Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hagfræðin sem tæki til að réttlæta sósíalisma

Hagfræðin er mjög umdeild grein hugvísindanna. Sumir vilja meina að hún sé "gagnslaus", að hún sé í raun ekki vísindi heldur handahófskenndur grautur af kennisetningum, sem hver túlkar eftir eigin höfði.

Vissulega er hagfræðin sundurleit grein, og hagfræðingar sundurleit hjörð. Tveir menn, með samskonar hagfræðigráðu, geta með tilvísun í mismunandi hagfræðirit og -kenningar mælt með tveimur gjörólíkum aðferðum til að ná sama takmarki. Einn hagfræðingur segir e.t.v. að til að stækka hagkerfi þurfi bara að prenta peninga, á meðan annar hagfræðingur segir að peningamagni eigi að halda föstu og leggja þess í stað áherslu á að fólk leggi fyrir og fjárfesti.

Hvað sem því líður er ljóst að stjórnmálamenn hafa mikið sótt í smiðju hagfræðinga til að mála stjórnmálaskoðanir sínar litum vísindanna. Þetta sést vel á Íslandi í dag: Sprenglærðir hagfræðingar tala um að verðlag á lánsfé þurfi að vera svo og svo hátt eða lágt til að koma fjárfestingu af stað. Þeir tala um að skatta megi hækka svo og svo mikið án þess að "þolmörkum" sé náð. Þeir rýna í Excel-skjöl og komast að því að skuldsett neysla sé að skapa "hagvöxt", sem sé jákvætt.

Sá sem þetta skrifar er ekki hrifinn af svona misnotkun á hinni ágætu hagfræði. Hann tilheyrir hópi sem hafnar "mainstream" hagfræði dagsins í dag, og styðst við aðra, "austurríska" hagfræði til að skilja gangvert hagkerfis og samfélags.

Með hina "austurrísku" hagfræði að vopni er líka auðvelt að sjá í gegnum mest af vitleysunni sem veður uppi, bæði í fjölmiðlum og hjá sprenglærðum hagfræðingum hins opinbera.

Nokkur dæmi:

Verðlagsstjórn ríkisins á lánsfé er nauðsynleg, gagnleg og möguleg: Öll þekkjum við hinar reglulegu fyrirsagnir fjölmiðlanna að "stýrivextir Seðlabanka Íslands" verði nú að hækka eða lækka til að auka fjárfestingu eða draga úr þenslu/verðbólgu eða hvað það nú er. En hver er reynsla okkar af verðlagsstjórn ríkisins? Hún er slæm. Hún gengur jafnt yfir allt og alla og dregur því stórkostlega úr þeim fjölbreytileika sem markaðurinn þarf á að halda til að sameina framboð og eftirspurn á vörum/þjónustu/peningum. Ein vaxtartala hentar ekki öllum. Til að ná niður vaxtatölu þarf að prenta fé eða fá lánað að utan og skipta yfir í íslenskar krónur. Ríkisvaldið á að koma sér út af markaði peningaframleiðslu og verðlagsstjórnunar á peningum. 100 ára saga seðlabanka á Vesturlöndum á að vera miklu meira en nóg til að flæma alla frá þeirri hugmynd að ríkisvaldið sé góður peningaframleiðandi.

Skattar eru ekki alltaf skaðlegir: Jú, þeir eru það. Allir skattar, alltaf.

Hagvöxtur, eins og hann er yfirleitt mældur, er góður: Nei, sú er ekki alltaf raunin. Tölurnar blekkja. Skuldsett neysla og peningaprentun leiðir til "hagvaxtar", þ.e. vexti á tölum um neyslu, eyðslu og fjárfestingu. Rétt hagfræði segir að ef fólk leggur mikið fyrir þá leiði það til fjárfestinga og vaxtar á tekjum í framtíðinni, en þar með er ekki sagt að hagvöxtur eigi alltaf að vera markmðið. Almenningi gæti t.d. dottið í hug að nú sé kominn tími til að eyða sparnaðinum, og þá tekur neysla við af fjárfestingu. Það er ekki endilega slæmt. Hagvöxtur eins og hann er yfirleitt "mældur" í dag er lélegur mælikvarði á heilsu hagkerfis, oft villandi og gjarnan til merkis um hrörnandi heilsu hagkerfis (ef hagvaxtartölurnar eru fyrst og fremst á uppleið vegna skuldsetningar og peningaprentunar).

Opinber fjárfesting er góð: Nei, það er hún ekki. Hún sýgur fé frá fólki og fyrirtækjum sem geta þá ekki farið í sínar eigin fjárfestingar. Þeir sem fjárfesta fyrir eigið fé vanda yfirleitt valið, gera miklar kröfur um arð, og eru að öllu leyti betri til að velja góða fjárfestingarkosti en hið opinbera, þar sem stjórnmálamenn eyða fé annarra. Öll opinber fjárfesting drepur niður fjárfestingar einkaaðila. Öll opinber fjárfesting minnkar líkurnar og möguleikana á að einkaaðilar geti fjárfest í arðvænlegum verkefnum til framtíðar.

Þetta voru nokkur dæmi um það sem rétt hagfræði getur kennt stjórnlyndum stjórnmálamönnum og blaðamönnum sem eyddu námsárum sínum í lestur á skrifum annarra blaðamanna.  

Í hvert skipti sem stjórnmálamaður vísar í nauðsyn hinna og þessa ríkisafskipta í ljósi ástandsins í hagkerfinu ber að kveikja á öllum viðvörunarbjöllum. Stjórnmálamenn misnota hagfræðina til að réttlæta ríkisafskiptin. Hagfræðin á ekki skilið slíka misnotkun.


Er frelsi hið sama og afskiptaleysi?

Frjálshyggjumaðurinn er andvígur öllu valdboði og þar með öllum ríkisafskiptum. Sumir frjálshyggjumenn láta sig þó hafa það að samþykkja ríkisofbeldi í formi ríkislögreglu og ríkisdómstóla, en segja að það sé af illri nauðsyn. En fyrir utan slík frávik eru frjálshyggjumenn yfirleitt andríkismenn.

Þessu hafa margir, bæði óvart og viljandi, ruglað saman við afskiptaleysi og sagt að frjálshyggjumenn boði í stað ríkisvalds komi "ekkert".  Frjálshyggjumaðurinn segir t.d. að ríkisvaldið eigi ekki að skipta sér af því hver er með fulla vasa fjár og hver tóma. Sjái einhver með fulla vasa fjár ástæðu til að moka fé ofan í tóma vasa annarra þá sé honum það auðvitað í sjálfsvald sett. Lengra nær það samt ekki.

Þetta hafa andstæðingar frjálshyggjunnar, eða þeir sem misskilja hana, sagt að jafngildi því að enginn muni styðja við þá sem minna mega sín eða lenda í tímabundnum áföllum í lífinu. 

Þeir segja líka að ef ríkisvaldið sér ekki um að mennta okkur þá muni enginn afla sér menntunar.

Þeir segja líka að ef ríkisvaldið hefur ekki heilbrigðiskerfið á sinni könnu muni varla vera til neitt sem heitir heilbrigðiskerfi.

Þeir segja líka að vegir, vitar, tónlist og útivistarsvæði séu uppfinningar ríkisvaldsins sem muni hverfa úr sögunni ef ríkisvaldið hættir að halda í þeim lífinu.

Vitaskuld er ekkert af þessu rétt. Rétt eins og vitar og lestrarkennsla er góðgerðaraðstoð nokkuð sem einkaaðilar fundu upp og gerðu vel, en ríkisvaldið sópaði síðar undir sinn stóra og kæfandi verndarvæng og kom á spena skattgreiðenda. Að menn gefi til mannúðarmála, til að aðstoða náunga sinn eða aðstoða þá sem lenda í tímabundnum erfiðleikum er ekkert nýtt, og ekkert sem ríkisvaldið fann upp. Hvorki mannúð né góðmennska er fólgin í því að opna veskið þegar ríkisvaldið heimtir sína skatta. Góðgerðarstarfsemi á kostnað skattgreiðenda er því ekki til. En að ríkisvaldið veiti, með valdboði, úr einum vasa í annan er vitaskuld vel þekkt, og raunar það eina sem ríkisvaldið hefur á sinni könnu. 

Að ríkið hætti að hafa eitthvað á sinni könnu, og að það hverfi þar með úr sögunni er rökvilla sem styðst við pólitískan áróður þeirra sem vilja sem mest ríkisvald fyrir sem mestan tilkostnað. 


Ríkisvaldið þarfnast hlýðni þess sem það kúgar

Margir, sem horfa með hryllingi upp á ríkisvaldið þenjast út, vita ekki hvernig á að endurheimta það sem ríkisvaldið hefur hrifsað til sín. Karl Marx laumaði þeirri hugsun í fólk að óstöðvandi útþensla ríkisvaldsins væri "óumflýjanleg" þróun, sem væri ekki einu sinni stjórnað af einstaklingum, heldur einhverju óskýru og hálfguðlegu fyrirbæri sem hann kallaði "framleiðsluöflin" (wiki). Til hvers að berjast gegn óumflýjanlegum endalokum siðmenningarinnar eins og við þekkjum hana, og grárri auðn sósíalismans sem tekur við henni? Þróunin er óumflýjanleg! Lokaðu bara augunum og bíddu dómsdags sósíalismans.

En auðvitað er goðafræði Karl Marx ekki raunveruleg, frekar en sú goðafræði sem segir að á toppi Ólympíufjalls í Grikklandi sitji hálfnaktir guðir og skipti sér af málefnum mannanna. Samfélagið er samansafn einstaklinga, og þessir einstaklingar eru með hugmyndir, markmið og hugsanir. Viðhorf almennings hefur úrslitaáhrif á það hversu mikið ofbeldi ríkisvaldið getur leyft sér að beita þá. Þeir sem stjórna ríkisvaldinu eru bara lítið brot af samfélaginu öllu. Minnihlutinn getur ekki stjórnað meirihlutanum nema meirihlutinn leggi sig flatan og leyfi holdmiklum hermönnum hins opinbera að labba yfir sig.

En hvernig tryggir ríkisvaldið að hlýðni borgaranna sé sem mest, og að þeir láti kúgun, rányrkju og ofbeldi yfir sig ganga? Þar koma fræðimennirnir, blaðamenn og aðrir "álitsgjafar" til sögunnar. Þeir fá hlýjan stað í jötu ríkisvaldsins og í staðinn boða þeir náð og miskunn og nauðsyn ríkisvaldsins. Blaðamenn verða "upplýsingafulltrúar" ráðherra ef þeir standa sig vel. Fræðimennirnir fá heilu "rannsóknarsetrin" til ráðstöfunar til að framleiða ríkisáróður ef þeir sanna hollustu sína. 

Baráttan gegn ríkisvaldinu hefst í hugum okkar sem ríkisvaldið kúgar og kremur. Um leið og hlýðni okkar og viðhorf snýst gegn ríkisofbeldinu verður erfiðara fyrir ríkisvaldið að valta yfir okkur. Um leið og við, meirihlutinn, gerum forréttindahlöðnum minnihlutanum erfitt fyrir að mergsjúga okkur og stjórna á smásmugulegan hátt, þá verður mun erfiðara að mergsjúga okkur og stjórna á smásmugulegan hátt.  

Ríkisvaldið þrífst á auðmýkt þeirra sem það kúgar. Ef sú auðmýkt breytist í virka andstöðu, bæði í orði og í verki, er engin hætta á öðru en að ríkisvaldið megi aftur verða að þjónustutæki almennings (sem mætti gjarnan leggja niður, enda óþarfi) í stað þess að vera kúgunartæki minnihlutans á meirihlutanum. 


Sósíalisminn vofir yfir Íslandi

Flestir alþingismenn eru sósíalistar. Það kemur því vonandi fæstum á óvart að þau lög sem Alþingi samþykkir eru flest þess eðlis að þau færa íslenskt samfélag og hagkerfi nær sósíalísku þjóðskipulagi. Í slíku skipulagi á ríkisvaldið næstum því allt, og það sem það á ekki ráðskast það með í gegnum lög, reglur og embættismannakerfi.

Margir sósíalistar halda því fram að þeir séu ekki sósíalistar í raun. Sumir þeirra kalla sig jafnaðarmenn og aðrir róttæklinga og enn aðrir jafnvel frjálslynda og til hægri. En látum verkin tala, ekki orðin. Sósíalismi þýðir ríkisyfirráð á auðlindum og framleiðslutækjum. Aðeins stigsmunur er á raunverulegu eignarhaldi ríkisins og smásmugulegum reglugerðum þess, sem segja hverjir mega gera hvað við hvaða eigur sínar. Ef full yfirráð yfir eigum eru ekki lengur hjá eigendum eignanna, heldur reglugerðararmi ríkisvaldins, þá er í raun ríkisvaldið við stjórnvölinn, og sósíalismi því við lýði.

Samfélagið í sósíalísku þjóðskipulagi skiptist í megindráttum tvo hópa; þá sem afla verðmætanna og þá sem neyta þeirra, og sífellt fjölgar í seinni hópnum þar til hagkerfið hrynur.

Helstu merki um hinn vaxandi sósíalisma eru höft á viðskiptum með peninga (gjaldeyrishöft), óbein þjóðnýting lífeyrissjóðanna í gegnum vaxandi lántökur hins opinbera hjá þeim, umsvifamikill fyrirtækjarekstur ríkisvaldsins, t.d. í gegnum bankana, afslappað viðhorf almennings og yfirvalda til þjóðnýtingar, t.d. á veiðiheimilidum og landareignum, og aukin spilling hjá hinu opinbera, sem verður sífellt erfiðara að leiða hjá sér.

Algjör óþarfi er að forðast að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Sósíalisminn er í sókn á Íslandi og lokaniðurstaða þeirrar sóknar er vel þekkt: Gjaldþrot allra og hagkerfi í rjúkandi rústum. Þeir sem óska sér einhvers annars eiga nú þegar að ganga í hóp þeirra sem berjast gegn sósíalismanum, ella mæta fyrirsjáanlegum afleiðingum.
 
Geir Ágústsson
 
Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 25. apríl 2012 og er aðgengileg áskrifendum að vefútgáfu blaðsins hér

Ríkisvaldið er óréttlætanleg stofnun og óþarfi

Ég fyrirlít ríkisvaldið og lít á það sem ógn við frelsi, velferð og framþróun mannsins á öllum sviðum. Það dregur úr þrótti allra einstaklinga sem það hefur vald yfir, hamlar þeim í leitinni að hamingjunni og rænir þá af þeim verðmætum sem þeir afla í frjálsum viðskiptum og samskiptum. 

Ég er stundum spurður að því hvað ég vilji „í staðinn fyrir ríkið“ ef svo færi að það væri afnumið á morgun. Vil ég einhvers konar óformlegt ríkisvald þar sem fólk hittist og ræðir sín á milli um hvaða lög eiga að gilda í samskiptum og viðskiptum? Vil ég að deilur verði útkljáðar með vopnum í stað þess að vera vísað til dómstóla ríkisvaldsins? Vil ég að varnir gegn þjófum og ofbeldismönnum verði afmáðar? Vil ég að fátækir öryrkjar drepist úti á götu?

Svarið við öllum þessum spurningum er það sama: Ég vil að í stað ofbeldis og ríkisnauðgunar á samfélaginu komi frjálst samfélag frjálsra einstaklinga, og veit að í öllum tilvikum verða lausnirnar sem finnist í frelsinu betri en þær sem finnast í ríkiseinokun á lausnaleitinni.

Einu „lögin“ sem þurfa að gilda eru þau að fólk viðurkenni hinn óhjákvæmilega sjálfseignarrétt allra einstaklinga á eigin líkama og þar með eignarrétt einstaklinga á því sem þeir afla sér með vinnu og í frjálsum samningum, samskiptum og viðskiptum við aðra eignaeigendur (hvort sem það eru samningar um að skiptast á vinnu og fé, frjáls framlög til einhvers eða einhverra, eða eitthvað annað) [1]. 

Tvennt styður svo mína hörðu afstöðu gegn ríkisvaldinu.

Í fyrsta lagi er ég á móti ofbeldi og árásum á líkama og eigur. Það er ég bara, hvort sem slíkt ofbeldi eða þjófnaður gæti flokkast sem „hagkvæmur“ eða „nauðsynlegur fyrir heildina“ eða eitthvað annað – þetta eru réttlætisrökin gegn ríkisvaldinu. Ég er einfaldlega hugsjónamaður í andstöðu minni við ofbeldi og þjófnað. Ég geri engan greinarmun á ræningjanum sem situr fyrir gömlu konunni í myrku húsasundi, og embættismanninum sem rænir launþega af afrakstri vinnu þeirra. Skiptir engu hvort þjófurinn lofar að kaupa í matinn fyrir gömlu konuna fyrir ágóðann af þjófnaðinum eða ekki. Skiptir engu hvort embættismaðurinn lofar að nota ránsfenginn sinn til að kaupa allskyns tryggingar, menntun og malbik á vegina fyrir þann skattpínda eða ekki. 

Í öðru lagi er það alveg á hreinu að allt sem er gert í skjóli einokunar og lögbanns á samkeppni verður verra og dýrara en það sem er gert í samkeppnisumhverfi, þar sem allir með góðar hugmyndir geta prófað þær í samkeppni við aðra og þannig dottið niður á bestu lausnina – þetta eru nytjarökin gegn ríkisvaldinu [2]. Hver er munurinn á lélegri Trabant-framleiðslu Austur-Þýskalands kommúnismans, og lélegri framleiðslu íslenska ríkisins á löggæslu og dómskerfi? Hann er lítill. Bílar og löggæsla eru varningur og þjónusta. Ef framleiðsla varnings eða veiting þjónustu er sett í skjól ríkiseinokunar þá mun afleiðingin vera hærra verð og versnandi gæði. Ríkisvaldið mun hámarka kostnað og lágmarka þjónustu, rétt eins og einkaaðilar sem njóta einokunarréttinda í skjóli ríkisvaldsins.  

En ef ég vil að ríkisvaldið hætti að vera til, hvað vil ég þá „í staðinn“? Ég vil ekkert í staðinn. En ef mig langar að kaupa þjónustu einhvers til að verja eigur mínar fyrir þjófum eða mig fyrir ofbeldi, þá á ég að mega það. Og ef mig langar að kaupa heilbrigðistryggingu þá á ég að mega það. En ef mig langar í hvorugt, þá á það líka að vera í lagi. Og ef einhver sem selur heilbrigðistryggingu vill fá mig í viðskipti við sig, þá má hann reyna að sannfæra mig um að það sé góð hugmynd, sem það eflaust er, en ég vil sjá kaup og kjör áður en ég skrifa undir.
 
Ríkisvaldið er ekki til af nauðsyn. Það er til af því að á einhverjum tímapunkti í sögunni tókst hópi einstaklinga að ná völdum yfir öllum öðrum. Þeim völdum má ná til baka.
 
Ríkisvaldið er ekki hægt að temja eða binda niður, t.d. með stjórnarskrá [3]. Það þarf að víkja. Eitthvað ríkisvald verður alltaf á endanum að stóru ríkisvaldi. Ríkisvald undir stjórn hófsamra einstaklinga lendir alltaf á endanum í höndum stjórnlyndra einstaklinga. Ríkisvaldið er óvinurinn. Það er andstæða friðsamlegra samskipta og viðskipta. Það er stofnun ólík öllum öðrum - stofnun valds, ofbeldis, löglegs þjófnaðar og afskiptasemi.  
 
Geir Ágústsson 
 
Tilvísanir:
[1] The Idea of a Private Law Society, eftir Hans-Hermann Hoppe.
[2] Man, Economy and State, eftir Murray Rothbard (sjá sérstaklega kafla 19 fyrir niðurstöður hagfræðinnar á áhrifum hvers kyns ríkisafskipta).
[3] Anatomy of the State, eftir Murray Rothbard.
 

Frjálshyggjufélagið fagnar stofnun netlögreglu

Stjórn Frjálshyggjufélagsins lýsir yfir mikilli ánægju með fyrirhugaðar lagabreytingar sem fela meðal annars í sér stofnun netlögreglu á Íslandi. Lítill hópur einstaklinga, sem ráðherra handvelur ("[r]áðherra setur, að fenginni umsögn frá Persónuvernd, nánari fyrirmæli um starfsemi
CERT-ÍS í reglugerð ..."), fær loksins nauðsynlegt svigrúm til að fylgjast með og skipta sér af athöfnun Íslendinga á netinu. Tafir vegna málaflækja, dómsúrskurða og annarra hindrana á vegi réttvísinnar verður hrundið í burtu. Því ber að fagna.

Rök þeirra sem andmæla eru veik og halda ekki vatni. Glæpamenn geta ekki lengur nýtt sér netið til að samræma ólöglegar athafnir sínar. Þjófar, sem stela hugverkum og hreyfimyndum á netinu, mega óttast.

Þeir sem eru saklausir þurfa ekki að óttast eftirlit hins opinbera og óþarfi er að óttast að hið mikla eftirlitsvald sem hið opinbera fær í gegnum netlögregluna muni leiða til misnotkunar. Á Íslandi segir löng saga símahlerana sína sögu. Þær hafa alla tíð verið múlbundnar inn í lagaflækjur og dómsúrskurði, en engu að síður hafa ásakanir um pólitískan ásetning á bak við þær heyrst víða [1|2|3]. Með því að afnema kvöð um dómsúrskurði af eftirliti með netinu er engin hætta á slíku, enda hafa opinberir starfsmenn fengið betri þjálfun nú en í fyrri tíð.

Stjórn Frjálshyggjufélagsins vonar að þessi ályktun verði sú seinasta sem hún sendir frá sér án fyrirfram vitneskju yfirvalda.

(Rétt er að taka fram að þessi færsla er háð. Frjálshyggjufélagið er að sjálfsögðu andsnúið auknu eftirliti ríkisins með borgurunum.)


Er ekki komið nóg af vinstristjórn í bili?

Sá sem þetta skrifar á erfitt með að skilja þá sem styðja ríkisstjórn Íslands, réttnefnd "versta ríkisstjórn Íslandssögunnar".

Þessi ríkisstjórn virðist vera upptekin af öllu nema því sem skiptir máli. Hagkerfið er ennþá að dragast saman, skuldir þess að vaxa og tækifærum fækkar. Þau tækifæri sem skjóta upp kollinum er kæfð í fæðingu, og það sem gengur vel er bundið inn í spennitreyju reglugerða og hækkandi skatta.

Enn mælist stuðningur við ríkisstjórnina. Hana styðja ennþá hörðustu stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna, sem er alveg sama hvað verður um Ísland, bara á meðan Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn er haldið í kuldanum.

Stjórnarandstaðan er líka veik og í felum. Ef einhver þekkti bara til íslenskra stjórnmála í gegnum ummæli íslenskra þingmanna mundi viðkomandi sennilega trúa því af einlægni að á Íslandi væru bara vinstrimenn, og menn sem þegja. 

Fleiri og fleiri eru að gefast upp á vinstristjórninni, meira að segja fleiri og fleiri þingmenn stjórnarflokkanna. Þráinn varð vinstri-grænn, Ásmundur varð framsækinn. Lilja og Atli misstu litinn, og Guðmundur gerði Samfylkingarmaður í felulitum. Rótið er mikið. Ríkisstjórnin hangir saman á bláþræði valdagræðgi, og veit að hún verður kosin út í hafsauga í næstu kosningum, sama hvenær þær nú verða, og þær verða því haldnar eins seint og hægt er.

Hvað er verra en stjórnmálamaður án hugsjóna? Svarið gæti kannski verið: Stjórnmálamaður sem forðast eigin skoðanir.


mbl.is Óviss um stuðninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið er vandamálið, ekki lausnin

Þegar ríkisvaldið ætlar sér að "leysa vandamálin", þá magnast þau upp og verða verri.

Því lengri tíma sem tekur fyrir ríkisvaldið að draga úr afskiptum sínum og "björgunaraðgerðum", þeim mun verra verður ástandið. 

Því miður eru stjórnmálamenn yfirleitt þeirrar gerðar að vera fólk "aðgerða", sem vill "gera eitthvað". Þeir geta því ekki hugsað sér að klippa á afskipti hins opinbera. Þvert á móti, þá vilja þeir yfirleitt að sjúklingurinn sem hagkerfið er orðið að fái stærri og stærri skammta af lyfinu sem gerði hann veikan.

Það er því undir almenningi komið að krefjast aðgerðaleysis stjórnmálamanna. Stundum er heppnin með almenningi, og æðsti valdsmaður ríkisins fær heilablóðfall og getur ekkert aðhafst, og fyrir vikið fær markaðurinn svigrúm til að leiðrétta sig. En þegar heppnin er ekki til staðar, þá þarf markvissari kröfu frá almenningi um að halda stjórnmálamönnum frá hagkerfinu sem þeir eyðilögðu og vilja nú eyðileggja enn meira með víðtækum sósíalisma.

Tillögur um skattalækkanir eru góðra gjalda verðar. Þeim þarf að fylgja tillögur um mikinn niðurskurð á umfangi og kostnaði hins opinbera. Skattar þurfa að lækka, en útgjöld ríkisins þurfa að lækka enn meira og svo mikið að svigrúm verði til að greiða niður skuldir hins opinbera hratt. 

En það er ekki nóg að taka kreditkortið af hinu opinbera. Afskipti þess af frjálsum viðskiptum og samskiptum þurfa líka að dragast saman. Markaður sem sér minni skattheimtu en aukið opinbert eftirlit er ekki frjálsari en sá sem borgar þunga skatta en fær að öðru leyti að leggja allt sitt undir dóm og eftirlit neytenda.  Þrællinn er ekki frjáls þótt hlekkirnir séu fluttir af hægri fæti hans og yfir á þann til vinstri.

Ef stjórnmálamenn vilja "leysa vandamálin", þá væri nærtækast fyrir þá að leggja til að frídögum þeirra verði fjölgað í 360 á ári. 


mbl.is Skattarnir lækki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldeyrishöftin eru pólitísk brella

Samfylkingin vill hafa krónuna í höftum til að láta evruna líta þeim mun betur út. Gjaldeyrishöftin eru pólitísk brella sem er ætlað að kvelja Íslendinga til stuðnings við evruna.

Efnahagsleg rök fyrir höftunum eru ekki til staðar, nema að því leyti að ef menn vilja flótta frá efnahagslegum veruleikanum, þá eru höftin gott tæki til þess. Íslendingar þurftu að aðlaga sig að breyttum kaupmætti krónunnar árið 2001 þegar fastgengisstefnunni var sleppt. Þá tók krónan dýfu, allt innflutt hækkaði í verði, allt útflutt varð að miklu fleiri krónum en áður, og eftir tvö eða þrjú misseri hafði rykið sest.

Íslenska krónan hefði að öllu jöfnu átt að fá að taka út svipaða aðlögun eftir hrunið. En hún fékk það ekki. Það sem í upphafi var af mörgum talin vera efnahagsleg en jafnframt tímabundin nauðsyn varð að varanlegri pólitískri brellu og fullnægingarmeðali fyrir þá sem tilbiðja opinbera haftastefnu og ríkismiðstýringu.

Samfylkingarráðherrar munu halda áfram að tala krónuna niður og evruna upp á meðan fjölmiðlamenn halda áfram að reka hljóðnema upp að þeim, og þeir munu berjast hart fyrir því að haftastefnunni verði haldið áfram, sama hvað tautar og raular. Seðlabanki Íslands hefur að öllum líkindum fengið þau pólitísku fyrirmæli að viðhalda höftunum til a.m.k. ársins 2013 þegar Samfylkingin verður í seinasta lagi kosin út í hafsauga. Öllum árum er róið að því að sópa Íslandi sem lengst í átt að Brussel á meðan.

Þetta sáu margir fyrir, og þetta er að rætast. Höftin eru brella, og hafa markmið sem koma heilsu hins íslenska hagkerfis ekkert við.

Geir Ágústsson

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 12. október 2011 og er aðgengileg áskrifendum að vefútgáfu blaðsins hér.


Atlaga að frjálsu samfélagi

Atlagan að stjórnarskrárbundnum réttindum Íslendinga virðist engan endi ætla taka. Nú þegar hafa eignaréttindi tekið á sig stórkostlegt högg í gegnum skattkerfið. Frelsi til viðskipta er að miklu leyti háð því að skriffinnar hjá Seðlabanka Íslands heimili viðskiptin. Þeir sem stunda heiðarleg, en „svört“ viðskipti, eru eltir uppi af eftirlitsmönnum ríkisins og þeim stungið í steininn sem gera sig seka um að skiptast á vörum og þjónustu án þess að greiða hæsta virðisaukaskatt í heimi. Nú borgar sig ekki að ráða fólk til að þrífa, klippa hár og baka pizzur nema gera það „undir borðið“ og í fjarveru stighækkandi skattheimtu á launatekjur og atvinnurekstur. Venjulegt fólk er orðið að glæpamönnum.

Tillaga hins svokallaða stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá hefur það sem meginþema að gera öll réttindi Íslendinga að skotspóni löggjafans. Hægt er að afnema öll þeirra með einfaldri löggjöf, ef stjórnlagaklúbburinn fær sínu framgengt. Engin réttindi til að fá að vera í friði fyrir ríkisvaldinu verða óhult, og þau munu því öll verða skert til muna ef uppkast að nýrri stjórnarskrá verður lögfest.

Ríkisstjórnin sem nú situr tók við slæmu búi og gerir það verra með hverjum deginum sem líður. Gegnsæi í stjórnsýslunni hefur minnkað verulega. Einkavæðing fer fram í lokuðum bakherbergjum opinberra bygginga, og skal engan undra ef þar eru leyfðar reykingar, enda eru sumir jafnari en aðrir á Íslandi.

Ef ríkisstjórnin situr út kjörtímabilið er óhætt að gera ráð fyrir að af þeim 600 dögum sem eftir eru af því verði flestir þeirra nýttir til að herða tak ríkisvaldsins á íslensku samfélagi. Ef sagan er einhver vegvísir um framtíðina má svo sennilega gera ráð fyrir að það taki 6000 daga að vinda ofan af þeim sósíalisma sem tók 600 daga að koma á. Því fyrr sem ríkisstjórnin sem nú situr víkur, því betra.

Geir Ágústsson

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 14. september 2011 og er aðgengileg áskrifendum að vefútgáfu blaðsins hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband