21.10.2009 | 00:05
Bruðl með skattfé
Stjórnmálamenn telja sér sífellt heimilt að leita dýpra í pyngju skattgreiðenda, eins og til að fjármagna gæluverkefni lík þeim sér hér er fjallað um. Auðvitað vill enginn vera á móti jafnrétti, allra síst rétt fyrir kosningar, og því hamast borgarfulltrúarnir við að sólunda fjármunum okkar borgarbúa í fánýt verkefni sem þessi. Hér eru undirliggjandi þröngir stéttarhagsmunir sí stækkandi hóps manna og kvenna sem vinna við jafnréttisiðnaðinn. Nú er svo komið að vart er til sú opinbera stofnun, sem ekki hefur á að skipa "jafnréttisfulltrúa". Það er venjulega starfsmaður á ágætum launum sem skoðar veffjölmiðla fyrir hádegi og býr til power point sýningar eftir hádegi.
Á tímum sem nú þegar afar brýnt er að skera niður í opinberum rekstri ætti fyrst af öllu að losa stofnanir við óþarfa starfsmenn sem þessa og réttast væri að leggja niður hinn opinbera jafnréttisiðnað í heild sinni. Þeir einstaklingar sem hafa áhuga á þessum málum geta barist fyrir þeim í sínum eigin félögum á sinn eigin reikning.
![]() |
Borgin virði jafnrétti kynjanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.10.2009 | 10:29
Mannfjandsamlegt frumvarp
Það er engum blöðum um það að fletta að vandi íslenskra skuldara er ærinn. Fyrirtæki og einstaklingar berjast í bökkum á meðan ríkisstjórnin stendur aðgerðarlaus á hliðarlínunni.
Já, þangað til nú og því er nú verr og miður.
Frumvarp hæstvirts félagsmálaráðherra kann að vera byggt á hjartahlýju og náungakærleika; að koma þurfi í veg fyrir gjaldþrot og vandræði, en sá kærleikur og sú væntumþykja ráðherrans í garð skuldara gæti komið íslensku þjóðinni í koll.
Markaðurinn veðrur að hafa sinn gang. Fyrirtæki koma og fara og það versta sem stjórnmálamenn geta gert er að hafa áhrif á það gangkerfi og sér í lagi að taka ákvarðanir byggðar á tilfinningarlegum grunni.
Á markaði berjast fyrirtæki innbyrðis og þegar illa rekið fyrirtæki rambar á barmi gjaldþrots á ekki að bjarga því. Frá sjónarhóli samkeppnisaðilans sem sýndi aðhald og ráðdeild í rekstri er það beinlínis mannfjandsamleg ákvörðun af hálfu hins opinbera. Hvert er þá orðið hlutverk samkeppni ef björgunarhring ríkisvaldsins er kastað til allra þeirra fyrirtækja sem verða undir í samkeppninni?
Sé þessu fylgt, að öllum verði að bjarga, mun þjóðin sitja uppi með fjöldan allan af óhagkvæmum fyrirtækjum sem verður ekki til neins nema samdráttar í hagvexti.
Gæta verður jafnvægis í aðförum og innheimtu skulda. Ekki tjóir að þeir sem illa standi fái endalausa fresti, ívilnanir og linkennd við innheimtu á meðan þeir sem betur standa verða fyrir barðinu á aðgangshörku lánastofnana.
Slíkt ástand vekur eingöngu upp tortryggni og úlfúð í garð náungans.
![]() |
Frumvarp um skuldir lagt fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.10.2009 | 19:59
Enn deilt um ríkisstjórnina
Hversu oft hefur þessi söngur heyrst áður, að lausn Icesave-deilunnar sé skammt að bíða? Sumarið sem leið einkenndist af loforðum, spám og fréttatilkynningum frá ríkisstjórninni í lok hverrar vinnuviku að deilan leystist eftir helgina eða jafnvel "á morgun" en annað hefur komið á daginn.
Ríkisstjórn sú er nú situr virðist alltaf finna sér einhverja tálma á vegi sínum, oft og tíðum ímyndaða, sem nauðsynlegt sé að koma úr vegi svo Ísland "einangrist ekki úr samfélagi þjóðanna" eða til að koma í veg fyrir að allt fari hér til fjandans.
Besta dæmið um slíkan tálma er auðvitað Davíð Oddsson. Hann þurfti að reka svo hjól efnahagslífsins færu að snúast á ný og gengi krónunnar að styrkjast. Auðvitað var það fyrsta verk ríkisstjórnarinnar en allt kom fyrir ekki og versnaði ástandið dag frá degi.
Einn er hins vegar sá tálmi sem sannarlega stendur í vegi fyrir vegsemd þjóðarinnar.
Úr því þarf að fást skorið hvort Íslendingum beri í raun lagaleg skylda til að borga hina margumræddu Icesave-reikninga og er sósíalistastjórnin okkar sem nú situr þess helsti andstæðingur.
Gott væri ef liðsmenn hennar rifjuðu upp máltæki úr kristinfræðinni sinni þar sem spurt er hví þú sjáir flísina í auga bróður þíns en eigi bjálkann í eigin auga.
![]() |
Enn deilt um dómstólaleið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2009 | 16:32
Krónan og ESB
Umsókn í Evrópusambandið átti að vera svo sterkur leikur að gengi krónunnar myndi styrkjast um leið. Þannig var orðræða flestra þingmanna Samfylkingarinnar og ýmissa hagspekinga háskólans á þeirra vegum. Krónan hefur þrátt fyrir aðildarbeiðnina ekki hækkað og haldið áfram að falla. Það vekur furðu að fjölmiðlar skuli ekki ganga á þingmenn Samfylkingarinnar og krefja þá svara á þessu.
Framsal á fullveldi landsins til Brussel mun skapa mikla réttaróvissu um hagsmuni Íslands t.d. á auðlindum hvort heldur í landi eða sjó. Reglugerðaveldi ESB er andstætt þeirri hugsun að einstaklingar eigi að ráða sér sjálfir og bera ábyrgð á eigin gjörðum. Þó svo Jóhanna sé slæmur forsætisráðherra og ef ekki sá versti sem landið hefur alið þá vil ég síður skipta henni út fyrir andlistlausa embættismanninn í Brussel. Jóhönnu er hægt að kjósa burtu en embættisbáknið í Brussel er komið til að vera.
![]() |
Gengi krónunnar veiktist lítillega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.10.2009 | 16:19
Tilgangur laga
Það er göfugt markmið eitt út af fyrir sig að koma í veg fyrir læti á íþróttavöllum og kappleikjum yfir höfuð en algjört glapræði af ríkisvaldi að setja lög sem eiga að sporna við slíku. Það á að vera í verkahring íþróttahreyfinga og íþróttafélaga að setja reglur sem gilda á þeirra leikvöngum ekki ríkisins. Það er fráleitt að ætla að forseti Serbíu hafi ætlað að stofna til illinda eða láta með gjörðum sínum, hér er einfaldlega einstaklingur að fagna frábærum árangri samlanda sinna og opnar kampavínsflösku til að fagna og njóta með nærstöddum, hver er glæpurinn í því.
Vel viljaðir stjórnmálamenn eiga það til að setja lög sem snúast svo algjörlega í andhverfu sínu. Sú meginregla að ákvarðanir eigi að vera teknar sem næst einstaklingum og þá helst af þeim sjálfum á vel við hér.
![]() |
Ákærður fyrir að opna flösku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.10.2009 | 14:27
Lögleiðum aftur kaup á vændi
![]() |
Götuvændi stundað í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.10.2009 | 12:08
Atgervisflótti
Mannsöfnuðurinn sem mætti með ofbeldi á Austurvöll ætti að gleðjast yfir að tekist að eyðileggja líf fjölmargra af umsvifamestu athafnamönnum Íslands. Sama hversu stórt efnahagshrunið var, þá er fráleitt að ætla, eins og sumir halda fram, að nánast allir stórtækir viðskiptamenn hafi átt þátt í skipulagðri glæpastarfsemi. Um aldamótin 1900 voru það stórir atvinnurekendur, stórútgerðarmenn sem áttu einna drýgsta þáttinn í uppbyggingu atvinnulífsins. Við þurfum á umsvifamiklum athafnamönnum að halda, mönnum sem taka áhættu, mönnum sem þora.
En til þess að svo megi verða þyrftu að setjast í ríkisstjórn alvöru karlmenni, sem geta tekið á málum og létt hömlum af atvinnulífinu. Lækka þarf skatta stórlega og skera niður ríkisútgjöld um nokkra tugi prósenta.
![]() |
Flestir lykilmennirnir farnir frá Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.10.2009 | 01:21
Fasismi og aðrar vinstristefnur
Frjálshyggja og sósíalismi, eða stjórnlyndi, eru helstu andstæður í stjórnmálum 20. aldar og milli þessara stefna er hyldýpi. Einn af fyrstu hugsuðum sósíalismans, Saint-Simon, sagði að með þá sem ekki hlýddu áætlunum hans yrði farið eins og kvikfénað. Guðfeður sósíalismans töldu einstaklingsfrelsið, þar með talið tjáningarfrelsið, eitthvert mesta böl 19. aldarinnar. Síðan þá hafa sósíalistar víða um lönd tekið upp nöfn frjálslyndra flokka og farið að boða frelsi en undir niðri býr hugmyndafræði sem er andstæð einstaklingsfrelsi. Virðing sósíalista fyrir mannréttindum er nefnilega á hvörfum eins og sýndi sig glögglega þegar þingmaður Vinstri grænna nefndi nýlega að eignarétturinn væri ofmetinn.
Það vill einnig gleymast að þau mannúðarsjónarmið sem sósíalistar boða eiga uppruna sinn í einstaklingshyggju og verða eingöngu framkvæmd við þjóðskipulag sem byggir á einstaklingshyggju. Sósíalískt þjóðskipulag leiðir brátt til þess að valdhafarnir þurfa að taka sér alræðisvald til að ná settum markmiðum. Þá verður til sérkennilegt siðferði þar sem einstaklingurinn fær ekki að hlýða samvisku sinni eða beita eigin reglum. Við slíkar aðstæður verður eina siðareglan sú að tilgangurinn helgi meðalið. Við aðstæður sem þessar er samviskulausum mönnum opin greið leið upp virðingarstigann. Friedrich von Hayek orðaði það svo að lýðræðissinnaður stjórnmálamaður sem færi að skipuleggja atvinnulífið stæði brátt frammi fyrir valinu um að taka sér einræðisvald eða gefast upp.
Vonlegt er að menn spyrji sig hvað það er sem veldur því að lýðræðislegar stofnanir falla og alræðisstjórn tekur völdin. Sjúkdómseinkenni slíks samfélags eru skýr. Almenningur verður langþreyttur á seinagangi þeim sem fylgir lýðræðislegum aðferðum og krafan um markvissar og snöggar aðgerðir ríkisins verður háværust. Þá veljast til forystu þeir menn sem boða mest ríkisafskipti stjórnmálaflokkur sem er skipulagður eins og herlið tekur að skipuleggja þjóðfélagið allt. Herlið þýskra þjóðernissósíalista var knúið áfram af óánægju með frjálst fjármagnskerfi og þeirri óánægju mátti auðveldlega snúa upp á Gyðinga. Í Ráðstjórnarríkjunum var sams konar óánægju snúið upp á bændaauðvaldið eða kúlakkana. Afleiðingin varð sú að tilteknir þjóðfélagshópar urðu réttdræpir ekki á grundvelli gjörða sinna heldur á grundvelli tilveru sinnar.
Íslenskir sósíalstar eru margir hverjir vel lesnir í sósíalískum fræðum og þeir hafa fundið sér næsta lítt skilgreindan óvin sem er auðmaðurinn. Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, sagði í ræðu á Alþingi 22. febrúar sl. að tilteknir fjörutíu, fimmtíu auðmenn væru glæpamenn sem þyrfti að koma á válista í bönkum, þá mætti ekki skipta við. Orðrétt sagði þingmaðurinn að auki: Flestir á Litla Hrauni eru bara kórstrákar miðað við þessa menn. Að sama tilefni nefndi hann að þessir menn höguðu sér eins og hræætur. Hinn 24. nóvember sl. flutti Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, frumvarp til laga um að kyrrsetja eignir svokallaðra auðmanna, en Vinstri grænur munu hafa lagt ríka áherslu á þetta atriði í stjórnarmyndunarviðræðum við Samfylkinguna. Steingrímur J. Sigfússon núverandi fjármálaráðherra minnihlutastjórnarinnar, sagði í ræðu á Alþingi hinn 15. október 2008 að svokallaðir auðmenn gætu sleppt því að láta sjá sig á götum úti ef þeir gengju ekki að skilyrðum formanns Vinstri grænna. Ögmundur Jónasson, núverandi heilbrigðisráðherra minnihlutastjórnarinnar, lagði til á þingi Alþýðusambandsins 23. október 2008 að eignir svokallaðra auðmanna yrðu gerðar upptækar. Sagði Ögmundur orðrétt að auðmennirnir ættu að skila ránsfeng sínum til baka. Fjöldi stjórnmálamanna, fjölmiðlamanna og alls kyns álitsgjafa, sem studdur er af hulduher nafnleysingja alnetsins, skirrist ekki við að fella þann dóm að svokallaðir auðmenn séu allir undir sömu sök seldir. Þennan hóp manna megi nánast útskúfa úr samfélaginu.
Í þessu samhengi verður manni óhjákvæmilega hugsað til þýskra þjóðernissósíalista. Þeir beittu viðlíka tungutaki um Gyðinga, sem stig af stigi voru útskúfaðir úr samfélaginu uns allsherjar útrýming þeirra hófst. Teikn eru á lofti um að lýðræði og mannréttindum sé búin bráð hætta hér á landi. Vinstri grænum barst liðsauki á dögunum þegar hingað til lands var ráðinn norskur saksóknari, sem er í framboði til Evrópuþingsins fyrir franskan systurflokk Vinstri grænna. Þessi norski saksóknari hefur fullyrt að íslenskir fjárglæframenn hafi misnotað aðstöðu sína og skotið undan fé eins og það var orðað í frétt mbl.is hinn 10. mars sl. Saksóknari sem ekki hafði hafið rannsókn fullyrti með öðrum orðum að afbrot hefðu verið framin. Ef viðhorf af þessu tagi verða almenn verður brátt lítil þörf á réttarkerfi. Nægilegt verður að nefna menn og meintar sakir þeirra á almannafæri til þess að senda þá til fangavistar.
Það er merkilegt rannsóknarefni fyrir fræðimenn hvers vegna stór hluti íslenskra menntamanna kaus áratugum saman að segja skilið við mannréttindi, hefðbundinn siðaboðskap evrópskrar heimspeki og kristindómsins og taka upp málstað alræðisins. Það þurfti enga leyniræði Khrusjevs til að almenningur á Vesturlöndum fengi vitneskju um glæpi sem framdir voru í skjóli kommúnismans og voru persónugerðir í Jósef Stalín. Ráðstjórnarríkin voru ekki sæluríku fremur en systurríki þeirra, Þýskaland Hitlers. Í Ráðstjórnarríkjunum, jafnt sem í öðrum kommúnistaríkjum, var fólkið réttindalausir þrælar, eign ríkisins og valdhafarnir óbundir af öllum siðareglum. Hér á landi er lögregluríki í uppsiglingu.
Einstaklingsfrelsi og almenn mannréttindi eiga undir högga að sækja. Komandi kosningar munu hverfast um grundvallaratriði: Verður einstaklingunum áfram búið frelsi til orðs og athafna eða verða heljartök ríkisins á öllu þjóðlífi hert til muna?
Björn Jón Bragason (grein þessi birtist áður á AMX)
![]() |
Dvergar til áminningar um hættur einræðisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.10.2009 | 18:53
Hærri skattar með ESB
Það má færa mörg rök fyrir því að standa utan ESB og nú hafa enn ein komið upp á yfirborðið. Lissabon-sáttmálinn var samþykktur af Írum eftir tvennar kosningar enda er sambandið mjög lýðræðislegt og hættir ekki fyrr en rétt svar kemur út úr kosningum en þá er hætt að kjósa. Það er því nokkuð ljóst að sáttmálinn fer í gegn. Í lissabonsáttmálanum er ákvæði um Evrópuskatt eða í 311. gr. sáttmálans. Þar er skýrt tekið fram að ESB eigi að fjármagna sig sjálft og geti tekið af og sett á sérstakan Evrópuskatt. Íslendingar sem greiða ríflega 65 prósent af tekjum sínum í skatt meiga búast við að ESB taki nokkur prósent af þeim til viðbótar.
ESB aðild mun því tefja og draga enn frekar úr bata í efnahagskerfinu. Minni ráðstöfunartekjur heimila dregur úr neyslu og sparnaði og um leið hagvexti.
![]() |
Fjölgun lífeyrisþega stærri vandi en kreppan í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.10.2009 | 15:51
Fjárplógsstarfsemi ríkisins
Það skelfilega við þá staðreynd, að 36% hækkun á áfengi hafi leitt til 14% samdráttar á magni, er það að sölutekjur ríkisins aukast um tæp 17%.
Ef sú er raunin að selt magn minnki um 14% við 36% verðhækkun þýðir það að hefði ríkið á þeim tímapunkti sem það ákvað þessa hækkun allt eins getað haft hækkunina 78,57%.
Við þvílíka verðhækkun hefðu sölutekjur ríkisins aukist um 24,0% og selt magn hefði dregist saman um 30,6%.
Hefði verðhækkun ríkisins á áfengi hins vegar verið meiri en 78,57% hefði tekjuaukning þess aftur lækkað. Við 157% hækkun hefði tekjuaukningin milli ára verið á sléttu núlli.
Sú staðreynd að ríkið geti enn hækkað áfengisgjaldið eins og staðan er nú og jafnframt aukið tekjur sínar er hryllilegt. Ríkið getur sem sagt seilst enn lengra ofan í vasa almennings.
Útgangspunkturinn hér er að þeir sem telja sig þurfa að kaupa áfengi og hafa til þess peninga tapa upphæð sem svarar hverri verðhækkun ríkisvaldsins sem þeir hefðu annars geta eytt í annan iðnað eða þjónustu.
Skattahækkun sem þessi sogar því allt líf smám saman úr atvinnulífi og gangverki efnahagslífsins hér á landi og takmarkar möguleika þjóðarinnar á að rétta úr kútnum.
![]() |
Sala á áfengi minnkar um 14% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |