þurfa að eiga þess kost að rækta hæfileika sína. Undirstaða þess er frjálst markaðshagkerfi. Það er ekki hvað síst vegna sósíalismans - félagshyggjunnar - í Vestur-Evrópu, sem innflytjendum hefur ekki vegna þar jafn vel og innfæddum.

Hættum að búa til ölmususmenn en leyfum hæfileikum manna að dafna. Þjóðfélaginu öllu til hagsbóta. Uppgjör við félagshyggjuna er óumflýjanlegt.


mbl.is Tilraunin mistókst hrapalega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Agaleysi í rekstri ríkisins

Við erum á plani við það sem við ætluðum okkur að gera í útgjöldum, í tekjuöflun og reyna að ná tökum á rekstri ríkisins sem var eins ótal skýrslur ríkisendurskoðunar og fleiri benda til algerlega stjórnlaus og agalaus hér árum og áratugum saman. Það er meðal annars ástæðan fyrir því ástandi sem er hér í dag. - Björn Valur Gíslason varaformaður fjárlaganefndar Alþingis í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu 11. október 2010. Tilvitnun tekin héðan

Nánast undantekningalaust er gagnrýni á aðhaldsleysi í ríkisfjármálum, sem og fjármálum sveitarfélaga, réttmæt. Hið opinbera á Íslandi er mikil peningahít sem má líkja við götótt dekk á bíl í akstri: Til að halda því útþöndu þarf mikið loft en mikið af því lofti streymir út um ótal göt sem fáir sem engir hafa fyrir að gera við.

En ef ástandið var slæmt í tíð þarseinustu ríkisstjórnar, hvað er þá hægt að segja um ástandið í dag? Aðhaldsleysi í ríkisfjármálum nálgast það að geta kallast algjört. Sé skorið niður, er skorið niður þar sem það veldur sem mestum sársauka, bæði líkamlega og andlega. Óþarfinn er ennþá liðinn. Ríkisstjórnin sparar í kaupum á nauðsynjavörum en leyfir lúsinni í hársverðinum að sjúga allt það blóð sem hún vill. 

Lengi getur vont versnað. Og núna er vont að versna. 


Sérfræðingarnir taka völdin

Flestir skipulagningarsinnar, sem hugsað hafa það mál til hlítar, hvernig koma megi skipulagningunni í framkvæmd, eru ekki í vafa um það, að áætlunarbúskapurinn krefst einræðisskipulags, og að fela verður nefnd sjerfræðinga að stjórna hinu flókna kerfi atvinnulífsins, en úrslita valdið verður að vera í höndum forustumanns, sem ekki má láta lýðræðisvenjur verða athöfnum sínum til trafala. Fylgismenn áætlunar búskaparins hugga okkur hinsvegar með því að einræðisskipulag þetta muni „aðeins“ ná til atvinnu mála.
 
Þessi orð eru úr útdrætti úr bók F.A. Hayek, Leiðin til ánauðar, sem kom fyrst út árið 1944. Í henni varar Hayek okkur við því hvernig ríkisvaldið fer að því að svipta okkur öllu frelsi án þess að almenningur fái rönd við reist, og jafnvel þannig að almenningur styður frelsissviptingu sína heilum hug.
 
Ein aðferð alræðissinna sem vilja veg ríkisvaldsins sem mestan (dæmi) er sú að fela "sérfræðingum" mikil "sjálfstæð" völd á afmörkuðum sviðum, og gera þau völd þannig "ópólitísk". Slíkt hefur þann kost (fyrir tiltekinn hagsmunahóp) að þá þurfa ákvarðanir ekki lengur að veltast um í tímafrekum umræðum lýðræðisins og því hægt að framkvæma mun hraðar og markvissar en þar sem málamiðlunum þarf að beita.
 
Hagsmunahópar eru mjög hrifnir af þessu kerfi. Bankamenn báðu um seðlabanka á sínum tíma og heimtuðu "sjálfstæði" hans til að geta prentað peninga að vild. Þeir sem boða mikla vá af völdum hlýnandi veðurfars vegna "losunar mannsins" á gróðurhúsalofttegundum vilja alþjóðlega stofnun með framkvæmdavald í einstaka ríkjum til að ná sínum markmiðum um "minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda".  Femínistar hafa víða komið sér inn í allskyns gamlar og nýjar ríkisstofnanir á Íslandi sem geta útdeilt sektum og öðrum refsingum á óþekk fyrirtæki sem ráða ekki fólk eftir sínu höfði. Hinn ríkisstyrkti hluti listamanna á Íslandi á víða sæti við borð þar sem fé skattgreiðenda er deilt út af miklu "sjálfstæði" til þeirra sjálfra án aðhalds frá kjörnum stjórnmálamönnum.
 
Þetta er þróun sem heldur stöðugt áfram og sér engan veginn fyrir endann á. Sérhagsmunirnir raða  sér í kringum ríkisjötuna og heimta fé skattgreiðenda en heimta um leið "faglegt sjálfstæði" frá stjórnmálamönnunum sem innheimta það. Kjósendur geta ekki losað sig við þessar afætur í kosningum og stjórnmálamenn eru skíthræddir við að styggja þær af ótta við rægingarherferð í næstu kosningum.
 
Leiðin til ánauðar er beinn og breiður vegur til helvítis þar sem allir hlusta á þá sem heimta af hvað mestri frekju.

Þeir sem eiga, og þeir sem vilja eiga

Hugtakið "eignaréttur" er sæmilega auðskilið. Eignaréttur felur í sér skýlausan einkarétt á nýtingu og ráðstöfun eignar. Stundum verndar hið opinbera eignaréttinn, til dæmis með aðstoð lögreglu og dómstóla. Stundum gengur ríkisvaldið á eignaréttinn, til dæmis með þjóðnýtingu eða skattlagningu. Menn geta aðlagast slíku, til dæmis með því að koma eignum sínum í skjól eða færa reglulega upptöku ríkisvaldsins á eignum inn í verð og rekstraráætlanir. Þannig hækka eigendur verð á eignum sínum í umhverfi eignaskatta til að varðveita ávöxtun sína, eða kaupendur lækka kauptilboð sín til að bæta sér upp skerðingu í formi framtíðareignaskatta.

En eignarétturinn er ekki alltaf stöðugur eða fyrirsjáanlega skertur. Frægt er til dæmis hvernig Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, gerði landareignir hvítra bænda í landi sínu að engu með einu pennastriki. Þegar kommúnistar taka við völdum er þeirra fyrsta aðgerð venjulega sú að svipta alla eignarétti og færa öll verðmæti undir regnhlíf opinberrar "gæslu" (þetta kalla þeir að gera allt að "sameign"). Í kjölfarið hrynur hagkerfi viðkomandi ríkis eða flýr inn á svarta markaðinn.

Pólitísk óvissa í kringum eignarétt er skaðleg jafnvel þótt hún feli ekki í sér beina þjóðnýtingu. Maður sem á eign sem stjórnmálamenn ræða sín á milli um að gera upptæka hagar sér öðruvísi en maður sem á eign sem ekki er eins umdeild. Sá sem er óöruggur um eign sína er sennilega líklegur til að umgangast hana verr en ella. Sá sem á heimili sem hann veit að á að brjótast inn í og ræna fer sennilega ekki eins vel með eigur sínar og sá sem á rammgirt hús með þjófavörn og öllu tilheyrandi.

Kvótakerfið á Íslandi er mjög umdeilt, sérstaklega á meðal þeirra sem engan kvóta eiga. Kvótalausir vilja eignast kvóta kvótaeigenda. Stjórnmálamenn hafa margir hverjir tekið vel í þær óskir og lofað upptöku eigna í formi kvóta. Þetta hlýtur að hafa áhrif á hegðun kvótaeigenda, sem margir hafa lagt í stórar fjárfestingar svo útgerðir þeirra geti starfað við nokkuð rekstraröryggi. 

En óvissan sem slík er ekki hið eina sem veldur óvissu. Hvað á að taka við ef ríkið þjóðnýtir kvóta kvótaeigenda? Margar hugmyndir eru á borðinu, en það er einfaldlega þannig að engin hugmynd getur átt sér neinar framtíðarvonir ef stjórnmálamenn leyfa óvissunni sífellt að ríkja, og leyfa allskyns "endurúthlutunar"-áformum að ná eyrum sínum. Óvissan ríkir á meðan stjórnmálamenn líta á þjóðnýtingu af ýmsu tagi sem raunverulegan pólitískan valkost. 

Hreinlegast væri að stjórnmálamenn sættu sig við að kvótakerfinu var komið á á sínum tíma, af illri nauðsyn, og hefur reynst vel fyrir gjaldeyrisöflun Íslands ólíkt því sem gerist víðast hvar annars staðar þar sem fiskveiðar eru baggi á herðum skattgreiðenda. Þjóðir apa upp íslenska kvótakerfið, og gera það af illri nauðsyn. Ekki öfugt. Íslendingar eiga að þakka fyrir að hafa gert veiðiréttindi í íslenskri lögsögu að framseljanlegri eign og gleyma því að einhverjir fengu og einhverjir ekki fyrir sífellt fjölgandi áratugum síðan.

Kerfið er ekki fullkomið, en það er betra en óvissan um það.


Ógeðfelld stjórnvöld í Rauða-Kína

Viðbrögð stjórnarinnar í Peking við þeirri ákvörðun norsku verðlaunanefndarinnar að veita Liu Xiaobo friðarverðlaun Nóbels sýna glögglega hið rétta eðli kommúnískra stjórnvalda, en þeir sem dirfast að gagnrýna að lögum og rétti sé fylgt í Kínverska alþýðulýðveldinu fá yfir sig fúkyrðaflauminn og hótanirnar frá glæpaklíkunni sem heldur um alla valdatauma þar eystra.

Norðmennirnir eiga mikinn heiður skilið að sýna kjark til að verðlauna Xiaobo sem getur vonandi orðið til þess að augu heimsins opnist fyrir viðurstyggilegu ofbeldi kommúnistastjórnarinnar gegn kínverskum borgurum. 


mbl.is Kína segir friðarverðlaun Lius brjóta gegn gildum Nóbels
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfum nýjan forsætisráðherra

Þó svo að þeim er þetta ritar geðjist ekki vel að vinstrimennsku Bjarna Benediktssonar, þá ætti þessi frétt að vera okkur Íslendingum til umhugsunar. Hér situr við völd forsætisráðherra sem er alls ófær um að eiga samskipti við erlenda þjóðarleiðtoga, auk þess sem hann gætir ekki hagsmuna Íslendinga af því kappi og áræðni sem þarf í erfiðum deilumálum.

Hvert sem litið er má sjá menn og konur sem væru hæfari til að vera í forystu ríkisstjórnar en sá ólánsami forsætisráðherra er þar situr nú og forðast samneyti við fólk.


mbl.is Íslendingar taki ekki á sig byrðarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband