Misskilningur hjá Eiði

Þessi frétt lýsir vanþekkingu Eiðs Guðnasonar. Allir vita að fjárkröfur á hendur íslenska ríkinu má sækja fyrir íslenskum dómstólum.

Dómstóllinn sem Eiður telur ekki vera til heitir einfaldlega héraðsdómur Reykjavíkur. Sætti menn sig ekki við úrlausn hans má áfrýja henni til Hæstaréttar.

Ef þjóðirnar sem deila geta sæst á gerðardóm þá er þeim einnig frjálst að vísa málinu til hans. Til er stofnun sem nefnist Alþjóðlegi Gerðardómurinn sem sérhæfir sig í því að dæma í milliríkjadeilum, þá reyna lönd yfirleitt að tilnefna t.d. einn mann hvort í dóminn og sá þriðji er tilnefndur af hlutlausum aðila, hvort sem hann er alþjóðastofnun eða ríki.

Í sjálfu sér er ekki sérstaklega flókið að koma Icesave-deilunni fyrir dómstóla, þó að Eiður Guðnason telji ýmsa dómstóla sem staðið hafa árum saman og dæmt í fjölda mála ekki vera til. 

Það er sorglegt að horfa á upp á hvernig spilast hefur úr þessu Icesave-máli, sem sprettur upp vegna ríkisábyrgðar á einkarekstri. Fyrstu viðbrögð vinstri stjórnmálaflokka landsins voru að hafna leið réttarríkisins, þ.e. dómstólaleiðinni, og reyna að leysa málið "á pólitískum forsendum". 

Pólitíkusarnir hafa hins vegar ekki sýnt nennu eða getu til að leysa málið, heldur sendu þeir flokksbróður sinn út ásamt "samninganefnd" til að "semja" um málið. Hvers vegna fóru ekki helstu ráðamenn Íslands út og ræddu við pólitíska forystumenn í þeim löndum sem við deilum við í þessu máli? Hefði það ekki verið það sem kalla mætti að leysa málið "á pólitískum forsendum"? 

Í máli af þessari stærðargráðu verða þeir sem einhverja vigt hafa í pólitíkinni einfaldlega að beita sér, vilji þeir ekki fara dómstólaleiðina. 

Stærstu mistökin voru þó auðvitað þau að éta upp tilskipun um ríkisábyrgð á einkarekstri frá Evrópusambandinu. Lexían sem fólk á að læra af þessu er að frelsi verður að fylgja ábyrgð, það gengur ekki að menn geti nýtt sér það frelsi sem stendur til boða og varpað ábyrgðinni svo yfir á skattgreiðendur ef illa fer.


mbl.is Eiður: Dómstóllinn ekki til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elfur Logadóttir

Eigum við að taka umræðuna um mun á landsrétti og þjóðarrétti? Verður fjárkrafa þjóðar á hendur íslenska ríkinu að þjóðarrétti flutt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur?

Elfur Logadóttir, 23.6.2009 kl. 13:21

2 Smámynd: Frjálshyggjufélagið

Er ekki krafan reist á grundvelli EB-tilskipunar?

Í þessu eru tveir möguleikar. Annars vegar að reisa kröfuna á grundvelli laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar. 

Hinn möguleikinn er, telji menn Ísland ekki hafa innleitt tilskipanir um tryggingavernd innstæðna með fullnægjandi hætti, að höfða bótamál á hendur íslenska ríkinu á þeim grundvelli að það hafi brotið gegn samningsskuldbindingum sínum skv. EES-samningnum. Möguleiki á slíkri bótaskyldu er almennt viðurkenndur.

Þannig að til að svara spurningu þinni þá:

 - er þjóðaréttur ekki lögfræði heldur fimbulfamb sem virkar ekki þegar á reynir

 - má flytja mál sem varðar fjárkröfu samkvæmt íslenskum lögum eða samningsskuldbindingu íslenska ríkisins fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. 

Frjálshyggjufélagið, 23.6.2009 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband