Sósíalistarnir koma út úr skápnum

"Hreinir" sósíalistar hafa meira og minna verið í felum síðan járntjaldið hrundi í Evrópu og vestrænn almenningur sá loksins hrikalegar afleiðingar sósíalismans með berum augum. Almenningi var sagt að sósíalisminn væri kominn á ruslahaugana en í staðinn komin "þriðja leið" blandaðs hagkerfis jafnaðarmennsku og kapítalisma. Kapítalistarnir fengju að skapa verðmætin, en ríkisvaldið sæi um að koma "réttlátum skerfi" þeirra til þeirra sem "á þyrftu að halda" til að auka "réttlæti" í samfélaginu. Einnig yrði kapítalistunum gert að fylgja þéttriðnu neti laga og reglugerða til að "hjálpa umhverfinu" og "minnka græðgi".

Síðan eru ekki liðin mörg ár. En sagan á það til að endurtaka sig. Nú virðast sósíalistarnir aftur vera komnir út úr skápnum.

Dæmi um það sést til dæmis í pistli á heimasíðu Ungra vinstri grænna: Ein þjóð - eitt ríki - ein matvöruverslun. Þar reynir pistlahöfundur að færa rök fyrir því að "á Íslandi sé aðeins starfrækt ein matvöruverslun og að hún sé á vegum ríkisins", og að sett verði á fót "7 manna verslunarráð sem hefur þann tilgang að taka við ábendingum frá viðskiptavinum og vera "talsmenn neytenda", þ.e. sýna ríkinu aðhald og sjá til þess að það misnoti ekki einokunina". 

Hugmyndir af þessu tagi hafa lengi verið við lýði og raunar má rekja umgjörð fjölmargra ríkisfyrirtækja og stofnana á Íslandi til þeirra. Sem dæmi má taka Bændasamtök Íslands sem hafa það yfirlýsta markmið að "vera málsvari bænda og vinna að framförum og hagsæld í landbúnaði" og njóta ríkulegrar verndar og samstarfs ríkisins til að vinna að því. Á það skal minnt að bændur eru einhver fátækasta stétt landsins, og landbúnaðarvörur á Íslandi með þeim dýrustu í heiminum.

Ekki er langt síðan Íslendingar voru neyddir til að skipta við eitt símfyrirtæki á landinu. Með tilkomu GSM-símanna breyttist ýmislegt, en ekki fyrr en samkeppni var náðarsamlegast leyfð á þessum markaði. Ungt fólk sem hefur alist upp við verðstríð á GSM-töxtum getur tjáð sig fjálglega um visku og miskunnsemi ríkiseinokunar, en þarf þó að kynna sér söguna örlítið til að geta kallað málflutning sinn ábyrgan. 

Dæmin eru mun fleiri en í raun óþörf, því rökhugsun ein nægir til að benda á óumflýjanlegar afleiðingar ríkiseinokunar og -miðstýringar, hvort sem er á markaði heilbrigðisþjónustu eða matvöruverslunar. Afleiðingarnar eru hátt verð, léleg þjónusta, takmarkað úrval, lítil sem engin nýjungagirni, rýrnandi gæði, biðraðir og skammtanir á vöru og þjónustu.

Þetta muna margir af eldri Íslendingum, og hundruð milljóna íbúa í fyrrum kommúnistaríkjum muna vel eftir því þegar "ókeypis" brauð fékkst ekki nema með því að standa í margra klukkutíma röð. Sósíalistarnir sem koma út úr skápnum um þessar mundir ættu að hafa það í huga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband