Í anda Frjálshyggju eða sósíalisma?

Þessi ríflega 30 prósent hækkun (upp um 11 prósent) er ekki í anda frjálshyggju um minni ríkisútgjöld og minni afskipti valdstjórnarinnar af einstaklingum. Þrátt fyrir augljós og skýr dæmi þess að frjálshyggja hafi ekki á nokkurn hátt komið að efnahagshruninu heldur ábyrgðaleysi í boði ríkisábyrgða á bönkum, húsnæðislánum, peningum og vöxtum og ekki síst sífellt stækkandi ríkisvaldi, reyna stjórnmálamenn hvað þeir geta að kenna frjálshyggjunni um allt sem miður fer. Þessi frétt er enn eitt dæmið um þátt sósíalismans í hruninu.

Það er mikilvægt að fólk opni augun og átti sig á því að endurreisn Íslands má ekki vera byggð á sömu sósíalvillunni og varð okkur að falli.


mbl.is 11% aukning á opinberum útgjöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um frelsi einstaklingsins

Flugárás þessi er þvert á grundvallargildi manna sem telja sig standa vörð um einstaklingsfrelsið.

Hugmyndin um frelsi einstaklingsins er ekki afdráttarlaus heldur er hún takmörkunum háð; hver einstaklingur er frjáls gjörða sinna svo fremi sem þær skaði ekki annan einstakling hvort sem er á líkamlegan, fjárhagslegan eða andlegan hátt.

Flugmaðurinn og áhangendur hans geta vart talist til manna sem standa vörð um einstaklingsfrelsið. Þótt aðgerða sé þörf gagnvart skattayfirvöldum keyrir árásin um þverbak og hljóta frjálshyggjumenn um heim allan að fordæma gjörninginn.

En íslenskir fjölmiðlar eru samir við sig. Þeir nota hvert tækifæri til að koma höggi á baráttuna fyrir frelsi einstaklingsins og ljóst að þessi frétt er vatn á myllu þeirra. Umfjöllun þeirra einkennist af vanþekkingu og hatri enda hefði upplýstur blaðamaður aldrei bendlað fylgismenn hryðjuverkamanns við baráttuna fyrir frelsi einstaklingsins.


mbl.is Hrósa sjálfsmorðsflugmanninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hnýsni um einkahagi

Í umræðum um myndina sem birtist með fréttinni birtist margar af lægri hvötum manna, hvötum sem Íslendingar virðast vera illa haldnir af, nefnilega öfund og hnýsni um einkahagi annarra.

Í opinberri umræðu er jafnvel farið að tala um að rétt sé að afnema bankaleynd, en það hefur hingað til verið talið til mannréttinda að menn fái að eiga eignir sínar í friði fyrir hnýsni meðborgara. Hér er ekki á nokkurn hátt verið að mæla lögbrotum bót og vitaskuld má bankaleynd ekki tálma rannsóknir mála - liggi fyrir rökstuddur grunur um lögbrot. Á tímum líkum þeim sem við lifum nú á, gildir miklu að halda í heiðri grunnstoðir réttarríkisins og almenn mannréttindi, en hvort tveggja á undir högg að sækja.

Ýmsir háværir sjálfskipaðir sérfræðingar, þar á meðal virðulegir prófessorar við Háskóla Íslands, hafa að undanförnu heimtað að allra hörðustu úrræðum lögreglu sé beitt gegn þeim mönnum sem voru í fararbroddi íslensks athafnalífs á umliðnum árum. Það er út af fyrir sig afar hryggilegt að til sé slík mannvonska að óska mönnum þess að verða hnepptir í gæsluvarðhald og þurfa að sæta auðmýkjandi úrræðum á borð við leit á heimilum - og það án þess að sannarlegur grunur liggi fyrir um lögbrot. Í því sambandi er rétt að menn spyrji sig: Hvers eiga börn og konur viðkomandi manna að gjalda?

Hér skal ekkert fullyrt um hugsanleg afbrot íslenskra kaupsýslumanna á undanförnum árum. Sá er þetta skrifar er ekki í neinni aðstöðu til að geta fullyrt um slíkt. Til að gera út um slík mál höfum við komið okkur upp ákaflega dýru og umfangsmiklu réttarkerfi með lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum. Á þeim tímum sem við nú lifum skiptir miklu að treysta á þessar grunnstoðir réttarríkisins, en láta ekki upphlaup og æsingar spilla því sem þjóðfélaginu er hvað dýrmætast.


mbl.is Mynd á bloggsíðu vekur umtal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hertari reglur eru til óþurftar

Líkast eru engin - alls engin - fyrirtæki sem hafa þurft að sæta jafnmiklu eftirliti á umliðnum árum og bankar á Vesturlöndum. Hér er jafnt átt við lögboðið opinbert eftirlit, jafnt sem lögboðið innra eftirlit. Á umliðnum misserum hefur því statt og stöðugt verið haldið fram í opinberri umræðu að reglur þurfi að herða og menn gera því jafnvel skóna að "skortur á regluverki" hafi beinlínis leitt til falls íslenska bankakerfisins og sömu rökum er haldið fram erlendis.

Í ljósi þessa er undarlegt til þess að vita að þeir sjóðir sem ekki nutu neins opinbers eftirlits hefur best reitt af í því óveðri sem geisað hefur á fjármálamörkuðum heimsins að undanförnu. Hvernig rímar það við sönginn í hinum háværa kór sem heimtar auknar reglur, reglur og eftirlit, eftirlit?

Væri ekki verðug rannsóknarspurning fyrir þá sem kanna fjármálamarkaði hvort hinar hörðu reglur hafi ekki einmitt átt sinn þátt í falli margra af stærstu fjármálafyrirtækja heimsins? Að minnsta kosti er ljóst að harðara eftirlit með fyrirtækjum er ekki til þess fallið að auka verðmætasköpun og frumkvæði heldur þvert á móti.

En líkast til verður reyndin sú að löggjöf um starfsemi fyrirtækja verður hert á næstu misserum og árum. Ein af afleiðingum þessa verða lakari lífskjör, því hagsæld eykst í réttu hlutfalli við frelsi á fjármagnsmörkuðum.


mbl.is Herða eftirlit með hæfi stjórnarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignaupptaka ríkisins

Sumir halda því fram að á umliðnum áratugum hafi frjálshyggjumenn ráðið ríkjum hér á landi. Á þessari síðu hafa verið færð margvísleg rök fyrir hinu gagnstæða. Þar á meðal eru lögin um þjóðlendur, sem fela í sér stærstu eignaupptöku Íslandssögunnar, en ríkisvaldið hefur hægt og bítandi verið að eigna sér óbyggðir landsins. Þetta hefur allt gerst í tíð ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks - stefna sem er sósíalísk í eðli sínu.

Nær væri að stefna að einkaeign á öllu landi. Það myndi tryggja hagkvæmari nýtingu en nú er reyndin. Í mörgum tilfellum er um að ræða verðmæt vatnsréttindi, en auknar virkjanaframkvæmdir er grundvöllur áframhaldandi framþróunar atvinnulífs. Vísast má telja að einkaeign á óbyggðum svæðum landsins myndi leiða til meiri verðmætasköpunar í þjóðfélaginu - öllum landsmönnum til hagsbóta.


mbl.is Þjóðlendulögum verði breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrípaleikur

Hvernig getur hópur fólks talið sig vera þess umkomið að stöðva framgang laga og réttvísi í landinu? Það er eðlilegur gangur viðskiptalífsins að þeir sem ekki geta greitt af skuldum sínum fari í þrot. Slíkar aðgerðir eru oft þjáningafullar, en engu að síður nauðsynlegar.

Sá er þetta ritar taldi að menn hefðu lært lexíu síðastliðinn vetur þegar tveir lögreglumenn hlutu varanleg örkuml eftir skrílslæti svokallaðra mótmælenda, en ruglið í samfélaginu virðist eiga sér fá takmörk.


mbl.is Trufluðu nauðungaruppboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hernaðarbrölt hálfvita

Heimskulegri hugmynd gat varla komið frá þessari konu og ekki gott innlegg í hugsanlegt forsetaframboð hennar 2012.  Hernaður á ekki að eiga sér stað nema í sjálfsvörn og er alls engin lausn í deilunni við Íran. Réttast væri að Bandaríkin, þetta stóra og öfluga hagkerfi, beitti sér fyrir auknum viðskiptum við Íran með niðurfellingu tolla og tvíhliða fríverslunarsamning. Verslun er besta leiðin til að opna lönd fyrir nýjum hugmyndum og tengja ólíka menningarheima. Með auknum viðskiptum skapast fleiri sameiginlegir hagsmunir sem fæla enn frekar ríkistjórnir landanna frá því að fara í hár saman.

Boðskapur frelsis er friðarboðskapur ekki hernaðarbrölt. Repúblikanaflokkurinn væri betur staddur með friðardúfuna Ron Paul í forustu en stríðsfugla Bush.


mbl.is Palin vill stríð við Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímulaus ríkisvæðing

Þær fregnir sem hér að neðan greinir eru meira en lítið uggvænlegar: Það er orðið opinbert markmið núverandi stjórnvalda að leysa til sín fyrirtæki á markaði. Þetta skýrir þá væntanlega þá stefnu sem rekin er gagnvart fyrirtækjunum í landinu með stóraukinni skattheimtu - stjórnvöld hafa auðsjáanlega sett sér það markmið að treysta enn frekar tökin á atvinnulífinu til frambúðar. Ríkisstjórnin er að færa þjóðina í átt að sósíalísku þjóðskipulagi með ógnarhraða.


mbl.is Ríkið vill eignast Byr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefum verslun með áfengi frjálsa

Almenningur lætur ekki bjóða sér okrið í áfengiseinokunarverslun ríkisins og grípur til eigin ráða. Þannig hefur það verið og þannig mun það verða meðan ríkið stundar fjárplógsstarfssemi á hendur þeim sem kjósa að neyta áfengra drykkja.

Það er orðið löngu tímabært að lækka álögur á áfengi og gefa verslun á ÖLLU áfengi frjálsa, samhliða því sem áfengiseinokunarverslun ríkisins verði lögð niður. Að auki er rétt að áfengiskaupaaldur verði lækkaður í 16 ár eða 18 ár, enda vart nokkur skynsamleg rök sem hníga að því að fullorðið fjárráða fólk megi ekki kaupa áfenga drykki.

Lausnarorð Íslendinga í þessum sem öðrum er frelsi.


mbl.is Staðinn að verki við landasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavæðum RÚV

Hvernig væri að losa skattgreiðendur undan því í eitt skipti fyrir öll að standa straum af rekstri ríkisútvarpsins? Stofnunin hefur verið hörmulega illa rekinn undanfarna áratugi og marsinnis farið langt fram úr fjárheimildum.

Stuðningsmenn sérstaks ríkisútvarps nefna einkanlega þrjár ástæður fyrir því að halda úti jafnsteinrunninni stofnun. Fyrsta ástæðan er sú að útvarpið hafi menningarlegu hlutverki að gegna. Einkaaðilar geta sinnt menningarviðburðum jafnvel og einkaaðilar, ekki þarf sérstakan fjölmiðil til að básúna menningarefni, en einnig er til þess að líta að útvarpið sinnir ekki þessu "menningarhlutverki" að nokkru marki, heldur er einkanlega í beinni samkeppni við einkareknar stöðvar. Í öðru lagi er talað um "öryggishlutverk". Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra getur hæglega falið einkareknum ljósvakamiðlum slíkt hlutverk, en þeim er jafnvel treystandi til að rækja slíkar skyldur og ríkisstofnun. Í þriðja lagi halda fylgjendur ríkisútvarpsins því fram að stofnunin sé eini hlutlausi og óháði fjölmiðillinn. Þau rök eru hin allra hlægilegustu, enda ekki til hlutdrægari fréttamiðill en ríkisútvarpið og auðvelt að tilfæra þúsundir dæma um slíkt á liðnum árum.

 Eftir stendur að réttast væri að losa ríkið við þessa byrði, sem í ofanálag skekkir samkeppnisstöðu á markaði. Vilji menn ekki ganga svo langt er alla vega brýnt að skera enn frekar niður í rekstri stofnunarinnar, því hún getur ekki með nokkru móti réttlætt svo mikinn rekstrarkostnað.


mbl.is Segja alþingismenn bera ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband