Atlaga að frjálsu samfélagi

Atlagan að stjórnarskrárbundnum réttindum Íslendinga virðist engan endi ætla taka. Nú þegar hafa eignaréttindi tekið á sig stórkostlegt högg í gegnum skattkerfið. Frelsi til viðskipta er að miklu leyti háð því að skriffinnar hjá Seðlabanka Íslands heimili viðskiptin. Þeir sem stunda heiðarleg, en „svört“ viðskipti, eru eltir uppi af eftirlitsmönnum ríkisins og þeim stungið í steininn sem gera sig seka um að skiptast á vörum og þjónustu án þess að greiða hæsta virðisaukaskatt í heimi. Nú borgar sig ekki að ráða fólk til að þrífa, klippa hár og baka pizzur nema gera það „undir borðið“ og í fjarveru stighækkandi skattheimtu á launatekjur og atvinnurekstur. Venjulegt fólk er orðið að glæpamönnum.

Tillaga hins svokallaða stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá hefur það sem meginþema að gera öll réttindi Íslendinga að skotspóni löggjafans. Hægt er að afnema öll þeirra með einfaldri löggjöf, ef stjórnlagaklúbburinn fær sínu framgengt. Engin réttindi til að fá að vera í friði fyrir ríkisvaldinu verða óhult, og þau munu því öll verða skert til muna ef uppkast að nýrri stjórnarskrá verður lögfest.

Ríkisstjórnin sem nú situr tók við slæmu búi og gerir það verra með hverjum deginum sem líður. Gegnsæi í stjórnsýslunni hefur minnkað verulega. Einkavæðing fer fram í lokuðum bakherbergjum opinberra bygginga, og skal engan undra ef þar eru leyfðar reykingar, enda eru sumir jafnari en aðrir á Íslandi.

Ef ríkisstjórnin situr út kjörtímabilið er óhætt að gera ráð fyrir að af þeim 600 dögum sem eftir eru af því verði flestir þeirra nýttir til að herða tak ríkisvaldsins á íslensku samfélagi. Ef sagan er einhver vegvísir um framtíðina má svo sennilega gera ráð fyrir að það taki 6000 daga að vinda ofan af þeim sósíalisma sem tók 600 daga að koma á. Því fyrr sem ríkisstjórnin sem nú situr víkur, því betra.

Geir Ágústsson

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 14. september 2011 og er aðgengileg áskrifendum að vefútgáfu blaðsins hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband