Eru frjálsir farþegaflutningar óhugsandi?

Allir íbúar höfuðborgarsvæðisins vita hvernig tómur strætisvagn lítur út, ef bílstjórinn er undanskilinn. Um alla borg og sveitarfélögin í nágrenni Reykjavíkur keyra tómir strætisvagnar allan liðlangan daginn og þræða fastar leiðir eins og vel upp aldir maurar. Allir borgarbúar vita af strætisvögnunum. Notkun þeirra er stórkostlega niðurgreidd. Þeir fá sínar eigin akreinar á fjölförnustu götum. Þeir eru mjög rúmgóðir, svo vægt sé til orða tekið. Með því að nota strætó frekar en eigin bíl er hægt að lesa á leið í vinnuna eða leggja sig. 

En þeir eru lítið notaðir, a.m.k. af fólki með bílpróf. Flestir sem mögulega geta rekið bíl gera það og borga fyrir það stórfé. Eldsneytið á einkabílana er skattlagt í hæstu hæðir, og sjálfar bifreiðarnar líka. Göturnar rúma ekki alla bílana og það veldur tíma- og vinnutapi hjá fjölda einstaklinga á hverjum degi. Allir eru að reyna að troðast sömu leiðina á hverjum degi til og frá miðborginni í eigin bíl og keppast um sömu örfáu stæðin í millitíðinni.

Samt heldur strætisvagnakerfið áfram að þenjast út í kostnaði og farþegafjöldinn er ennþá lítill þótt hann hafi aukist eitthvað eftir að kreppan skall á og rýrði laun allra landsmanna um tugi prósenta.

Stjórnmálamenn hamast á almenningi um að taka frekar strætó en keyra í eigin bíl. Þeir reyna að gera strætó hagkvæman með því að niðurgreiða notkun strætisvagna niður í brot af raunverulegum kostnaði við þá. Þeir reyna að telja fólki trú um að strætó sé umhverfisvænni en einkabíllinn. Flestir samþykkja slík rök án umhugsunar, en nota samt einkabílinn. Strætó þræðir hverfin allan daginn alla daga. Hann er meira að segja nokkuð áreiðanlegur.

En samt notar fólk einkabílinn.  

Hvernig stendur á þessu? Eru þetta ekki algjör öfugmæli?

Hvernig stendur á því að ekki sé hægt að reka farþegaflutninga á höfuðborgarsvæðinu með hagnaði hreinlega? Þetta ætti að vera svo borðleggjandi fyrir þá þúsundir íbúa höfuðborgarsvæðisins sem þurfa að komast til og frá sömu tveggja staðanna. Þetta er ekki einu sinni spurning um tíma! Fólk gæti svo bara skotist á einkabílnum eftir vinnu til að kaupa í matinn eða skutla krökkum til og frá íþróttaæfinga.  

Kenning þess sem þetta skrifar er sú að sveitarfélögin séu hreinlega að flækjast fyrir frjálsum farþegaflutningum. 

Það er nánast eina rökrétta skýringin á þessu skrýtna ástandi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband