Hin frjálsa heilbrigðisþjónusta

Mörgum finnst tilhugsunin um frjálst, einkarekið heilbrigðiskerfi vera framandi. Það er þó ekki meira framandi en svo að á Íslandi finnst heilt kerfi heilbrigðisþjónustu, meðhöndlunar, tækjasölu og eftirlits sem er bæði frjálst og rekið með hagnaðarsjónarmið í huga. Það er meira að segja krafið um háa skatta. 
 
Þegar menn finna þörfina fyrir notkun þessa heilbrigðiskerfis geta þeir valið úr tugum þjónustuaðila til að kíkja á mein sín. Hjá flestum þeirra er að finna dýr og fullkomin tæki, og starfsfólk sem kann að nota þau. Ef í ljós kemur að einhverrar lækningar eða meðhöndlunar er þörf geta þessir þjónustuaðilar boðið upp á mikið og breitt úrval. Þeir geta sérsniðið lausnir fyrir skjólstæðinginn, eða boðið upp á ódýrari lausnir.  
 
Sjúklingar geta valið að nota hjálpar- og lækningartæki, eða reitt fé af hendi og lagst á skurðborðið og þannig losnað við þörfina fyrir tiltölulega ódýr hjálpartækin, reglubundið eftirlit og endurnýjun tækja. Samkeppni um að framkvæma þessar aðgerðir er mikil, og þær hafa lækkað mikið í verði þrátt fyrir aukin gæði, hækkandi opinberar álögur og flótta sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu frá landinu undanfarið. 
 
Ánægjan með þetta fyrirkomulag tiltekinnar heilbrigðisþjónustu meðal almennings er mikil. Enginn hefur talað fyrir aðkomu ríkisvaldsins að henni. Óánægðir viðskiptavinir geta fljótt og örugglega skipt um þjónustuaðila til að verða sáttir á ný. Úrval á markaðinum er mikið. Hægt er að tryggja sig fyrir hugsanlegum útgjöldum ef t.d. hjálpartæki skemmast eða brotna, eða staðgreiða, eða greiða með afborgunum.
 
Þessi heilbrigðisþjónusta hefur fengið að vera frjáls víðast hvar á Vesturlöndum og hefur fyrir vikið fengið að þróast mikið og hratt. Nýjasta tækni breiðist hratt út og lækkar hratt í verði. Verkföll, kjaradeilur og biðlistar finnast ekki. Menn geta þefað uppi tilboð og þjónustu í öðrum löndum og sótt hana án vandkvæða, hvort sem það er í Póllandi eða Danmörku. 
 
Heilbrigðisþjónustan er vitaskuld sú sem sjónskertir þurfa að nota í formi gleraugna og linsa, og skurðaðgerða í formi sjónleiðréttinga. 
 
Hún er frjáls. Allir eru ánægðir. Hvers vegna ekki að gefa meira af heilbrigðisþjónustunni frjálsa og athuga hvort ekki sé hægt að gera fleiri að ánægðum sjúklingum? 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband