4.10.2012 | 10:03
Óttinn við eigin skoðanir
Með réttu eða röngu óttast margir að viðra eigin skoðanir og halda þeim gjarnan út af fyrir sig af ótta við aðkast og úthrópanir. Þetta á skiljanlega við um kommúnista sem vilja umfram allt blóðuga byltingu. Þetta á við um þá sem fyrirlíta fólk vegna húðlitar þess. Þetta á við um þá sem vilja umfram allt að kvenfólk sé heimavinnandi, berfætt og ólétt, og eyði öllum deginum í að þrífa og elda. Þessar skoðanir eru ekki vinsælar. Þeir sem hafa þessar skoðanir láta ekki mikið fyrir þeim fara.
Síðan eru þeir til sem hafa skoðanir sem ætti með réttu að úthrópa og veita aðkast, en er ekki gert. Þeir sem hafa þær skoðanir flagga þeim því við hvert tækifæri, og fá jafnvel mikið lof og hrós þegar þeir gera það. Skoðanir þess eru samt þess eðlis að ef þeim yrði komið í framkvæmd yrðu allir verr settir til lengri tíma litið, og þeir einir tapa sem hafa sérhagsmuna á kostnað annarra að gæta. Sem dæmi um vinsælar skoðanir sem skaða alla til lengri tíma litið mætti nefna: Óskin um lögskipaða kynjakvóta í stjórnir einkafyrirtækja, ósk eftir niðurgreiðslum til ýmissa hópa sem ættu annað hvort að framfleyta sér sjálfir eða finna sér eitthvað annað að gera, söngurinn um nauðsyn ríkiseinokunar á peningaútgáfu, og þráin eftir opinberum afskiptum af tegund bíla sem fólk kaupir sér.
Loks er það þriðji hópurinn, sem hefur skoðanir sem yrðu vissulega öllum til hagsbóta til lengri tíma litið ef þeim yrði komið í framkvæmd, en eru óvinsælar hjá t.d. blaðamönnum og vinstrisinnuðum háskólaprófessorum með greiðan aðgang að fjölmiðlum. Þessi hópur boðar leiðir sem eru hagkvæmar fyrir alla þegar til lengri tíma er litið, en óþægilegar og vissulega óhagkvæmar fyrir suma þegar til skemmri tíma er litið. Sem dæmi má taka óskina um einkavæðingu allra ríkisfyrirtækja, en með því myndi fjöldi "öruggra" starfa minnka og þau gerð háð duttlungum viðskiptavina, eða hreinlega gufa upp því engin þörf væri á þeim lengur. Annað dæmi er óskin um stórkostlega lækkun skatta og fækkun reglugerða á allt og alla, og stórkostlegan samdrátt á umsvifum ríkisvaldsins. Minna fer fyrir þessum óskum en mörgum öðrum. Fjöldi hagsmunahópa telur hag sínum betur borgið innan ramma ríkisvaldsins en utan og snýst óvæginn til varnar þegar lífsviðurværi þeirra og sníkjulífi á skattgreiðendum er ógnað.
Hinn þriðji hópur er óþarflega feiminn og hræddur. Hann óttast aðkast og uppnefni. Hann er hræddur við að hafa of hátt. Hann óttast blaðamennina vinstrisinnuðu og málpípur sérhagsmunahópanna. Meðlimir hópsins eru vissulega vissir í sinni sök, og hafa kynnt sér bæði réttlætis- og hagkvæmnisrökin fyrir afnámi ríkiseinokunar og þvingunar, en hefur ekki hátt um það. Það er eins og hann óttist eigin skoðanir.
Slíkt er samt óþarfi með öllu. Sú miður góða en um leið heppilega aðstaða er komin upp fyrir þá sem hafa óvinsælar en rökréttar skoðanir að hér hefur "hreinræktuð" vinstristjórn verið við völd í nálægt því 4 ár. Sviðin jörð teygir anga sína svo langt sem augað nær. Landflótti, frost í fjárfestingu og gjaldmiðlamál í ólestri eru stór vandamál sem blasa við öllum nema innvígðustu háskólaprófessorum. Mjúk leið til að benda á aðra valkosti gæti því falist í því að benda einfaldlega á að það er ekki hægt að gera verr en gert hefur verið seinustu 4 ár. Meira að segja ráðherrar sitjandi ríkisstjórnar telja þörf á að gorta sig af verkum þeirra ríkisstjórnar sem var við völd á dögum hrunsins haustið 2008, og þá er mikið sagt, því sú ríkisstjórn var heldur ekki góð.
Frjálshyggjumenn, íhaldsmenn með áherslur á hallalausan ríkisrekstur, hægrimenn með almennan en kannski ekkert brennandi áhuga á minnkandi ríkisvaldi og fleiri ættu að geta sameinast um að boða óvinsælar en rökréttar skoðanir. Það er ekkert að óttast nema umræðuna, og hana ætti að vera auðvelt að sigra með rökfestu og yfirvegun, og þá sérstaklega í núverandi árferði.
Geir Ágústsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.