Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þriðja leiðin í ríkisfjármálum

Íslenska ríkið er gríðarlega skuldsett og það er eitt stærsta vandamál stjórnmálamanna í dag. Þar að auki liggja á ríkisvaldinu gríðarlegar skuldbindingar og ábyrgðir, t.d. vegna lífeyrisgreiðslna opinberra starfsmanna, gangagerða, virkjana og svona má lengi telja. Þetta er vandamál. Ef það verður ekki leyst þarf að selja allt í búi ríkisvaldsins á brunaútsölu eða lýsa yfir gjaldþroti, með tilheyrandi sársauka fyrir alla sem enn eru eftir á Íslandi til að borga skuldir hins opinbera.
 
Tvær leiðir eru oftast nefndar til að bjarga ríkisvaldinu úr skuldasúpunni. Sú fyrri er að hækka skatta og sú síðari að skera niður í ríkisrekstrinum. Skattahækkanir eru auðvitað jafnvitlaus aðgerð og að sprauta eitri í æðar dauðvona sjúklings, og ber að forðast með öllu. Frekari niðurskurður í þeim ríkisrekstri sem er til einhvers nýtur er líka óheppilegur, enda þarf ríkisvaldið gríðarlegt fé til að veita lágmarksþjónustu illa, og hætt við að sú þjónusta versni enn ef ríkið heldur áfram að veita hana en um leið fjársvelta. 
 
Þriðja leiðin er samt til. Hún er sú að ríkið komi sér einfaldlega út úr öllum rekstri, en sérstaklega þeim sem er mikilvægur og það ræður ekki við. Rekstur sem ríkið hefur einfaldlega ekki á sinni könnu verður síður að pólitísku bitbeini. Ekki er hægt að ráða gamla stjórnmálamenn í stöður hjá einkafyrirtækjum nema þeir hafi meira til brunns að bera en flokksskírteinið. Erfitt er að þröngva einkafyrirtækjum út í pólitískt vinsælar en rekstrarfræðilega vafasamar framkvæmdir, og erfitt hefur reynst fyrir stjórnmálamenn að lokka einkafyrirtæki út í slíkar framkvæmdir jafnvel þótt ríkisábyrgðir hafi verið í boði. 
 
Eitt augljóst dæmi um mikilvægan rekstur sem ríkið ræður ekki við er rekstur heilbrigðiskerfis. Hið opinbera heilbrigðiskerfi nýtur að mörgu leyti einokunarstöðu á markaði heilbrigðisgæslu með niðurgreiðslum úr vösum skattgreiðenda og miklu regluverki sem heldur samkeppni við það í skefjum. Það er því nánast aftengt hinu sveigjanlega og aðlögunarhæfa frjálsa markaðshagkerfi. Sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum er skammtað fé úr ríkissjóði í samkeppni við allskyns annan ríkisrekstur. Heilbrigðisgæslan er í raun í samkeppni um skattfé við sendiráðin, háskólana, ráðherrabílana, jarðgöngin og íslensku sauðkindina, svo eitthvað sé nefnt. Pólitískar ákvarðanir þarf að taka við útdeilingu á því fé, og þær eru yfirleitt víðsfjarri öllum rekstrarfræðilegum raunveruleika heilbrigðisstofnana. 
 
Krafan um ríkiseinokun heilbrigðiskerfisins er hávær og pólitískt óvinsælt að andmæla henni, enda þótt oft heyrist að „samkeppni“ sé af hinu góða. Með takmörkuðu skattfé úr að spila hefur heilbrigðiskerfinu verið ýtt út í skammtanir á þjónustu, biðlista og kjaradeilur heilbrigðisstarfsmanna. Þjónustan versnar og kostnaður hækkar. Stjórnmálamenn hafa reynt að skera niður, en það hefur bitnað á þjónustu á meðan sjúklingar eru rukkaðir um sífellt hærri innritunargjöld og meira í lyfjakostnað, auk hækkandi skatta til að fjármagna kerfið. 
 
Í stað aukins fjárausturs í kerfið, sem bætir það ekki, eða aukins niðurskurðar, sem gerir vont enn verra, væri upplagt að koma heilbrigðiskerfinu úr höndum ríkisvaldsins, en til vara bara mikilvægustu einingum þess. Skatta má lækka sem nemur kostnaði við það. Regluverkið mætti skera niður og auðvelda þannig aðgengi nýrra aðila á þennan mikilvæga markað. Þetta mætti gera um leið og ríkisvaldið greiðir, a.m.k. til einhvers tíma, aðgerðir og aðra meðhöndlun með útboði til einkaaðila. Að tryggja að skattfé sé notað til að greiða fyrir læknisþjónustu er ekki eitt og hið sama og að ríkisvaldið standi í einhvers konar rekstri. Þetta vita meira að segja margir sænskir læknir. 
 
Þriðja leiðin – að koma verkefnum algjörlega úr höndum ríkis og stjórnmálamanna – hefur enga ókosti hækkandi skatta eða vaxandi niðurskurðar. Ríkisvaldið er fjarlægður sem dýr og klaufalegur milliliður í frjálsum viðskiptum og samskiptum. Frjálsir samningar leysa af torskilin eyðublöð. Samkeppni einkafyrirtækja leysir af hólmi rýrnandi þjónustu og hækkandi kostnað einokunaraðilans. Er eftir einhverju að bíða?
 
Geir Ágústsson
 
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu, 13. september 2013, og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.

Lágtekjuskattarnir

Ríkisstjórnin sem nú situr hefur gert allt sem í hennar valdi stendur til að moka fé í gæluverkefni sín og forðast allar erfiðar ákvarðanir í ríkisrekstrinum. Ákvörðunarfælnina og einstrengilegan áhugann á rándýrum gæluverkefnum hefur hún þurft að fjármagna með gríðarlegri skuldsetningu hins opinbera og fleiri skattahækkunum en hægt er að hafa tölu á.
 
Skattar á lágar tekjur hafa verið í sérstöku uppáhaldi hjá ríkisstjórninni. Eftirlaunaþegar eru barðir fast í pyngjuna með hinum svokallaða auðlegðarskatti, en hann leggst á ævisparnað fólks sem er hætt að vinna. Til að fjármagna skattheimtuna þarf aldrað fólk að selja eigur sínar og sjá á eftir varasjóðum sínum ofan í ríkishítina.
 
Annar skattpíndur hópur er fjölskyldufólk sem þarf á bíl að halda til að versla fyrir heimilið, keyra börn sín á  uppeldisstofnanir ríkisvaldsins, heimsækja ættingja úti á landi og komast til og frá vinnu. Matarútgjöldin eru skorin niður til að fjármagna bensínið. Yfirdrátturinn er þaninn. Lánin hækka því hækkandi bensínverð rúllar út í vísitölu neysluverðs. Barnafólk finnur áþreifanlega fyrir því að framtíð barna þeirra á Íslandi er vafin skuldahlekkjum mörg ár fram í tímann svo koma megi ríkissjóði úr holunni sem hann er að grafa sig niður í.
 
Hækkun virðisaukaskatts er önnur leið ríkisvaldsins til að krækja í þunn launaumslög lágtekjufólks. Þeir sem voga sér ennþá að heimsækja löglegar hárgreiðslustofur og dekkjaverkstæði finna rækilega fyrir því. Einföldustu hlutir eins og tannkrem og klósettpappír eru dýrari en þeir hefðu verið án hækkunar virðisaukaskatts. Lág launin duga núna enn skemur en áður, og það er ríkisstjórninni að kenna.
 
En hvað er til ráða? Það er margt. Upplagt væri til dæmis að spóla ríkisreksturinn 20 ár aftur í tímann og leggja niður og einkavæða allt sem hefur bæst við hann síðan þá. Rekstur í umhverfi ríkiseinokunar er dýrari en rekstur sem þarf sífellt að óttast samkeppni og gjaldþrot og það gæti verið ágæt leiðbeining um framtíð opinbers reksturs á Íslandi. Margir vilja að vísu að heilbrigðiskerfið sé dýrara og óskilvirkara en það gæti verið, og fyrir því virðist vera breið pólitísk sátt á Íslandi, en slíkt á að heyra til undantekninga.
 
Lágtekjufólk á ekki skilið að vera sífellt refsað fyrir óráðsíu og ákvörðunarfælni stjórnmálamanna. Það veldur því óþægindum til skemmri tíma því launin duga ekki fyrir nauðsynjum. Það veldur því óþægindum til lengri tíma því umhverfi mikilla ríkisafskipta og skattheimtu kemur í veg fyrir að tækifæri myndist til að vinna sig upp í hærri laun, því störf sem bjóða slíkt flýja umhverfi þrúgandi ríkisreksturs. 
 
Hér er lagt til að allir lágtekjuskattar verði lagðir niður (auðlegðarskattur, virðisaukaskattur og eldsneytisgjöld, svo fátt eitt sé nefnt) og ríkisútgjöldin skorin niður sem nemur a.m.k. minnkuðum „skatttekjum“ ríkissjóðs. Lágtekjufólkið á það skilið, og gott á greyið stjórnmálamennina að þurfa taka erfiðar ákvarðanir um niðurskurð á og stórfelldar einkavæðingar í ríkisrekstrinum, til tilbreytingar. 

Bara 100 dagar eftir, eða hvað?

Margir frjálslyndir Íslendingar búast fastlega við því að ný ríkisstjórn, skipuð frjálslyndum einstaklingum, muni taka við af þeirri sem nú situr eftir kosningar til Alþingis í vor. Þetta viðhorf kemur m.a. fram hérna

En eitt er ljóst: Ekkert er öruggt.

Frjálslyndir menn hafa engan veginn náð að tryggja að nokkur breyting til batnaðar verði eftir næstu kosningar. Skoðanakannanir um þessar mundir benda raunar til að sósíalísk öfl gætu hæglega haldið völdum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til verið skásti kostur frjálslynda á Íslandi, en þar er engan veginn að finna nægan fjölda væntanlegra þingmanna til að hafa afgerandi breytingar á samsetningu Alþingis. Frambjóðendur flokksins virðast að uppistöðu ætla að vera sósíaldemókratar, þ.e. sósíalistar sem vilja fara hægt í sakirnar. 

Frjálslyndir menn liggja hreinlega í leti og láta lítið í sér heyrast. Vonbrigði eftir næstu kosningar þeirra verða gríðarleg ef það breytist ekki á næstu vikum. Málstaður þeirra ætti í raun að liggja svo vel við að ótrúlegt má teljast að hann njóti ekki meiri hylli en raunin er. Þeir hinna frjálslyndu sem leggja áherslu á hagvöxt, atvinnusköpun og fjárfestingu til framtíðar þurfa ekki að gera annað en að þylja vel meitluð orð helstu hugsuða hagfræðinnar til að hafa eitthvað að segja. Þeir hinna frjálslyndu sem byggja málflutning sinn á réttlætishugsjóninni þurfa bara að benda á að hver maður á sinn líkama og leggja út frá því í málefnabaráttu sinni. 

Hvert er svo hið pólitíska landslag á Íslandi? Það er baðað í sósíalískum ranghugsunum. Ríkisvald hér og ríkisvald þar og öll okkar vandamál gufa upp, ekki satt? Ríkisábyrgð á bönkum og áhættusækni í fjárfestingum, fikt við vaxtaprósentur og ríkisvæðing fyrirtækja í gegnum vaxandi regluverk, og enginn fer sér lengur að voða, ekki satt?

Eftir hrunið haustið 2008 fóru margar Evrópuþjóðir sér hægt í að þenja út ríkisvaldið, tóku til og hlífðu skattgreiðendum eins mikið og pólitískur veruleiki leyfði á hverjum stað. Þær þjóðir eru að uppskera í dag með aukinni fjárfestingu og uppbyggingu til framtíðar þar sem Evrópusambandið heimilar slíkt. Á Íslandi var sósíalisma sópað yfir allt og alla og niðurstaðan er framlengd kreppa, sem í raun dýpkar með hverju ári sem ríkisvaldið heldur áfram að moka.

Frjálslyndir menn mega ekki þegja. Þeir þurfa að rífa kjaft á málefnalegan hátt. Þeir þurfa að benda á kýlin og lofa því af einlægni að stinga á þau ef og þegar kosningar hafa fært þeim umboð til slíks.

Eru 100 dagar í betri ríkisstjórn, eða 1500 dagar? Það er undir frjálslyndum mönnum komið. 


Eru frjálsir farþegaflutningar óhugsandi?

Allir íbúar höfuðborgarsvæðisins vita hvernig tómur strætisvagn lítur út, ef bílstjórinn er undanskilinn. Um alla borg og sveitarfélögin í nágrenni Reykjavíkur keyra tómir strætisvagnar allan liðlangan daginn og þræða fastar leiðir eins og vel upp aldir maurar. Allir borgarbúar vita af strætisvögnunum. Notkun þeirra er stórkostlega niðurgreidd. Þeir fá sínar eigin akreinar á fjölförnustu götum. Þeir eru mjög rúmgóðir, svo vægt sé til orða tekið. Með því að nota strætó frekar en eigin bíl er hægt að lesa á leið í vinnuna eða leggja sig. 

En þeir eru lítið notaðir, a.m.k. af fólki með bílpróf. Flestir sem mögulega geta rekið bíl gera það og borga fyrir það stórfé. Eldsneytið á einkabílana er skattlagt í hæstu hæðir, og sjálfar bifreiðarnar líka. Göturnar rúma ekki alla bílana og það veldur tíma- og vinnutapi hjá fjölda einstaklinga á hverjum degi. Allir eru að reyna að troðast sömu leiðina á hverjum degi til og frá miðborginni í eigin bíl og keppast um sömu örfáu stæðin í millitíðinni.

Samt heldur strætisvagnakerfið áfram að þenjast út í kostnaði og farþegafjöldinn er ennþá lítill þótt hann hafi aukist eitthvað eftir að kreppan skall á og rýrði laun allra landsmanna um tugi prósenta.

Stjórnmálamenn hamast á almenningi um að taka frekar strætó en keyra í eigin bíl. Þeir reyna að gera strætó hagkvæman með því að niðurgreiða notkun strætisvagna niður í brot af raunverulegum kostnaði við þá. Þeir reyna að telja fólki trú um að strætó sé umhverfisvænni en einkabíllinn. Flestir samþykkja slík rök án umhugsunar, en nota samt einkabílinn. Strætó þræðir hverfin allan daginn alla daga. Hann er meira að segja nokkuð áreiðanlegur.

En samt notar fólk einkabílinn.  

Hvernig stendur á þessu? Eru þetta ekki algjör öfugmæli?

Hvernig stendur á því að ekki sé hægt að reka farþegaflutninga á höfuðborgarsvæðinu með hagnaði hreinlega? Þetta ætti að vera svo borðleggjandi fyrir þá þúsundir íbúa höfuðborgarsvæðisins sem þurfa að komast til og frá sömu tveggja staðanna. Þetta er ekki einu sinni spurning um tíma! Fólk gæti svo bara skotist á einkabílnum eftir vinnu til að kaupa í matinn eða skutla krökkum til og frá íþróttaæfinga.  

Kenning þess sem þetta skrifar er sú að sveitarfélögin séu hreinlega að flækjast fyrir frjálsum farþegaflutningum. 

Það er nánast eina rökrétta skýringin á þessu skrýtna ástandi.  


Verðbólga: Stærsta ógnin við frelsið?

Henry Hazlitt, snillingur, skrifaði á sínum tíma eftirfarandi orð:

If libertarians lose on the inflation issue, they are threatened with the loss of every other issue. If libertarians could win the inflation issue, they could come close to winning everything else. If they could succeed in halting the increase in the quantity of money, it would be because they could halt the chronic deficits that force this increase. If they could halt these chronic deficits, it would be because they had halted the rapid increase in welfare spending and all the socialistic schemes that are dependent on welfare spending. If they could halt the constant increase in spending, they could halt the constant increase in government power.
(Man vs. The Welfare State, bls. 213. Tengill: http://mises.org/document/2974/Man-vs-The-Welfare-State)

Hvað á Hazlitt við hérna? Hann var manna duglegastur við að leita að "lækningu" við hinni útþenslu ríkisvaldsins, og leiðum til að draga hana til baka. Hazlitt leit yfir sögu velferðarríkisins, og inn í eðli þess, og komast að því að útþensla þess væri gjarnan fjármögnuð með peningaprentun. Ekki væri hægt að skattleggja nógu mikið til að standa undir velferðarkerfinu og því mun auðveldara, pólitískt, að grípa til peningaprentunar. 

Peningaprentun væri svo bara möguleg þegar ríkisvaldið hefði einokun á útgáfu peninga. Einkaaðilar sem prenta eru umsvifalaust gerðir gjaldþrota, því þeir geta ekki "ábyrgst" peningaútgáfu sína með tilvísun í skattheimtuvald. Einkaaðilar geta ekki "ábyrgst innistæður" eða þvingað neinn til að nota peninga þeirra. Peningar einkaaðila eru því yfirleitt í samkeppni um traust, en ekki magn.  Til að fá þetta traust þurfa þeir að binda peningaútgáfu sína við eitthvað áþreifanlegt og mátulega sjaldgæft, eins og gull eða silfur. 

Umræðan um peningamál á Íslandi er í skotgröfunum og á frumstæðu stigi. Hún snýst yfirleitt bara um það hvaða gervipeninga á að gera að lögeyri á Íslandi. Raunverulegt frelsi í peningamálum berst sjaldan á góma. Þessu þarf að breyta.
 
Kannski þarf að þýða eitthvað af hinum stóru klassísku verkum hins austurríska skóla hagfræðinnar til að hnika umræðunni til? Eða einhver þeirra nýrri og styttri? 
 
Hagfræði er ekki frjálshyggja og frjálshyggja er ekki hagfræði. Góður skilningur á hagfræði getur engu að síður verið mjög verðmætur til að verja frelsið og jafnvel koma því á þar sem ekkert er nú. Öll umræða um peningamál á Íslandi ber þess merki að of margir vilja leita í hlýjan en kæfandi faðm ríkisvaldsins og finna þar hina einu og sönnu "lausn". Það er hugarfar sem hefur skilað mannkyninu mörgum hörmungum. 

Komið að ferðaþjónustunni (grein)

Ríkisstjórn Íslands er mönnuð einstaklingum sem vilja mikla útþenslu ríkisvaldsins. Leiðirnar að aukinni útþenslu ríkisvaldsins eru nokkrar, en á Íslandi eru tvær algengastar. Sú fyrri er sú að tala fyrir nauðsyn minnkandi ríkisvalds eða aukins einkaframtaks, lækka skatta örlítið en nóg til að fita skattstofna, og eyða síðan hverri einustu krónu af auknum skatttekjum í útþenslu ríkisins (leið Sjálfstæðisflokksins). Sú síðari er að auka útgjöld ríkisins langt umfram skattheimtu, safna skuldum, og beita fyrir sig hallarekstri ríkissjóðs til að réttlæta skattahækkanir, sem aftur munu ekki duga fyrir enn auknum ríkisútgjöldum (leið vinstriflokkanna).

Því miður fer lítið fyrir því að ríkisvaldið á Íslandi sé minnkað, en það er önnur saga. Breið pólitísk samstaða er um þann ásetning að stækka ríkisvaldið, og þar með fyrir hækkun skatta. Spurning er bara: Hækkun skatta á hvern?

Ferðaþjónustan varð svo óheppin að lenda í smásjá ríkisvaldsins að þessu sinni. Áður höfðu eldri borgarar og aðrir sem áttu sparnað og eignir lent undir öxi skattheimtumannsins, og þurfa nú að selja úr búi sínu til að eiga fyrir skattinum. Einnig höfðu fyrirtækjaeigendur þurft að taka á sig högg frá skatthamrinum. Þá höfðu almennir launþegar þurft að fá blóðsjúgandi sprautu yfirvaldsins í handlegg sinn.  En núna er sem sagt komið að ferðaþjónustunni.

Ferðaþjónustan bregst skiljanlega illa við með því að kvarta og kveina, halda ráðstefnur og fá útlenska samstarfsaðila til að tjá sig um málið, en hvar var hún þegar skattar voru hækkaðir á laun eða sparnað? Hvar var ferðaþjónustan þegar gjaldeyrishöftum var skellt á þá sem eiga eða hafa tekjur í krónum? Hún þagði. Hún var fegin að vera utan sviðsljóssins. Núna er hins vegar komið að henni, og núna á hún fáa vini. Ekkert seður botnlausar fjárhirslur ríkisins, og núna þegja allir aðrir og eru því fegnastir að ríkisvaldið hefur fundið sér fórnarlamb í ferðaþjónustunni og lætur því aðra í friði. Í bili.

Þetta er auðvitað veik vörn hjá skattgreiðendum. Samtakamátturinn er enginn. Ríkisvaldið er fegið hinni veiku andspyrnu, sem er bundin við einn og einn hóp í einu - þann sem á að kasta á skattheimtubálið hverju sinni.

Ríkisvaldið ætlar að hækka skatta, og ekkert fær það til að breyta þeim áformum. Þetta vita allir. Núna finnst mörgum vera komið að ferðaþjónustunni. Þar gengur jú svo „vel“. 
 
Geir Ágústsson
 
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 15. október 2012 og er aðgengisleg áskrifendum blaðsins hér.

Hin frjálsa heilbrigðisþjónusta

Mörgum finnst tilhugsunin um frjálst, einkarekið heilbrigðiskerfi vera framandi. Það er þó ekki meira framandi en svo að á Íslandi finnst heilt kerfi heilbrigðisþjónustu, meðhöndlunar, tækjasölu og eftirlits sem er bæði frjálst og rekið með hagnaðarsjónarmið í huga. Það er meira að segja krafið um háa skatta. 
 
Þegar menn finna þörfina fyrir notkun þessa heilbrigðiskerfis geta þeir valið úr tugum þjónustuaðila til að kíkja á mein sín. Hjá flestum þeirra er að finna dýr og fullkomin tæki, og starfsfólk sem kann að nota þau. Ef í ljós kemur að einhverrar lækningar eða meðhöndlunar er þörf geta þessir þjónustuaðilar boðið upp á mikið og breitt úrval. Þeir geta sérsniðið lausnir fyrir skjólstæðinginn, eða boðið upp á ódýrari lausnir.  
 
Sjúklingar geta valið að nota hjálpar- og lækningartæki, eða reitt fé af hendi og lagst á skurðborðið og þannig losnað við þörfina fyrir tiltölulega ódýr hjálpartækin, reglubundið eftirlit og endurnýjun tækja. Samkeppni um að framkvæma þessar aðgerðir er mikil, og þær hafa lækkað mikið í verði þrátt fyrir aukin gæði, hækkandi opinberar álögur og flótta sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu frá landinu undanfarið. 
 
Ánægjan með þetta fyrirkomulag tiltekinnar heilbrigðisþjónustu meðal almennings er mikil. Enginn hefur talað fyrir aðkomu ríkisvaldsins að henni. Óánægðir viðskiptavinir geta fljótt og örugglega skipt um þjónustuaðila til að verða sáttir á ný. Úrval á markaðinum er mikið. Hægt er að tryggja sig fyrir hugsanlegum útgjöldum ef t.d. hjálpartæki skemmast eða brotna, eða staðgreiða, eða greiða með afborgunum.
 
Þessi heilbrigðisþjónusta hefur fengið að vera frjáls víðast hvar á Vesturlöndum og hefur fyrir vikið fengið að þróast mikið og hratt. Nýjasta tækni breiðist hratt út og lækkar hratt í verði. Verkföll, kjaradeilur og biðlistar finnast ekki. Menn geta þefað uppi tilboð og þjónustu í öðrum löndum og sótt hana án vandkvæða, hvort sem það er í Póllandi eða Danmörku. 
 
Heilbrigðisþjónustan er vitaskuld sú sem sjónskertir þurfa að nota í formi gleraugna og linsa, og skurðaðgerða í formi sjónleiðréttinga. 
 
Hún er frjáls. Allir eru ánægðir. Hvers vegna ekki að gefa meira af heilbrigðisþjónustunni frjálsa og athuga hvort ekki sé hægt að gera fleiri að ánægðum sjúklingum? 

Óttinn við eigin skoðanir

Með réttu eða röngu óttast margir að viðra eigin skoðanir og halda þeim gjarnan út af fyrir sig af ótta við aðkast og úthrópanir. Þetta á skiljanlega við um kommúnista sem vilja umfram allt blóðuga byltingu. Þetta á við um þá sem fyrirlíta fólk vegna húðlitar þess. Þetta á við um þá sem vilja umfram allt að kvenfólk sé heimavinnandi, berfætt og ólétt, og eyði öllum deginum í að þrífa og elda. Þessar skoðanir eru ekki vinsælar. Þeir sem hafa þessar skoðanir láta ekki mikið fyrir þeim fara.
 
Síðan eru þeir til sem hafa skoðanir sem ætti með réttu að úthrópa og veita aðkast, en er ekki gert. Þeir sem hafa þær skoðanir flagga þeim því við hvert tækifæri, og fá jafnvel mikið lof og hrós þegar þeir gera það. Skoðanir þess eru samt þess eðlis að ef þeim yrði komið í framkvæmd yrðu allir verr settir til lengri tíma litið, og þeir einir tapa sem hafa sérhagsmuna á kostnað annarra að gæta. Sem dæmi um vinsælar skoðanir sem skaða alla til lengri tíma litið mætti nefna: Óskin um lögskipaða kynjakvóta í stjórnir einkafyrirtækja, ósk eftir niðurgreiðslum til ýmissa hópa sem ættu annað hvort að framfleyta sér sjálfir eða finna sér eitthvað annað að gera, söngurinn um nauðsyn ríkiseinokunar á peningaútgáfu, og þráin eftir opinberum afskiptum af tegund bíla sem fólk kaupir sér.
 
Loks er það þriðji hópurinn, sem hefur skoðanir sem yrðu vissulega öllum til hagsbóta til lengri tíma litið ef þeim yrði komið í framkvæmd, en eru óvinsælar hjá t.d. blaðamönnum og vinstrisinnuðum háskólaprófessorum með greiðan aðgang að fjölmiðlum. Þessi hópur boðar leiðir sem eru hagkvæmar fyrir alla þegar til lengri tíma er litið, en óþægilegar og vissulega óhagkvæmar fyrir suma þegar til skemmri tíma er litið. Sem dæmi má taka óskina um einkavæðingu allra ríkisfyrirtækja, en með því myndi fjöldi "öruggra" starfa minnka og þau gerð háð duttlungum viðskiptavina, eða hreinlega gufa upp því engin þörf væri á þeim lengur. Annað dæmi er óskin um stórkostlega lækkun skatta og fækkun reglugerða á allt og alla, og stórkostlegan samdrátt á umsvifum ríkisvaldsins. Minna fer fyrir þessum óskum en mörgum öðrum. Fjöldi hagsmunahópa telur hag sínum betur borgið innan ramma ríkisvaldsins en utan og snýst óvæginn til varnar þegar lífsviðurværi þeirra og sníkjulífi á skattgreiðendum er ógnað. 
 
Hinn þriðji hópur er óþarflega feiminn og hræddur. Hann óttast aðkast og uppnefni. Hann er hræddur við að hafa of hátt. Hann óttast blaðamennina vinstrisinnuðu og málpípur sérhagsmunahópanna. Meðlimir hópsins eru vissulega vissir í sinni sök, og hafa kynnt sér bæði réttlætis- og hagkvæmnisrökin fyrir afnámi ríkiseinokunar og –þvingunar, en hefur ekki hátt um það. Það er eins og hann óttist eigin skoðanir. 
 
Slíkt er samt óþarfi með öllu. Sú miður góða en um leið heppilega aðstaða er komin upp fyrir þá sem hafa óvinsælar en rökréttar skoðanir að hér hefur "hreinræktuð" vinstristjórn verið við völd í nálægt því 4 ár. Sviðin jörð teygir anga sína svo langt sem augað nær. Landflótti, frost í fjárfestingu og gjaldmiðlamál í ólestri eru stór vandamál sem blasa við öllum nema innvígðustu háskólaprófessorum. Mjúk leið til að benda á aðra valkosti gæti því falist í því að benda einfaldlega á að það er ekki hægt að gera verr en gert hefur verið seinustu 4 ár. Meira að segja ráðherrar sitjandi ríkisstjórnar telja þörf á að gorta sig af verkum þeirra ríkisstjórnar sem var við völd á dögum hrunsins haustið 2008, og þá er mikið sagt, því sú ríkisstjórn var heldur ekki góð.
 
Frjálshyggjumenn, íhaldsmenn með áherslur á hallalausan ríkisrekstur, hægrimenn með almennan en kannski ekkert brennandi áhuga á minnkandi ríkisvaldi og fleiri ættu að geta sameinast um að boða óvinsælar en rökréttar skoðanir. Það er ekkert að óttast nema umræðuna, og hana ætti að vera auðvelt að sigra með rökfestu og yfirvegun, og þá sérstaklega í núverandi árferði.
 
Geir Ágústsson 


Hin svokölluðu frjálshyggjuár

Árið 2008 hrundi íslenska bankakerfið og íslenska krónan eftir mörg ár af vaxandi kaupmætti flestra og auknu svigrúmi í hagkerfinu. Hið íslenska góðæri var byggt á tveimur stoðum. Sú fyrri var skattalækkanir og einkavæðing ríkisfyrirtækja sem hvoru tveggja hafði leyst úr læðingi mikla verðmætasköpun einkaaðila. Það var hið raunverulega góðæri. Þessa stoð vill vinstristjórnin höggva rækilega í spæni. Síðari stoðin var stanslaus mokstur á nýprentuðum ríkispeningum ofan í vasa einkaaðila, sem tóku mikla áhættu með þá. Það var hið falska góðæri. Þessi misserin er unnið dyggilega að því að halda í því á lífi.

Hin svokölluðu frjálshyggjuár á Íslandi snerust ekki um róttæka uppstokkun samfélagsins eftir höfði frjálshyggjumanna. Öðru nær. Á þeim gerðist það eitt að Ísland hætti að líkjast sósíalistaríki, þar sem ríkið rekur framleiðslutækin eða ver fákeppni á markaði með öllum brögðum, og byrjaði að líkjast vestur-evrópsku ríki. Í leiðinni var reglugerðum Evrópusambandsins sópað til landsins og þær gerðar að íslenskum lögum.

Til að komast í gegnum erfiðleika hinna svokölluðu frjálshyggjuára þarf raunverulega frjálshyggju. Ríkisvaldið þarf að hætta framleiðslu og verðlagningu peninga. Öll ríkisfyrirtæki þarf að einkavæða. Skatta verður að skera niður úr öllu valdi, skuldir hins opinbera þarf að greiða eða einfaldlega afskrifa sem óréttmætri lántöku fyrir hönd skattgreiðenda (og um leið rústa lánstrausti ríkisvaldsins til frambúðar). Skattkerfið þarf að einfalda töluvert. Ríkisábyrgðir ber að afnema, og þær sem er búið að veita á að draga til baka, hvað sem líður kostnaði þeirra sem á þær treysta. Blóðsugan á ekki að geta lifað á blóði skattgreiðenda þótt um slíkt hafi verið samið einhvern tímann.

Heilbrigðis„kerfið“, mennta„kerfið“, vega„kerfið“ og velferðar„kerfið“ eru fyrirbæri sem þarf að brjóta upp í frumeindir og koma úr höndum ríkisvaldsins. Þegar skattlagningin er orðin lítil sem engin er alveg hægt að ætlast til þess að fólk fjármagni eigin menntun og eigin sjúkratryggingar, og auðvelt að ímynda sér að þeir örfáu sem hafa ekki efni á neinu af einhverjum ástæåum fái nauðsynlegan stuðning (styrki eða lán) frá góðhjörtuðu fólki og fyrirtækjum í leit að góðri ímynd, en dæmi um slíkt þekkjast mjög víða.

Þeir sem boða náungakærleik og aðstoð við þá sem minna mega sín geta látið verkin tala í stað skattkerfisins. Engin góðmennska eða kærleikur er fólginn í því að láta ríkisvaldið innheimta fé til að aðstoða þá sem aðstoð þurfa. Raunveruleg góðmennska felst í frjálsum framlögum og ráðstöfun eigin frítíma, en ekki með því að ríkið beiti skattgreiðendur ofbeldi. Þegar ríkið niðurgreiðir örorku, atvinnuleysi og iðjuleysi er það eitt tryggt, að meira verður af örorku, atvinnuleysi og iðjuleysi.

Hin svokölluðu frjálshyggjuár voru ár Evrópuvæðingar Íslands, þar sem það færðist úr sovésku austri í sósíaldemókratískt vestrið. Seinustu misseri hafa snúist um Evrópusambandsvæðingu Íslands með samfélagslegri ábyrgð á skuldum einkaaðila. Næstu ár þurfa að snúast um frelsi og framtak einstaklinga og einkaaðila og stórkostlegan samdrátt ríkisvaldsins. Í heimi þar sem engin fjölgun starfa hefur átt sér stað í áratug í hvorki Bandaríkjunum né Evrópusambandinu, skuldirnar eru orðnar óviðráðanlegar og stærstu gjaldmiðlar heims á hverfanda hveli er tiltölulega auðvelt að skara fram úr.

Keppnin um það hver er lélegastur er hörð, en hún er auðveld fyrir þá sem hlaupa í hina áttina og keppa að því að verða bestir. Leiðin er einföld: Koma ríkisvaldinu úr peningaframleiðslu, minnka hin opinberu þyngsli á samfélagið og hagkerfið niður í nánast ekki neitt, og tryggja að sá sem á, hann megi, og að hinum sem skemmir eign annars manns sé það bannað.

Geir Ágústsson.

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 6. september 2012 og er aðgengileg áskrifendum að netútgáfu blaðsins hér.  


Viltu sósíalisma eða frelsi?

Ríkisstjórnin hefur nú unnið markvisst að því í hálft fjórða ár að innleiða sósíalisma á Íslandi. Það hefur hún gert með útvíkkun ríkisvaldsins, auknu regluverki og fleiri boðum og bönnum. Þeir sem standa nálægt valdhöfunum hafa fengið leyfi til að skara eld að eigin köku á meðan aðrir hafa þurft að horfa upp á rýrnun lífskjara sinna og fækkun tækifæra.

Sósíalismi er slæm hugmynd byggð á vondum ásetningi. Hann gengur út á tvennt í raun, sama hvað öllu orðagjálfri líður: Að koma í veg fyrir að nokkur utan kjarna valdhafa geti bætt kjör sín, og setja þumalskrúfu á þá sem þóknast ekki yfirvöldum. Sósíalistar boða hagfræði sem kvelur hagkerfið, og elur á siðfræði öfundar, græðgi, yfirgangs og harðræðis. Sósíalistar segja að hugmyndafræði þeirra snúist um að jafna lífskjör, sem hún gerir, því í sósíalísku þjóðskipulagi hafa allir það jafnskítt, nema fámenn yfirstétt valdhafa og þeirra sem henni eru þóknanlegir.  Sósíalistar segjast berjast fyrir réttlæti og vissulega finnst sósíalistunum réttlátt að ræna aðra og setja afraksturinn í eigin vasa, en aðrir hljóta að mótmæla réttmæti slíks „réttlætis“.

Núna, eftir þrjú og hálft ár af innleiðingu sósíalisma á Íslandi, eru afleiðingar hans margar að koma fram. Samkvæmt fréttablaði Ríkisskattstjóra þurftu 59 fjölskyldur á Íslandi að selja eignir árið 2010 til að eiga fyrir hinum svokallaða „auðlegðarskatti“, en hann er annað orð fyrir hreina eignaupptöku ríkisins. Smátt og smátt fer skattstofn eignaupptökuskattsins allur í felur eða til útlanda eftir krókaleiðum. Hverja á þá að mjólka ofan í ríkishítina?

Tölfræðin segir að hagvöxtur hafi tekið við sér á Íslandi en við nánari athugun kemur í ljós að hann er meira og minna skuldsett neysla hins opinbera og einstaklinga. Fjárfesting er nánast engin og þó vantar ekki tækifærin til að fjárfesta á Íslandi. Ríkisvaldið stendur í vegi fyrir verðmætasköpun og endurreisn hagkerfisins.

Ísland er orðið að tilraunastofu fyrir sambland af hagstjórn og pólitískri hugmyndafræði sem er margreynd, virkar ekki og skilur eftir sig eyðimörk af skuldum og sóun. Þetta kusu Íslendingar yfir sig á sínum tíma og hafa vonandi lært, í eitt skipti fyrir öll, að af tvennu illu er skárra að láta stjórna sér af jakkafataklæddum en raunsæjum íhaldsmanni en vinstrimanni fullum af heift og hefndarþorsta, vopnaður hagfræðikenningum stöðnunar og ríkiseinokunar. Best væri þó að takmarka ríkisvaldið sem mest, svo þeir sem starfa fyrir það geri sem minnstan skaða.

Eftir tæpt ár verður kosið til Alþingis. Ætlar þú, kæri kjósandi, að kjósa áframhaldandi sósíalisma og ríkisforsjá, eymd og volæði, eða eitthvað sem eykur frekar líkurnar en hitt á því að þú fáir að ráða því nokkurn veginn sjálf(ur) hvernig þú hagar lífi þínu?
 
Geir Ágústsson
 
Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 26. júlí 2012 og er aðgengileg áskrifendum að vefútgáfu blaðsins hér.  

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband