Þeir sem eiga, og þeir sem vilja eiga

Hugtakið "eignaréttur" er sæmilega auðskilið. Eignaréttur felur í sér skýlausan einkarétt á nýtingu og ráðstöfun eignar. Stundum verndar hið opinbera eignaréttinn, til dæmis með aðstoð lögreglu og dómstóla. Stundum gengur ríkisvaldið á eignaréttinn, til dæmis með þjóðnýtingu eða skattlagningu. Menn geta aðlagast slíku, til dæmis með því að koma eignum sínum í skjól eða færa reglulega upptöku ríkisvaldsins á eignum inn í verð og rekstraráætlanir. Þannig hækka eigendur verð á eignum sínum í umhverfi eignaskatta til að varðveita ávöxtun sína, eða kaupendur lækka kauptilboð sín til að bæta sér upp skerðingu í formi framtíðareignaskatta.

En eignarétturinn er ekki alltaf stöðugur eða fyrirsjáanlega skertur. Frægt er til dæmis hvernig Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, gerði landareignir hvítra bænda í landi sínu að engu með einu pennastriki. Þegar kommúnistar taka við völdum er þeirra fyrsta aðgerð venjulega sú að svipta alla eignarétti og færa öll verðmæti undir regnhlíf opinberrar "gæslu" (þetta kalla þeir að gera allt að "sameign"). Í kjölfarið hrynur hagkerfi viðkomandi ríkis eða flýr inn á svarta markaðinn.

Pólitísk óvissa í kringum eignarétt er skaðleg jafnvel þótt hún feli ekki í sér beina þjóðnýtingu. Maður sem á eign sem stjórnmálamenn ræða sín á milli um að gera upptæka hagar sér öðruvísi en maður sem á eign sem ekki er eins umdeild. Sá sem er óöruggur um eign sína er sennilega líklegur til að umgangast hana verr en ella. Sá sem á heimili sem hann veit að á að brjótast inn í og ræna fer sennilega ekki eins vel með eigur sínar og sá sem á rammgirt hús með þjófavörn og öllu tilheyrandi.

Kvótakerfið á Íslandi er mjög umdeilt, sérstaklega á meðal þeirra sem engan kvóta eiga. Kvótalausir vilja eignast kvóta kvótaeigenda. Stjórnmálamenn hafa margir hverjir tekið vel í þær óskir og lofað upptöku eigna í formi kvóta. Þetta hlýtur að hafa áhrif á hegðun kvótaeigenda, sem margir hafa lagt í stórar fjárfestingar svo útgerðir þeirra geti starfað við nokkuð rekstraröryggi. 

En óvissan sem slík er ekki hið eina sem veldur óvissu. Hvað á að taka við ef ríkið þjóðnýtir kvóta kvótaeigenda? Margar hugmyndir eru á borðinu, en það er einfaldlega þannig að engin hugmynd getur átt sér neinar framtíðarvonir ef stjórnmálamenn leyfa óvissunni sífellt að ríkja, og leyfa allskyns "endurúthlutunar"-áformum að ná eyrum sínum. Óvissan ríkir á meðan stjórnmálamenn líta á þjóðnýtingu af ýmsu tagi sem raunverulegan pólitískan valkost. 

Hreinlegast væri að stjórnmálamenn sættu sig við að kvótakerfinu var komið á á sínum tíma, af illri nauðsyn, og hefur reynst vel fyrir gjaldeyrisöflun Íslands ólíkt því sem gerist víðast hvar annars staðar þar sem fiskveiðar eru baggi á herðum skattgreiðenda. Þjóðir apa upp íslenska kvótakerfið, og gera það af illri nauðsyn. Ekki öfugt. Íslendingar eiga að þakka fyrir að hafa gert veiðiréttindi í íslenskri lögsögu að framseljanlegri eign og gleyma því að einhverjir fengu og einhverjir ekki fyrir sífellt fjölgandi áratugum síðan.

Kerfið er ekki fullkomið, en það er betra en óvissan um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband