Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ríkið þarf að minnka, og nú er tíminn!

Niðursveifla í hagkerfi er gott tækifæri til að taka til í rekstri hins opinbera. Hinn ábyrgi stjórnmálamaður veit að hallarekstur á ríkissjóði er banvænn fyrir hagkerfið og skattgreiðendur. Hann sér tækifæri í minnkandi skattheimtu ríkisins - tækifæri til að taka til! Meira að segja stjórnmálamenn sem segja oft meira en þeir meina tala um að vinda ofan af ríkisrekstrinum. Það er gott.

Á Íslandi er fé skattgreiðenda í stórum stíl veitt í niðurgreiðslur og styrki til landbúnaðar. Á þessu hafa Íslendingar einfaldlega ekki efni. Það er því upplagt að nota tækifærið nú á krepputímum og skera þessar styrkjagreiðslur niður í núll.

Fordæmið er til staðar og finnst á Nýja-Sjálandi. Þar var, eins og er á Íslandi í dag, til kerfi umsvifamikilla styrkja og sértækrar aðstoðar til landúnaðarins. En svo kom kreppa, og menn gerðu sér grein fyrir að fjármögnun landbúnaðarstyrkja með opinberum lántökum var síður en svo af hinu góða.

Eða eins og segir á einum stað:

New Zealand was forced into the reform process by a clear sense of impending economic catastrophe. Simply put, it had to eliminate subsidies because it could no longer afford them.

Það skal tekið fram að það voru vinstrimenn sem afnámu styrkjagreiðslur til landbúnaðar á Nýja-Sjálandi, og þessu þorðu þeir því stuðningur við þá meðal bænda var hvort eð er lítill!

The reforms in New Zealand were undertaken by a left-wing government that had a thin rural constituency at best. It did not expect to lose political support, since there was only limited support extant for the Government in the rural sector in any case.

Á ekki eitthvað svipað við um á Íslandi í dag?

Bændur gerðu sér líka grein fyrir að niðurgreiðslur til þeirra væru eitraður kokkteill því þegar stjórnmálamenn "niðurgreiða", þá vilja þeir líka stjórna. Og bændur sáu líka að það er engum til bóta að reka ríkið með halla til að styrkja eina atvinnugrein, eða eins og segir á einum stað:

[Farming leaders] reasoned that a key cause of inflation was the budget deficits required to fund farm subsidies (among other programs), so that more subsidies only made the problem worse. 

Lexían ætti að vera skýr: Íslendingar hafa ekki efni á því að niðurgreiða landbúnað. Þeir eiga því að hætta því. Nú er tækifærið fyrir stjórnmálamenn sem óttast um atkvæði sín og láta hugsjónir stjórnast af skoðanakönnunum, því það er sennilega meiri skilningur fyrir því nú en oft áður að ríkið þurfi að skreppa töluvert saman ef íslenska hagkerfið á að eiga sér viðreisnar von.


Velferðarríki andskotans

Þegar ríkisstjórn vinstriflokkanna tók við stjórnartaumum hét hún því að starfa í anda „norrænna velferðarstjórna”. Þetta var snjallt orðalag. Flestir Íslendingar tengja Norðurlöndin við öflugt velferðarkerfi og sambland af háum sköttum og háum endurgreiðslum í formi allskyns bóta. Það var því viðbúið að ríkisstjórnin hækkaði alla skatta og fyndi upp á nýjum álögum til að fjármagna stækkandi velferðarkerfi.

Hin íslenska vinstristjórn reyndist samt vera kaþólskari en páfinn þegar kemur að norrænni velferð. Á meðan Norðurlöndin reyna að takast á við halla í fjármálum hins opinbera og lækka skatta, sérstaklega á launafólk, stefna Íslendingar í hina áttina. Nú er svo komið að skattarnir á Íslandi eru svipaðir og þar sem þeir eru hæstir á Norðurlöndunum, en á sama tíma hefur velferðarkerfinu verið fórnað á kostnað allskyns gæluverkefna ríkisstjórnarflokkanna sem bæði auka hallann á fjárlögum og eyðileggja verðmætasköpun í landinu. Hér má nefna óþörf útgjöld eins og hið kolólöglega stjórnlagaráð, ESB-umsókn og pólitísk réttarhöld. Og það er komið í veg fyrir atvinnuuppbyggingu með stöðvun stórra framkvæmda í nafni umhverfisverndar, gjaldeyrishöftum til að láta evruna líta betur út, þjóðnýtingu veiðiheimilda, og lengi má telja.

Hið íslenska vinstri er miklu lengra til vinstri en gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum. Hinn norræni jafnaðarmaður vill að breytingar eigi sér stað í smáum skömmtum á löngum tíma, til að trufla ekki verðmætasköpun og starfsemi hagkerfisins. Hinn íslenski jafnaðarmaður er tilbúinn að varpa fyrir róða öllu því sem virkar á meðan hann er við völd því hann veit að íslenskir kjósendur munu aldrei endurnýja umboð hans.

Íslendingar hafa nú vonandi lært sína lexíu og greiða vonandi aldrei aftur fyrir aðgengi vinstriflokkanna að ríkisstjórn. Flokkar jafnaðarmanna og sósíalista í Skandinavíu hafa fyrir löngu hafnað þeirri ofurtrú á ríkið sem var við lýði fyrir um þrjátíu til fjörutíu árum. Íslenskir „skoðanabræður” þeirra stefna í þveröfuga átt. Þeir vilja skattpína almenning í drep, en láta hjá líða að veita almenningi þjónustu í staðinn. Þetta þjóðskipulag er réttnefnt velferðarríki andskotans.

Geir Ágústsson

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 13. júlí 2011 (tengill á grein fyrir áskrifendur að vefútgáfu Morgunblaðsins: HÉR).


Siv og svarti markaðurinn

Siv Friðleifsdóttir og fleiri þingmenn hyggjast nú færa megnið af tóbakssölu landsins niður í hinn ábatasama en ofbeldisfulla og miskunnarlausa svarta markað. Þetta á að gerast með lögbanni á sölu tóbaks í venjulegum verslunum og söluturnum. Þeir sem starfa á hinum svarta markaði nú hljóta að gleðjast yfir þessari vænu búbót og vona að alþingismenn láti glepjast af tækifærismennsku og eltingarleik við pólitískan rétttrúnað og afgreiði hið hræðilega lagafrumvarp með hraði, og helst án umræðu.

Svarti markaðurinn hefur tekið vel við sér síðan hrunið 2008 og síðan ákveðið var að stefna með hraðbyri að sósíalísku þjóðskipulagi hér á landi. Gjaldeyrissala er nú stunduð þar af miklum móð enda gjaldeyrishöftum fylgt eftir af meiri ofstopa en elstu menn muna frá fyrri tíð slíkra hafta. Viðskipti með reiðufé eiga sér nú stað í mun ríkari mæli en fyrir örfáum misserum og mun víðar, t.d. á hárgreiðslustofum, smurstöðvum og verkstæðum. Í tilraun sinni til að hrifsa stærri sneið af minnkandi köku standa yfirvöld nú frammi fyrir því að kakan er orðin agnarsmá. Það var fyrirsjáanlegt þegar lagt var af stað með innleiðingu allsherjar sósíalisma hér á landi, en nú er það veruleikinn sem blasir við.

Dekstur yfirvalda við hinn svarta markað er að mörgu leyti skiljanlegt, í ljósi þess að fáir þingmenn kunna nokkur skil á grunnatriðum hagfræðinnar. Almenningur þarf hins vegar að gera meiri kröfur til sjálfs sín en hann gerir til þingmanna sinna, og setja spurningamerki við hinn gengdarlausa yfirgang yfirvalda á frjálsum samskiptum og viðskiptum fólks og fyrirtækja þess. Menn geta ekki búist við því að innleiðing sósíalisma hafi aðrar afleiðingar en sósíalisma. Menn geta ekki búist við því að hinn íslenski sósíalismi endi öðruvísi en sósíalismi annarra landa - með gjaldþroti alls og allra.

Geir Ágústsson

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu, 1. júní 2011


Göngum lengra

Ósköp er nú flest kjánalegt sem frá þessari borgarstjórn kemur. Þannig hefði verið mun áhrifaríkara að nefna Garðastræti Liu Xiaobo stræti og Víðimel Ai WeiWei mel, en við þessar götur eru fulltrúar Rauða-Kína með sendiskrifstofur sínar. Þannig hefðu sendiskrifstofur þessara hryllilegu stjórnvalda hér í borg borið á bréfsefni sínu nöfn kínverskra andófsmanna. Þannig gætu borgaryfirvöld lagt sitt lóð á vogarskálarnar svo þessir menn verði leystir úr haldi.

 


mbl.is Laugavegurinn fær nýtt nafn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavæðum Laugaveginn (til að byrja með)

Eilífar deilur hafa verið um bílaumferð í miðbæ Reykjavíkur í mörg ár. Sumum finnst að Laugavegurinn, svo dæmi sé tekið, eigi að vera "göngugata", og að fjarvera bíla muni hafa margvíslega kosti í för með sér, t.d. fyrir þá sem þola ekki hljóðið í bílvélum. Aðrir mótmæla, og benda á að þegar umferð hefur verið takmörkuð á Laugaveginum hafi velta fyrirtækja í götunni fallið um allt að helming miðað við hliðstæða daga þar sem umferð hefur verið leyfð. Bann við bílaumferð muni því setja verslunarlíf í götunni á hausinn.

Það kann vel að vera að bílaumferð hafi í för með sér fleiri ókosti en kosti fyrir "lífið" á Laugaveginum. En hverjir vita það best? Eru það borgarfulltrúar sem "hafa samráð" við "hagsmunaaðila"? Eða eru það hagsmunaaðilarnir? Er stundum best að leyfa umferð og stundum ekki? Á að vera lokað fyrir bílaumferð á sumrin eða ekki, og þá alla daga eða bara á góðviðrisdögum? Á að loka öllum Laugaveginum eða bara hluta hans? Hver á að vega og meta það? Hver á að hafa lyklana að hliðinu að Laugaveginum og ákveða hvenær hliðið er opið fyrir bíla og hvenær ekki? Eiga hliðin að vera eitt eða fleiri?

Lausnin á þessari langvarandi deilu liggur auðvitað í augum uppi. Það hlýtur að vera best að koma Laugaveginum í hendur einkaaðila sem sjá strax á bókhaldi sínu hvort sé betra, að leyfa bílaumferð á Laugaveginum eða ekki, og sjá einnig hvenær og í hversu miklum mæli og hversu lengi á að leyfa slíka umferð.

Laugaveginn á að einkavæða. Það er hægt að gera með ýmsum hætti, t.d. með því að dreifa hlutabréfum í "Laugaveginum hf." til allra fasteignaeigenda við Laugaveginn, eða með því að setja Laugaveginn á uppboð og selja til hæstbjóðanda. Þá geta borgarfulltrúar hætt að rífast um bílaumferð á þeim vegi og kannski fækkað vinnustundum sínum sem því nemur (og lækkað í launum sem nemur fækkun vinnustunda). 

Næsta skref er svo að einkavæða vegakerfið eins og það leggur sig og afnema alla skatta sem innheimtir eru í nafni "vegagerðar" og "viðhalds á vegum". Þá geta stjórnmálamenn einbeitt sér að einhverju öðru en því hvort bora eigi í gegnum þetta fjall eða hitt, eða hvort einhver tiltekinn vegspotti eigi að hafa eina akrein í sitthvora áttina eða tvær, eða tvær í eina átt ef því er að skipta. 

Menn rífast sjaldan um það á Alþingi eða í ráðhúsi Reykjavíkur hvort fólk eigi að labba eða hlaupa. Hvers vegna að flækja líf stjórnmálamanna með því að láta þá rífast um það hvort fólk eigi að labba eða keyra?


mbl.is Hluti Laugavegar verður göngugata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biðin eftir næstu ríkisstjórn

Ríkisstjórnin sem nú situr gerir vont ástand verra með hverjum deginum sem líður. Næsta ríkisstjórn fær hið mikla og erfiða verk að vinda ofan af öllum þeim skaða sem núverandi ríkisstjórn hefur valdið á íslenskri þjóð. Nauðsynlegt mun reynast að taka erfiðar ákvarðanir, en það forðast núverandi stjórnvöld eins og heitan eldinn.

Fyrsta verkefnið er tafarlaust afnám gjaldeyrishaftanna. Sú aðgerð verður flóknari eftir því sem henni er frestað lengur. Afnám þeirra mun þurfa að eiga sér stað, og slíkt afnám mun hafa áhrif á gengi krónunnar. Það eru rök fyrir afnámi eins fljótt og auðið er, en ekki afsökun fyrir frekari frestun. Núverandi ríkisstjórn skýlir sér á bak við höftin og þorir ekki að sleppa krónunni lausri í nauðsynlega aðlögun að raunveruleikanum. Báðir stjórnarflokkarnir hafa þar að auki pólitíska hagsmuni af því að viðhalda höftunum. Næsta ríkisstjórn hefur vonandi dug til að takast á við verkefnið og ljúka því hratt.

Næsta skref er aðskilnaður ríkis og hagkerfis. Vinna við að leggja niður peningaframleiðslu ríkisins þarf að hefjast sem fyrst. Sú hagfræði sem boðar ríkieinokun á peningaútgáfu og verðlagsstýringu á verði peninga (vextir), og er meðal annars kennd við hagfræðideild Háskóla Íslands, er hrunin fyrir löngu. Frjáls peningaútgáfa olli engum verulegum vandræðum í mörg þúsund ár, og raunar bjuggu menn við miklu stöðugri kaupmátt peninga sinna en við þekkjum í dag. Ríkisútgáfan og ríkiseinokunin seinustu hundrað árin hefur valdið gríðarlegum skaða og raunar miklu meiri efnahagslegum skaða en ríkisafskipti af nokkru öðru sviði samfélagsins. Menn geta aðlagast verðlagsstýringu á einstaka vöru, t.d. kindakjöti og innfluttum osti, en eru öllu vanmáttugri til að bregðast við fikti við sjálfa peningana, milliliðs viðskipta og grundvöll þróaðs samfélags manna.

Sjálf útfærslan á endalokum ríkiseinokunar á peningaútgáfu og sjálfs ríkisgjaldmiðilsins mun valda tímabundnum erfiðleikum fyrir þá sem treysta á kaupmátt hans. Það ætti að vera góður hvati fyrir stjórnmálamenn að drífa af einkavæðingu peningaútgáfunnar. Því lengur sem henni er frestað, því meiri vandræði á hagkerfið og samfélagið í heild sinni í vændum.

Önnur og mikilvæg verkefni liggja einnig fyrir við næstu ríkisstjórnarskipti. Vinda þarf ofan af skattahækkunum og hefja mikla lækkun skatta, mikið og þungt regluverk á atvinnustarfsemi þarf að minnka og einfalda og aðlögun að Evrópusambandinu þarf að stöðva, svo fátt eitt sé nefnt. Ríkisreksturinn þarf að draga saman, bæði með skattalækkunum og umtalsverðri einkavæðingu. Allan ríkisrekstur dagsins í dag þarf að endurskoða með það að markmiði að koma honum út á markaðinn, fjarri afskiptum stjórnmálamanna, og fjarri skjóli ríkisábyrgðar á áhættusækni með annarra manna fé.

Skattheimta ríkisins þarf að minnka verulega svo svigrúm einkaaðila og einstaklinga til að byggja upp hagkerfið geti aukist. Útgjöld hins opinbera þarf að færa niður fyrir skatttekjur svo skuldasöfnun hins opinbera stöðvist og hröð niðurgreiðsla skulda geti hafist.

Næsta ríkisstjórn hefur vonandi dug og þor til að takast á við hin miklu og erfiðu verkefni sem hennar bíða. Ef hún slær einhverjum þeirra á frest munu vandræði Íslands halda áfram að aukast. Ef hún reynir t.d. að fjármagna ríkið með áframhaldandi lántökum mun það bitna á næstu kynslóðum. Ef hún reynir að halda í einokun ríkisins á peningaútgáfu mun stöðug og langvarandi verðbólga halda áfram að hrella íslensk heimili og fyrirtæki. Ef hún reynir að framlengja gjaldeyrishöftin verður svarti markaðurinn bráðum eina athvarf þeirra sem vilja skiptast á verðmætum, vinnu og þjónustu.

Verkefnalisti næstu ríkisstjórnar liggur nokkurn veginn fyrir, bæði til lengri og skemmri tíma. Núna hefst biðin eftir því að verkstjóri gefi sig fram.

Geir Ágústsson

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 12. maí 2011.


Kommarnir herða tökin

Núverandi sósíalistastjórn stefnir beinlínis að því að skerða kjör almennings til að herða tök sín á öllu þjóðlífi - gera fólk háð kerfinu. Það gott að talsmenn atvinnulífsins eru farnir að tala tæpitungulaust og vonandi hættir að stynda þjónkun við valdhafana.

Níu af tíu ráðherrum í núverandi ríkisstjórn voru félagar í Alþýðubandalaginu, en síðasta verk þess flokks var að fara í opinbera heimsókn til Kúbu í boði systurflokksins - kúbanska kommúnistaflokksins. Það mætti jafnvel gera því skóna að þeim finnist það bara hið besta mál að Ísland færist nær Austur-Evrópu.

Þessa dagana gengur illa að semja um kjör á almennum vinnumarkaði. Ljóst er að við ríkjandi stöðnun í atvinnulífinu (stöðnum sem ríkisstjórnin ber alla ábyrgð á) er fjarstæðukennt að launafólk geti gert sér vonir um raunverulegar kjarabætur. Hækkun kaupgjalds mun þannig óhjákvæmilega leiða til hækkun verðlags og ábatinn verður enginn.

Ef verkalýðshreyfingin hefur einhverja minnstu löngun til að bæta kjör almennra launþega ætti hún að stefna félagsmönnum sínum niður á Austurvöll og heimta nýjar kosningar. Hér verða engar framfarir með núverandi stjórn, sem stefnir að því að lama allt atvinnulíf.

En líkast til verða formaður ASÍ og hans kumpánar áfram sem spakir seppar Jóhönnu og Steingríms.


mbl.is Ísland nálgast Austur-Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandinn við verkalýðsfélög

Okkur er tamt að hugsa um verkalýðsfélög sem sjálfsagðan hlut á vinnumarkaðinum. Verkalýðsfélög spara ekki stóru orðin þegar þau segja frá eigin ágæti.

Dæmi:

Segja má að verkalýðshreyfingin hafi að verulegu leyti byggt upp það velferðarkerfi sem við njótum góðs af í dag, samstaðan og fjöldinn gerir henni kleift að hafa pólitísk áhrif og móta þjóðfélagið að þörfum fólksins. 

Annað dæmi:

Enginn vafi leikur á mikilvægi verkalýðshreyfingarinnar fyrir launafólk og þjóðfélagið í heild. ... Barátta BSRB og annarra samtaka launafólks á undangengnum áratugum hefur borið ríkulegan ávöxt: skilað auknum réttindum, betri kjörum og meiri velferð almenningi til handa. Afar fáar úrbætur hafa komið upp í hendurnar á launafólki fyrirhafnarlaust – þvert á móti hafa allir meiriháttar áfangar og sigrar náðst í krafti samtakamáttar og samvinnu fjöldans.

Fullyrðingar af þessu tagi finnast víða, jafnvel í því námsefni sem ríkisvaldið skipar skólunum að kenna börnum og unglingum. 

Sannleikurinn um gagn og nytsemi verkalýðsfélaga er samt annar (og flóknari). Verkalýðsfélög eru ekki félög eins og hver önnur. Í krafti ríkisins hafa þessi félög fengið mikið vald og leyfi til að beita ofbeldi af ýmsu tagi, t.d. stöðva starfsemi fyrirtækja án þess að þau hafi möguleika á að sækja vinnuafl utan verkalýðsfélaganna. "Samtakamáttur" verkalýðsfélaganna hefur ekki leitt til kjarabóta og ekki aukið velferð almennings. Þvert á móti.

Verkalýðsfélög eru hagfræðilegur óþarfi og eru þeim mun skaðlegri hagkerfinu eftir því sem aðild að þeim er útbreiddari. 

Verkalýðsfélög

  • stuðla að atvinnuleysi
  • valda mismunun
  • flytja verðmæti til á óhagkvæman hátt
  • ýta undir deilur
  • verðlauna þá sem skapa minni verðmæti á kostnað þeirra sem skapa meiri verðmæti

... og fleira má týna til. 

Um hagfræðina á bak við skaðsemi verkalýðsfélaga má lesa meira hér.

Hér er dæmisaga sem segir frá því hvernig verkalýðsfélag drap eitt stærsta og ríkasta fyrirtæki heims.

Verkalýðsfélög eru ekki góð né nauðsynleg, hvorki fyrir atvinnurekendur né launþega. Goðsögnin sem umleikur þau hefur blekkt marga. Við eigum það til að líta á verkalýðsfélög sem einhvers konar sjálfsagðan hluta af samfélaginu. Staðreyndin er samt sú að því fleiri sem eru í verkalýðsfélögum, og eftir því sem verkalýðsfélög hafa meiri völd til að knésetja fyrirtæki, því verri eru verkalýðsfélög fyrir okkur öll.


mbl.is Viðræðurnar af stað á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin ríkisstjórn, engin vandamál

Í apríl 2010 féll ríkisstjórn Belgíu. Stjórnarkreppa var sögð vofa yfir landinu. Úr frétt mbl.is um málið:

Sagði [Albert II konungur] að stjórnarkreppa ógni stöðu Belga í Evrópusambandinu en Belgía á að [taka] við forsæti ESB eftir tvo mánuði. 

Skemmst er frá því að segja að engin ríkisstjórn hefur enn verið mynduð í landinu. Breska blaðið Telegraph fjallar um ástandið í landinu:

For the past 12 months, therefore, Belgium has been without a government. The  impasse means it recently set a world record for the longest period without an official administration, surpassing the 353 days of Cambodia in 2003/4. (telegraph.co.uk)

En er Belgía þá orðin að stórri ringulreið þar sem ruslið safnast upp og ekkert fjármagn fæst til fyrirtækja? Öðru nær. Frétt Telegraph heldur áfram (feitletrun bætt við hér):

A country in such political limbo is often said to be "in crisis". Yet Belgium managed the whole of its six-month presidency of the European Union last year with a caretaker government. It has set out a budget and even dispatched fighter jets to help police the no-fly zone over Libya. Local government carries on; the refuse is collected and public transport works. The financial markets, far from taking fright at this rudderless ship, continue to lend to Belgium at more favourable rates than most of the rest of the EU. Taxes have not gone up because no agreement can be made on debt restructuring. As a result, business and consumer confidence is high.

Frétt Telegraph lýkur svo á eftirfarandi orðum:

Belgium has found a sure-fire way to restrain public expenditure: by stopping the politicians getting their hands on the money in the first place.

Getur verið að reynsla Belga af "stjórnarkreppu" sinni sé sú að betri er engin ríkisstjórn en ríkisstjórn sem skattleggur, skuldsetur og keyrir þjóðarskútuna á bólakaf? Svo virðist vera.

Kannski vantar Íslendinga bara eina "belgíska stjórnarkreppu" til að koma sér út úr hruninu. Ástandið getur a.m.k. ekki versnað með "stjórnarkreppu" frá því sem nú er, með ríkisstjórn sem með mjög einbeittum hætti er að kafsigla hinni íslensku þjóðarskútu á leið sinni til heljar og Brussel (í "stjórnlausri" Belgíu!).

Vík, vanhæfa ríkisstjórn, og komi í staðinn: Ekkert!


mbl.is Belgíska ríkisstjórnin fallin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðið við sósíalismann er í fullum gangi - ertu búin(n) að velja þér lið?

Ef einhver var í vafa um að það sé stríð í gangi, þá skal sá hinn sami láta af efasemdum nú þegar og velja sér „lið“. Það er stríð í gangi. Stríðið er við sósíalisma og það er háð á mörgum vígstöðvum.

Gjaldmiðlastríð ríkisins við frjálsa verslun er í fullum gangi. Í Bandaríkjunum vinna menn að því hörðum höndum að drepa bandaríska dollarann. Hann stefnir óðfluga í spíral rýrnandi kaupmáttar og sífellt hraðari peningaprentunar til að fjármagna gríðarlegan hallarekstur bandaríska alríkisins. Heimurinn hefur notast við bandaríska dollarann sem „forðamynt“ (e. reserve currency) í um 100 ár og fall dollarans mun því hafa víðtækar afleiðingar fyrir nánast alla aðra gjaldmiðla. Þegar peningar fólksins stefna í verðleysi, þá hrindir það af stað miklum óróa. Almenningur horfir upp á kaupmátt peninga sinna gufa upp og fyllist örvæntingu og ótta. Í Þýskalandi varð hrun gjaldmiðilsins til þess að greiða aðgengi þjóðernissósíalista að valdataumunum. Sporin hræða.

Gjaldmiðlahöftin á Íslandi eru angi af gjaldmiðlastríði hins opinbera við almenning. Þau koma í veg fyrir eðlileg viðskipti við útlönd og venjulegt fólk sem vill verja kaupmátt sparnaðar síns er neytt til að beita ólöglegum aðferðum til að koma fé sínu í skjól fyrir verðbólgunni.

Ríkisreksturinn á Vesturlöndum hefur náð ósjálfbærri stærð, og það fyrir löngu. Hann krefst sífellt meiri skattheimtu til að standa undir sér. Lífeyriskerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi standa ekki undir sér lengur. Þau eru nú fjármögnuð með hárri skattlagningu á alla verðmætaskapandi vinnu. Þegar hendurnar sem skapa verðmætin verða orðnar færri en þær sem taka við verðmætunum verður ekki aftur snúið. Fólk á efri árum verður sett út í kuldann. Yngra fólk missir hvatann til að leggja á sig vinnu og safna til efri áranna. Atvinnulaust fólk sér enga ástæðu til að koma sér í vinnu þar sem stærsti hluti launa þeirra er hirtur til að moka ofan í botnlausa hít hins ósjálfbæra ríkisreksturs.

Sjálft réttarríkið er nú úthrópað. Dómarar sem segjast einungis dæma „eftir lögum“ eru sakaðir um annarlega hagsmuni. Þeir eru beðnir um að dæma eftir „tilfinningunni í samfélaginu“ og öðrum óljósum mælikvörðum. Þegar dómarar eru hvattir til að dæma að eigin geðþótta og fylgja duttlungum almenningsálitsins er lögum og rétti alvarlega ógnað. Þegar fyrirfram vitneskja um hvað má og hvað má ekki er orðin óljós er hætt við að virðingin fyrir lagabókstafnum minnki og ólögleg starfsemi færist í aukana. Þeir sem hæst gala fá sínu framgengt. Þeir sem taka frumkvæði sem síðar meir fellur í ónáð „samfélagsins“ eru dæmdir sem glæpamenn og óþokkar.

Sagan kennir okkur að um leið og yfirvöld eru hætt að fylgja ströngum reglum réttarríkisins þá eru venjulegir borgarar varnarlausir gagnvart óréttlæti og misnotkun hins opinbera á gríðarlegu valdi sínu yfir lífi okkar og eigum.

Náin tengsl viðskiptalífsins við stjórnmálin eru hættumerki. Rétt tengdir aðilar í viðskiptalífinu fá frjálsar hendur til að græða á tá og fingri með því að taka mikla áhættu með fé annarra. Hagnaðinum fá þeir að stinga í vasann, en ef þeir tapa þá er skattgreiðendum hrint í skuldafenið og gert að greiða af lánunum. Bankastarfsmenn heyra það frá stjórnmálamönnum að sama hvað á gengur, þá munu þeir ekki þurfa lýsa sig gjaldþrota ef þeir fleygja sparifé almennings á bálið.

Þessi nánu tengsl koma einkum fram í starfsemi seðlabanka og ríkiseinokunar á peningaprentun. Án seðlabanka og „lánveitanda til þrautavara“ stæðu viðskiptabankarnir einir og varnarlausir frammi fyrir viðskiptavinum sínum ef þeir víkja af leið aðhalds og traustvekjandi viðskiptahátta. Í dag ver ríkisvaldið, í skjóli seðlabanka, bankana fyrir öllum mistökum þeirra. Þeir fjölfalda peningana okkar og stinga miklum hagnaði í vasann. Almenningur trúir því að sparifé sitt sé öruggt, en það er það ekki. Það er gírað margfalt upp og sent út í formi vaxtaberandi lána til eigenda bankanna og viðskiptafélaga þeirra, lána sem verða aldrei greidd til baka nema að mjög litlu leyti.

Eftirlit með lífi okkar eykst í sífellu. Ríkisvaldið tryggir sér aðgengi að öllum kortafærslum okkar með einföldum og auðsóttum úrskurði og eykur heimildir lögreglu til að rannsaka málefni einstaklinga án heimilda og rökstudds gruns um glæpsamlegt athæfi. Almenningi er talin trú um að þetta sé allt í okkar þágu og til að auka öryggi hins almenna borgara, en sagan segir okkur að í raun er um að ræða hert tök hins opinbera á okkur með það að markmiði að fækka undankomuleiðum okkar ef okkur finnst ríkið seilast of djúpt í vasa okkar eða hirða af okkur of mikið af sjálfræði okkar og frelsi.

Listinn yfir vígstöðvar ríkis og okkar er vitaskuld mun lengri. Hér verður samt staðnæmst í þeirri von um að lesandinn hafi áttað sig á stöðu mála. 

Stríðið við sósíalismann er í fullum gangi. Ertu búin(n) að velja þér lið?

Geir Ágústsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband