Hagfræðin sem tæki til að réttlæta sósíalisma

Hagfræðin er mjög umdeild grein hugvísindanna. Sumir vilja meina að hún sé "gagnslaus", að hún sé í raun ekki vísindi heldur handahófskenndur grautur af kennisetningum, sem hver túlkar eftir eigin höfði.

Vissulega er hagfræðin sundurleit grein, og hagfræðingar sundurleit hjörð. Tveir menn, með samskonar hagfræðigráðu, geta með tilvísun í mismunandi hagfræðirit og -kenningar mælt með tveimur gjörólíkum aðferðum til að ná sama takmarki. Einn hagfræðingur segir e.t.v. að til að stækka hagkerfi þurfi bara að prenta peninga, á meðan annar hagfræðingur segir að peningamagni eigi að halda föstu og leggja þess í stað áherslu á að fólk leggi fyrir og fjárfesti.

Hvað sem því líður er ljóst að stjórnmálamenn hafa mikið sótt í smiðju hagfræðinga til að mála stjórnmálaskoðanir sínar litum vísindanna. Þetta sést vel á Íslandi í dag: Sprenglærðir hagfræðingar tala um að verðlag á lánsfé þurfi að vera svo og svo hátt eða lágt til að koma fjárfestingu af stað. Þeir tala um að skatta megi hækka svo og svo mikið án þess að "þolmörkum" sé náð. Þeir rýna í Excel-skjöl og komast að því að skuldsett neysla sé að skapa "hagvöxt", sem sé jákvætt.

Sá sem þetta skrifar er ekki hrifinn af svona misnotkun á hinni ágætu hagfræði. Hann tilheyrir hópi sem hafnar "mainstream" hagfræði dagsins í dag, og styðst við aðra, "austurríska" hagfræði til að skilja gangvert hagkerfis og samfélags.

Með hina "austurrísku" hagfræði að vopni er líka auðvelt að sjá í gegnum mest af vitleysunni sem veður uppi, bæði í fjölmiðlum og hjá sprenglærðum hagfræðingum hins opinbera.

Nokkur dæmi:

Verðlagsstjórn ríkisins á lánsfé er nauðsynleg, gagnleg og möguleg: Öll þekkjum við hinar reglulegu fyrirsagnir fjölmiðlanna að "stýrivextir Seðlabanka Íslands" verði nú að hækka eða lækka til að auka fjárfestingu eða draga úr þenslu/verðbólgu eða hvað það nú er. En hver er reynsla okkar af verðlagsstjórn ríkisins? Hún er slæm. Hún gengur jafnt yfir allt og alla og dregur því stórkostlega úr þeim fjölbreytileika sem markaðurinn þarf á að halda til að sameina framboð og eftirspurn á vörum/þjónustu/peningum. Ein vaxtartala hentar ekki öllum. Til að ná niður vaxtatölu þarf að prenta fé eða fá lánað að utan og skipta yfir í íslenskar krónur. Ríkisvaldið á að koma sér út af markaði peningaframleiðslu og verðlagsstjórnunar á peningum. 100 ára saga seðlabanka á Vesturlöndum á að vera miklu meira en nóg til að flæma alla frá þeirri hugmynd að ríkisvaldið sé góður peningaframleiðandi.

Skattar eru ekki alltaf skaðlegir: Jú, þeir eru það. Allir skattar, alltaf.

Hagvöxtur, eins og hann er yfirleitt mældur, er góður: Nei, sú er ekki alltaf raunin. Tölurnar blekkja. Skuldsett neysla og peningaprentun leiðir til "hagvaxtar", þ.e. vexti á tölum um neyslu, eyðslu og fjárfestingu. Rétt hagfræði segir að ef fólk leggur mikið fyrir þá leiði það til fjárfestinga og vaxtar á tekjum í framtíðinni, en þar með er ekki sagt að hagvöxtur eigi alltaf að vera markmðið. Almenningi gæti t.d. dottið í hug að nú sé kominn tími til að eyða sparnaðinum, og þá tekur neysla við af fjárfestingu. Það er ekki endilega slæmt. Hagvöxtur eins og hann er yfirleitt "mældur" í dag er lélegur mælikvarði á heilsu hagkerfis, oft villandi og gjarnan til merkis um hrörnandi heilsu hagkerfis (ef hagvaxtartölurnar eru fyrst og fremst á uppleið vegna skuldsetningar og peningaprentunar).

Opinber fjárfesting er góð: Nei, það er hún ekki. Hún sýgur fé frá fólki og fyrirtækjum sem geta þá ekki farið í sínar eigin fjárfestingar. Þeir sem fjárfesta fyrir eigið fé vanda yfirleitt valið, gera miklar kröfur um arð, og eru að öllu leyti betri til að velja góða fjárfestingarkosti en hið opinbera, þar sem stjórnmálamenn eyða fé annarra. Öll opinber fjárfesting drepur niður fjárfestingar einkaaðila. Öll opinber fjárfesting minnkar líkurnar og möguleikana á að einkaaðilar geti fjárfest í arðvænlegum verkefnum til framtíðar.

Þetta voru nokkur dæmi um það sem rétt hagfræði getur kennt stjórnlyndum stjórnmálamönnum og blaðamönnum sem eyddu námsárum sínum í lestur á skrifum annarra blaðamanna.  

Í hvert skipti sem stjórnmálamaður vísar í nauðsyn hinna og þessa ríkisafskipta í ljósi ástandsins í hagkerfinu ber að kveikja á öllum viðvörunarbjöllum. Stjórnmálamenn misnota hagfræðina til að réttlæta ríkisafskiptin. Hagfræðin á ekki skilið slíka misnotkun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband