Óþolandi afskipti hins opinbera

Það setur hreinlega ugg að þeim er þetta ritar að borgaryfirvöld skuli valsa inn á einkalóðir af tilefnislausu til að taka myndir af húsum fólks og birta því síðan lista með því sem borgaryfirvöld telji að eigi að lagfæra. Hér er freklega gengið á eignarétt fólks. Kjósi fólk að dytta ekki að sínum húsum þá hlýtur það að vera þeirra einkamál, svo fremi sem hætta stafar ekki af. Þá er á hitt að líta að borgaryfirvöld hafa rembst við að gera verktökum erfitt fyrir að fá leyfi til nýbygginga í miðborginni og þess vegna sitjum við uppi með fjöldann allan af ljótum timburhjöllum.

Það hlýtur líka að vera umhugsunarefni á tímum aðhalds og sparnaðar hvernig borgaryfirvöldum dettur í hug að gera út menn til jafnóþarfrar iðju. Sá er þetta ritar dregur þá ályktun að það séu greinilega OF MARGIR embættismenn að störfum hjá borginni.


mbl.is Sumir reiðir en aðrir hrósa sigri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gáleysislegt tal

Þær tilvitnanir til Gunnars Þ. Andersens, sem hér er vísað til, sýna svo ekki verður um villst að hann á ekkert erindi í starf forstjóra Fjármálaeftirlits. Yfirmenn stofnana geta ekki leyft sér að nota jafngáleysislegt hjal og Gunnar. Ef til vill hefði farið betur á því að til stofnunarinnar hefði verið ráðinn lögfræðimenntaður maður.

Nú um stundir er mikill atgervisflótti frá Fjármálaeftirlitinu, en ekki hafa fjölmiðlar gefið því neinn gaum. Þá hefur lítið verið fjallað um þær alvarlegu ásakanir sem hafa verið bornar á Gunnar um að hann hafi sjálfur lekið lánabók Kaupþings á netið, en Ólafur Arnarson hagfræðingur gerði því skóna í pistli á vefmiðlinum Pressunni nú fyrir skemmstu.

En Gunnar er jú einn af bestu mönnum vinstristjórnarinnar, á stalli með Svavari Gestssyni. Vinstriflokkarnir voru þó vafalítið búnir að gleyma því að Gunnar stofnaði til aflandseyjarekstur Landsbankans, þegar hann var þar starfandi og bankinn var enn ríkisbanki.


mbl.is Mörg dæmi um lögbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur hefur í hótunum

Það verða að teljast mikil umskipti hjá Steingrími J. Sigfússyni að vera orðinn helsti talsmaður þess að íslenskir skattborgarar greiði skuldir sem ríkissjóður Íslands ber ekki ábyrgð á. Á sama tíma er Jóhanna Sigurðardóttir komin í felur, enda þolir hún vart dagsljósið. Vitaskuld átti að leiða þetta mál til lykta fyrir dómstólum og hafi menn viljað semja um að greiða þá hefði vitaskuld átt að fá til þess menn með sérþekkingu á lögum, en ekki ráða afdankaðan stjórnmálamann til verksins. Núverandi ríkisstjórn verður að teljast sú ömurlegasta í samfelldri sögu hins fullvalda ríkis.


mbl.is Upplausn hér verði Icesavelögum hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignarétturinn fótum troðinn

Það er ótrúlegt hvernig virðing fyrir eignarréttinum fer þverrandi. Sú hugmynd er að grafa um sig í samfélaginu, þökk sé m.a. fjölmiðlum landsins, að allir sem eiga peninga eða eru í bissness séu ótýndir glæpamenn.

Það virðist vera í lagi að skemma hluti ef ljóst þykir að eigandinn hafi eða hafi haft fé á milli handanna.

Þeir skemmdarvargar sem eyðilagt hafa bíla með þeim hætti sem lýst er í fréttinni hafa nú bæst í hóp hinna svo kölluðu „málningar- og/eða lakkmeistara“ sem farið hafa mikinn að undanförnu.

Þetta orðalag hefur viðgengist í fjölmiðlum um þá glæpamenn sem úðað hafa málningu yfir hús og eigur alþjóðlegra fjárfesta og valdið með því milljónatjóni.

Fjallað er um óverknaðinn í þessari frétt sem glæp og hún því til fyrirmyndar. Þetta er nokkuð sem aðrir fjölmiðlar mættu taka til sín.

Galli er þó á gjöf Njarðar. Í fréttinni er tekið sérstaklega fram að bíleigandinn sem talað er við sé ekki útrásarvíkingur, eins og alþjóðlegir fjárfestar eru kallaðir af fjölmiðlum landsins, og því engin ástæða til að skemma bílinn hans.


mbl.is Lúxusbílar skemmdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annarra manna fé

Það er hlægileg mótsögn í ályktun stjórnar Sjómannafélags Íslands. Þó svo að það væru bara stéttarfélögin sjálf sem skipuðu menn í stjórnir lífeyrissjóða, þá væru þeir samt að fara með annarra manna fé.
mbl.is „Menn fara best með eigið fé“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forkastanleg vinnubrögð

Það eru forkastanleg vinnubrögð af hálfu blaðamanna mbl.is að slengja skoðun stjórnmálamanns upp sem sannleika í fyrirsögn, sér í lagi þegar fyrirfram er vitað að viðkomandi stjórnmálamaður mun aldrei koma til með að verða hlynntur málinu.

Ósagt skal látið um innihald umrædds samnings sem gerður hefur verið og ágæti hans enda hefur hann ekki borist inn á borð Frjálshyggjufélagsins.

Hins vegar sýnir sú fréttamennska sem hér er boðið upp á hversu vilhallir íslenskir fjölmiðlar eru vinstri flokkum landsins. Vinstrislagsíðan er alger.

Það hlýtur að vera krafa að fjölmiðlar fjalli af hlutlægni um öll mál, hvort sem þau lúta að málefnum vinstri eða hægrisjónarmiða, hagsmunum einstaklinga eða fjöldans, grískra eða gyðinga.


mbl.is Tilboðið óhagstætt fyrir OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofsinn í ESB

Svo mikill er ofsi Samfylkingarinnar að komast í ESB að allt er gert til að hrinda öllum hindrunum úr vegi og ein þeirra er Icesave. Hagsmunum Íslands á að fórna á altari ESB með góðu eða illu. Vinstri Grænir eru svo sólgnir í völd að þeir hafa fórnað hugsjónum sínum á sessum ráðherrastóla landsins og eina von Íslendinga er að hægrimenn landsins standi fast á sínu og leyfi frumvarpi ríkistjórnarinnar ekki að fara í gegnum þingið.

Það er algjörlega ótækt að einstaklingar sem enga ábyrgð bera hvorki lagalega né siðferðislega eigi nú að taka upp veskið og greiða fyrir gjaldþrot einkafyrirtækis. Það fellst áhætta í öllum viðskiptum og þeir sem stunda viðskiptin eiga að bera ábyrgðina, ekki skattgreiðendur. Ástæða hrunsins er ekki síst sú að hér og annars staðar voru skattgreiðendur í ábyrgð fyrir stærstu fjármálafyrirtækin. Fyrirtæki sem máttu búast við því að verða bjargað af ríkinu höguðu sér auðvitað ekki á ábyrgan hátt. Hefðu stjórnendur banka einhvern tíman tekið sömu áhættu með eigið fé?

Icesave-lánasamningurinn er vítaverður hvað sem forseta Alþingis kann að finnast um það.


mbl.is Gegn hagsmunum Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málefnalega kosningarbaráttu takk fyrir

Það hefur verið regla hjá Frjálshyggjufélaginu að skipta sér ekki af innaflokksátökum í öðrum félögum eða flokkum. Þrátt fyrir það verður ekki komist hjá því að fjalla aðeins um átök í Heimdalli þar sem eitthvað af félagsmönnum okkar eru jafnframt skráðir Sjálfstæðismenn enn.

Ungliðastarf í flokkum landsins hefur einkennst af framapoti og kjánaskap og þarf ekki að leita lengra en til frægs myndbands á youtube frá landsfuni Samfylkingarinnar „Hæ Samfylking – flaut“. Af hverju ungir jafnaðarmenn sáu sig knúna til að blása í flautu eins og áttavilltur krakki er mönnum enn hulið. Helstu sérfræðingar landsins telja þó að það hafi verið til að undirstrika hversu áttavillt þau eru í efnahagsmálum.

Öllu gamni sleppt þá vonar Frjálshyggjufélagið að málefnin fái að ráða í þessum kosningum. Það verður að koma skýrt fram hver stefna frambjóðenda er í efnahagsmálum, til ESB aðildar, Icesave, menntamálum og fleiri mikilvægum málum.


mbl.is Árni Helgason vill stýra Heimdalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntaskólinn ehf – Til hamingju og gangi ykkur vel

Það er full ástæða til að hrósa annars vegar Reykjavíkurborg fyrir að styðja við bakið á sjálfstætt starfandi skólum, og hins vegar þeim aðilum sem standa á bakvið Menntaskólann ehf. fyrir að stíga þetta skref miðað við núverandi aðstæður.

Að sjálfsögðu ætti að vinna í því að sem flestar menntastofnanir, á öllum stigum, séu einkareknar en ekki í rekstri opinberra aðila.

Nú er hins vegar bara að bíða og sjá hvað menntamálaráðuneytið gerir. Það er örugglega ekki efst á forgangslista núverandi stjórnvalda að styðja við bakið á einkareknum skólum. 

mbl.is Leyfa stofnun sjálfstætt starfandi grunnskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ókeypis

Frítt í strætó, ókeypis tannlæknar fyrir börn, frítt í leikskóla og ókeypis skólabækur. Er ekki frábært að strætóbílstjórar, tannlæknar, fóstrur og ritfangaverslanir skuli gefa vinnu sína fyrir okkur hin? Eða getur verið að herlegheitin séu bara alls ekki ókeypis og á endanum þurfi einhver að greiða fyrir veisluna.

Ert þú að vinna frítt fyrir einhvern?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband