Tuttugu prósent tekjuskattur?

Þriðju hrunfjárlög ríkisstjórnarinnar eru nú smám saman að koma í ljós. Fátt óvænt er þar að finna. Heilbrigðisþjónustu á að skera niður og inn að beini á sama tíma og ýmiss óþarfi fær áfram að þrífast hjá hinu opinbera, skatta á enn að hækka, og skuldir ríkissjóðs munu aukast frekar með áframhaldandi hallarekstri. Landflótti er hafinn en stjórnmálamenn vona að ekki herðist á honum enda fækkar þeim óðum sem vinna verðmætaskapandi störf, og fjölgar í hópi vinnufærra sem þiggja opinbera framfærslu. Stjórn og stjórnarandstaða rífast um „þolmörk" skattgreiðenda en slík umræða leiðir nánast undantekningalaust til þess að skattar eru hækkaðir örlítið meira.

Ríkið lætur sér ekki nægja að reka skóla, sjúkrahús, lögreglu og dómstóla, en um slíkan ríkisrekstur er nokkuð breið pólitísk sátt á Íslandi þótt undirritaður sé honum mótfallinn. Ríkið stendur auk þess í umsvifamikilli og rándýrri miðstýringu á landbúnaði, skiptir sér ítrekað af sjávarútveginum, semur um orkuverð og skattaundanþágur við erlend fyrirtæki og fjármagnar kaffihúsahangs fjölmennrar ríkislistaelítu, svo fátt eitt sé nefnt. Þessu hafa Íslendingar ekki efni á. Svo einfalt er það.

Lækning hins íslenska hagkerfis getur eingöngu átt sér stað með stórkostlegri lækkun skatta, miklum samdrætti í kæfandi umsvifum hins opinbera og opnun hagkerfisins fyrir verslun og viðskiptum. Umræðan ætti ekki að snúast um „þolmörk" skattgreiðenda, heldur „þolmörk" hins opinbera. Hvað stendur í vegi fyrir því að helminga hið opinbera á Íslandi á næsta ári og leyfa einkaframtakinu að taka við starfsmönnum ríkisins? Er hluti ástæðunnar kannski sá að nú er verið að byggja tónlistarhús fyrir marga milljarða og eyða þúsundum milljóna í aðildarviðræður við Evrópusambandið? Eru þetta mikilvægari útgjaldaliðir en heilbrigðisþjónusta og löggæsla? 

Ég legg til að fjárlög ríkisins verði færð aftur til ársins 2004 fyrir árið 2011, en í krónum svarar það til um 60% niðurskurðar á skatttekjum ríkisins miðað við fjárlög ársins 2010. Útgjöld þurfa að lækka ennþá meira til að stoppa í fjárlagagatið, sem þýðir stórkostlega fækkun opinberra starfsmanna.  Það sem ríkið hafði ekki á sinni könnu árið 2004 á það ekki að hafa á sinni könnu árið 2011. Á árinu 2004 mældust kjör barnafólks, ellilífeyrisþega og fátækra á Íslandi með þeim bestu í heimi. Þau geta verið það áfram þótt ríkisvaldið helmingist. Á árinu 2004 var skattaumhverfið á Íslandi talið aðlaðandi fyrir bæði fólk og fyrirtæki. Stefnum að því að svo megi aftur vera.

Geir Ágústsson

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 19. október 2010.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband