Hin svokölluðu frjálshyggjuár

Árið 2008 hrundi íslenska bankakerfið og íslenska krónan eftir mörg ár af vaxandi kaupmætti flestra og auknu svigrúmi í hagkerfinu. Hið íslenska góðæri var byggt á tveimur stoðum. Sú fyrri var skattalækkanir og einkavæðing ríkisfyrirtækja sem hvoru tveggja hafði leyst úr læðingi mikla verðmætasköpun einkaaðila. Það var hið raunverulega góðæri. Þessa stoð vill vinstristjórnin höggva rækilega í spæni. Síðari stoðin var stanslaus mokstur á nýprentuðum ríkispeningum ofan í vasa einkaaðila, sem tóku mikla áhættu með þá. Það var hið falska góðæri. Þessi misserin er unnið dyggilega að því að halda í því á lífi.

Hin svokölluðu frjálshyggjuár á Íslandi snerust ekki um róttæka uppstokkun samfélagsins eftir höfði frjálshyggjumanna. Öðru nær. Á þeim gerðist það eitt að Ísland hætti að líkjast sósíalistaríki, þar sem ríkið rekur framleiðslutækin eða ver fákeppni á markaði með öllum brögðum, og byrjaði að líkjast vestur-evrópsku ríki. Í leiðinni var reglugerðum Evrópusambandsins sópað til landsins og þær gerðar að íslenskum lögum.

Til að komast í gegnum erfiðleika hinna svokölluðu frjálshyggjuára þarf raunverulega frjálshyggju. Ríkisvaldið þarf að hætta framleiðslu og verðlagningu peninga. Öll ríkisfyrirtæki þarf að einkavæða. Skatta verður að skera niður úr öllu valdi, skuldir hins opinbera þarf að greiða eða einfaldlega afskrifa sem óréttmætri lántöku fyrir hönd skattgreiðenda (og um leið rústa lánstrausti ríkisvaldsins til frambúðar). Skattkerfið þarf að einfalda töluvert. Ríkisábyrgðir ber að afnema, og þær sem er búið að veita á að draga til baka, hvað sem líður kostnaði þeirra sem á þær treysta. Blóðsugan á ekki að geta lifað á blóði skattgreiðenda þótt um slíkt hafi verið samið einhvern tímann.

Heilbrigðis„kerfið“, mennta„kerfið“, vega„kerfið“ og velferðar„kerfið“ eru fyrirbæri sem þarf að brjóta upp í frumeindir og koma úr höndum ríkisvaldsins. Þegar skattlagningin er orðin lítil sem engin er alveg hægt að ætlast til þess að fólk fjármagni eigin menntun og eigin sjúkratryggingar, og auðvelt að ímynda sér að þeir örfáu sem hafa ekki efni á neinu af einhverjum ástæåum fái nauðsynlegan stuðning (styrki eða lán) frá góðhjörtuðu fólki og fyrirtækjum í leit að góðri ímynd, en dæmi um slíkt þekkjast mjög víða.

Þeir sem boða náungakærleik og aðstoð við þá sem minna mega sín geta látið verkin tala í stað skattkerfisins. Engin góðmennska eða kærleikur er fólginn í því að láta ríkisvaldið innheimta fé til að aðstoða þá sem aðstoð þurfa. Raunveruleg góðmennska felst í frjálsum framlögum og ráðstöfun eigin frítíma, en ekki með því að ríkið beiti skattgreiðendur ofbeldi. Þegar ríkið niðurgreiðir örorku, atvinnuleysi og iðjuleysi er það eitt tryggt, að meira verður af örorku, atvinnuleysi og iðjuleysi.

Hin svokölluðu frjálshyggjuár voru ár Evrópuvæðingar Íslands, þar sem það færðist úr sovésku austri í sósíaldemókratískt vestrið. Seinustu misseri hafa snúist um Evrópusambandsvæðingu Íslands með samfélagslegri ábyrgð á skuldum einkaaðila. Næstu ár þurfa að snúast um frelsi og framtak einstaklinga og einkaaðila og stórkostlegan samdrátt ríkisvaldsins. Í heimi þar sem engin fjölgun starfa hefur átt sér stað í áratug í hvorki Bandaríkjunum né Evrópusambandinu, skuldirnar eru orðnar óviðráðanlegar og stærstu gjaldmiðlar heims á hverfanda hveli er tiltölulega auðvelt að skara fram úr.

Keppnin um það hver er lélegastur er hörð, en hún er auðveld fyrir þá sem hlaupa í hina áttina og keppa að því að verða bestir. Leiðin er einföld: Koma ríkisvaldinu úr peningaframleiðslu, minnka hin opinberu þyngsli á samfélagið og hagkerfið niður í nánast ekki neitt, og tryggja að sá sem á, hann megi, og að hinum sem skemmir eign annars manns sé það bannað.

Geir Ágústsson.

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 6. september 2012 og er aðgengileg áskrifendum að netútgáfu blaðsins hér.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband