Um áhrif skattalækkana í 'þenslu'

Í öðru af tveimur þæginlegum drottningarviðtölum við vinstrimenn í Spjallinu með Sölva í gærkvöldi, þá voru Sölvi Tryggvason og Steingrímur J. hjartanlega sammála um það að skattalækkanir í þenslu væru rangar. Um það voru þeir það sammála, að engin ástæða var til að rökstyðja það frekar.
 
En hver er rökstuðningurinn?
 
Sennilega er hugsunin sú að í þenslu eigi allir nóg af peningum og að eyðsla almennings á sjálfsaflafé sínu (frekar en stjórnvalda á skattfé) valdi einhvern veginn „verðbólgu" og „þenslu". Verðlag hækkar þá jafnt og þétt á öllu sem venjulegt fólk kaupir, hvort sem það er matur, húsnæði, bensín og hamborgarar. En hvernig er þetta hægt? Er hægt að eyða sömu krónunni á tveimur stöðum? Getur sama magn peninga í auknum mæli elt allar tegundir vöru og þjónustu í einu og þannig valdið aukinni eftirspurn og þar með almennt, vaxandi verðlagi?
 
Nei, það er ekki mögulegt. Fyrir gefið peningamagn þá getur verðlag ekki hækkað á öllu sem er til sölu. Ef skyndileg aukning í eftirspurn á appelsínum á sér stað, þá dregst úr eftirspurn á einhverju öðru, t.d. perum, og verðlag hækkar því á annarri vörunni en lækkar á hinni. Sömu krónunni verður ekki eytt á tveimur stöðum samtímis.
 
Hvað gerist hins vegar þegar peningamagn er aukið, og það verulega? Þá breytist myndin. Þá eru fleiri peningar í umferð, sem geta þá elt fleiri vörur í einu, og þannig valdið aukinni eftirspurn og hækkandi verðlagi á nánast öllu. Verðbólga er í stuttu máli ekkert annað en aukning á peningamagni í umferð. Hækkandi verðlag (e. rising consumer prices) er afleiðing verðbólgu (e. inflation), en ekki öfugt.

 
Skattalækkanir á tímum stöðugs peningamagns hafa engin áhrif á almennt verðlag. Ríkið eyðir minna, og almenningur eyðir meira. Færri kúlupennar eru keyptir í Stjórnarráðið, á meðan fleiri foreldrar hafa efni á að senda börn sín í sumarbúðir. Færri ráðherrar fara á fínar ráðstefnur í útlöndum, en fleiri Íslendingar komast í sumarbústað í fríinu sínu.

Hið gagnstæða gerist svo þegar ríkið hækkar skatta. Almenningur kaupir þá ódýrari matvörur, á meðan ríkið reisir veglega brú í kjördæmi samgönguráðherra. 

Sé ætlunin sú að sporna við „verðbólgu" (almennt, hækkandi verðlagi á flestum tegundum vöru og þjónustu) þá þarf eitt og aðeins eitt að gerast: Útgáfa nýrra íslenskra króna þarf að stöðvast. Skattahækkanir og -lækkanir spila þar ekkert hlutverk. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Villi, þú virðist ekki gera þér greinarmun á verði og verðlagi. Það er tvennt ólíkt. Verð segir þér hve mikið einstök vara kostar en verðlag er vegið verð allra vara eftir magni. Þannig getur "verðlag" ekki hækkað á appelsínum einum og sér.

Samlíkingin með perur og appelsínu er auk þess fráleit. Eftirspurn eftir vörunum getur vel aukist samtímis, það fer bara alveg eftir því hvernig vörur um ræðir. Ef eftispurn eftir hamborgum eykst þá er mjög líklegt að eftirspurn eftir frönskum aukist líka.

Það að skattalækkanir auki ekki verðbólgu er rangt. Skattalækkun eykur verðbólgu þar sem auknar ráðstöfunartekjur auka eftirspurn fólks eftir vörum.

G.r.f.a. í ímynduðu hagkerfi séu tvær vörur, appelsínur og perur. Neysluverðsvísitalan á grunnári í hagkerfinu er byggð á eftirfarandi samsetningu: 10 appelsínur og 5 perur. Ef appelsínur kosta 5 kr. og perur 10 kr., þá kostar vörukarfan 5*10 + 10*5 = 100 kr. Vegið meðalverð í hagkerfinu er þá 6,67 kr. á vöru.

Ef skattar eru lækkaðir og fólk kaupir nú meira af bæði perum og appelsínum, t.d. 12 appelsínur og 8 peru, auk þess sem seljendur hækka verðið á appelsínum í 6 kr. og perum í 15 kr. þá þarf 6*10 + 15*5 = 135 kr. til að kaupa sömu vörukörfu og áður. Hins vegar er vegið meðaverð í hagkerfinu nú orðið 9,6 kr.

Verðlag hefur þannig hækkað um 35% (35% verðbólga). Hins vegar hefur smekkur neytenda breyst og þar sem vísitalan er byggð á sömu neyslukörfu, þá vanmetur vísitalan hækkunina.

9,6 kr. þarf til að kaupa vörur sem veita sömu ánægju fyrir neytandann sem hann áður borgaði 6,67 kr. fyrir. Ef tekið er tillit til þessara staðkvæmdaáhrifa hefur verðlag hækkað 44%.

Verðlag getur því vel hækkað þótt sama peningamagn sé í umferð.

G.r.f. að Villi hafi skrifað þetta, við þurfum að ræða saman...

Vignir (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 18:05

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Vignir,

Reiknidæmi þitt gerir ráð fyrir því að fé sem ríkið hirðir af fólki sé sett í bankabox og nýtist ekki til kaupa á einu né neinu. Að skattheimta "frysti" fé í stað hins rétta, sem er að ríkið eyðir fé í vörur og þjónustu. Skattheimt fé er einfaldlega eyðsla á fé í annað en ef féð hefði fengið að vera kyrrt í vösum þeirra sem þess afla.

Reiknidæmi þitt tekur heldur ekki tillit til þess að ef fólk kaupir meira af appelsínu,eplum, perum, banönum, brokkólí, steinselju og öðru eins ("ávaxta- og grænmetisverðbólga"), þá hefur það ekki efni á eins mörgum nöglum, fjórhjólum, sokkabuxum og öllu öðru ("allt-annað-verðhjöðnun"). Í umhverfi fasts peningamagns í umferð þá jafnast þetta tvennt einfaldlega út. Annað er hreinlega ekki rökfræðilega eða framkvæmdlega hægt.

Geir Ágústsson, 6.5.2010 kl. 23:01

3 identicon

Sæll Vignir

Ég á ekki heiðurinn af þessari grein ætla að skjóta á að Björn, Leifur eða Geir hafi ritað hana. Skattlækkun hefur gjarnan í för með sér aukna verðmætasköpun og eykur því framboð á vöru ekki gleyma þeim þátti í þessu. Þá auka skattalækkanir sparnað, eitthvað sem ríkið gerir ekki peninginn minn er að spara hann.

Á endanum snýst þetta um peningamagn í umferð, það hvorki minnkar né eykst við að skattar lækki. Annars væru bankaþjófar að gera samfélaginu mikinn greiða að stela peningum og "taka" þá úr umferð eins og þú virðist ætla að ríkið geri.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 7.5.2010 kl. 11:01

4 identicon

Góðan daginn.

Þetta var gott innlegg. Nú þarf að minnka umfang ríksins, segja þarf upp ríkisstarfsmönnum (þá á ég sérstaklega við ráðuneytin) og fækka þingmönnum. Þá er hægt að lækka skatt og þá geta einkafyrirtækin veitt fleiri atvinnu.

Ég hvet ykkur til að skrifa fleiri greinar um kosti þess að hafa ríkið sem minnst í sniðum.

Helgi (IP-tala skráð) 8.5.2010 kl. 20:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband