Lágtekjuskattarnir

Ríkisstjórnin sem nú situr hefur gert allt sem í hennar valdi stendur til að moka fé í gæluverkefni sín og forðast allar erfiðar ákvarðanir í ríkisrekstrinum. Ákvörðunarfælnina og einstrengilegan áhugann á rándýrum gæluverkefnum hefur hún þurft að fjármagna með gríðarlegri skuldsetningu hins opinbera og fleiri skattahækkunum en hægt er að hafa tölu á.
 
Skattar á lágar tekjur hafa verið í sérstöku uppáhaldi hjá ríkisstjórninni. Eftirlaunaþegar eru barðir fast í pyngjuna með hinum svokallaða auðlegðarskatti, en hann leggst á ævisparnað fólks sem er hætt að vinna. Til að fjármagna skattheimtuna þarf aldrað fólk að selja eigur sínar og sjá á eftir varasjóðum sínum ofan í ríkishítina.
 
Annar skattpíndur hópur er fjölskyldufólk sem þarf á bíl að halda til að versla fyrir heimilið, keyra börn sín á  uppeldisstofnanir ríkisvaldsins, heimsækja ættingja úti á landi og komast til og frá vinnu. Matarútgjöldin eru skorin niður til að fjármagna bensínið. Yfirdrátturinn er þaninn. Lánin hækka því hækkandi bensínverð rúllar út í vísitölu neysluverðs. Barnafólk finnur áþreifanlega fyrir því að framtíð barna þeirra á Íslandi er vafin skuldahlekkjum mörg ár fram í tímann svo koma megi ríkissjóði úr holunni sem hann er að grafa sig niður í.
 
Hækkun virðisaukaskatts er önnur leið ríkisvaldsins til að krækja í þunn launaumslög lágtekjufólks. Þeir sem voga sér ennþá að heimsækja löglegar hárgreiðslustofur og dekkjaverkstæði finna rækilega fyrir því. Einföldustu hlutir eins og tannkrem og klósettpappír eru dýrari en þeir hefðu verið án hækkunar virðisaukaskatts. Lág launin duga núna enn skemur en áður, og það er ríkisstjórninni að kenna.
 
En hvað er til ráða? Það er margt. Upplagt væri til dæmis að spóla ríkisreksturinn 20 ár aftur í tímann og leggja niður og einkavæða allt sem hefur bæst við hann síðan þá. Rekstur í umhverfi ríkiseinokunar er dýrari en rekstur sem þarf sífellt að óttast samkeppni og gjaldþrot og það gæti verið ágæt leiðbeining um framtíð opinbers reksturs á Íslandi. Margir vilja að vísu að heilbrigðiskerfið sé dýrara og óskilvirkara en það gæti verið, og fyrir því virðist vera breið pólitísk sátt á Íslandi, en slíkt á að heyra til undantekninga.
 
Lágtekjufólk á ekki skilið að vera sífellt refsað fyrir óráðsíu og ákvörðunarfælni stjórnmálamanna. Það veldur því óþægindum til skemmri tíma því launin duga ekki fyrir nauðsynjum. Það veldur því óþægindum til lengri tíma því umhverfi mikilla ríkisafskipta og skattheimtu kemur í veg fyrir að tækifæri myndist til að vinna sig upp í hærri laun, því störf sem bjóða slíkt flýja umhverfi þrúgandi ríkisreksturs. 
 
Hér er lagt til að allir lágtekjuskattar verði lagðir niður (auðlegðarskattur, virðisaukaskattur og eldsneytisgjöld, svo fátt eitt sé nefnt) og ríkisútgjöldin skorin niður sem nemur a.m.k. minnkuðum „skatttekjum“ ríkissjóðs. Lágtekjufólkið á það skilið, og gott á greyið stjórnmálamennina að þurfa taka erfiðar ákvarðanir um niðurskurð á og stórfelldar einkavæðingar í ríkisrekstrinum, til tilbreytingar. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband