31.7.2009 | 11:53
Í vinstri villu
Rétt er að huga að því hvernig umræddur viðsnúningur er til kominn. Hann er sprottinn af sósíalískum inngripum stjórnmálamanna í fjármálakerfi landsins. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks þjóðnýttu Glitni, þrátt fyrir ítrekar viðvaranir. Sú þjóðnýting hratt af stað atburðarás sem ekki sér fyrir endann á. Allt fjármálakerfið hrundi.
Vissulega stóð fjármálakerfið völtum fótum, þar sem það var of stórt sem hlutfall af landsframleiðslu (raunar nærri tólfföld landsframleiðsla). En það var vandi sem stjórnmálamenn og embættismenn höfðu búið til. Í alþjóðlegum samanburði stóðu íslenskir bankar ekki verr en bankar í nágrannalöndunum, en í þeim löndum voru traustari og stærri gjaldmiðlar og seðlabankar sem gátu verið lánveitendur til þrautavara.
Hinn stóri lærdómur af efnahagskreppunni er sá að afskipti hins opinbera af starfsemi fjármálafyrirtækja beri dauðann í sér. Hið blandaða hagkerfi beið algjört skipbrot. En þetta var því miður ekki sá lærdómur sem stjórnmálamenn drógu af hruni fjármálakerfisins. Núverandi valdhafar vilja fjötra þjóðina í hlekki hæstu skatta í heimi og telja fólki trú um að í því felist réttlæti. Lausnarorðið hlýtur að vera frelsi. Ríkisvaldið mun ekki skapa ný atvinnutækifæri. Hins vegar ætti verkefni stjórnmálamanna að vera það umfram allt að lækka skatta einstaklinga og fyrirtækja og draga úr útgjöldum hins opinbera um nokkra tugi prósenta. Í ljósi þess hve ógnarhratt ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað á umliðnum árum má draga þá ályktun að stór hluti þeirra séu afætur á kerfinu.
Gleymum því ekki að það verða engin verðmæti til í opinberum rekstri.
Algjört hrun í afkomu ríkissjóðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Miðað við þessi skrif er ég himinlifandi yfir vinstri villunni. Ekki vildi ég búa við það samfélag sem skrifari dagsins býður upp á. Nei, takk, ómögulega.
Hrönn (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 11:58
ha ha ha...Get ekki annað en tekið undir með þér Hrönn..
hilmar jónsson, 31.7.2009 kl. 12:02
Mér sýnist þýlyndi þeirra Hrannar og Hilmars algert. Ætli fólk vilji upp til hópa vera þrælar misviturra stjórnmálamanna? Varla ...
frjálshyggjumaður (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 12:54
Það er einfaldlega ekki rétt að engin verðmæti verði til í opinberum rekstri. Menntun er t.d. einhver besta fjárfesting sem til er. Orkufyrirtækin búa til mikil verðmæti. Löggæslan sparar mikla fjármuni fyrir fólkið í landinu ef vel er að henni staðið. Það var ekki staðið nógu vel að henni fyrir hrun - ef það hefði verið gert væri skaðinn nú mun minni.
Það er hins vegar alveg rétt að þjóðnýting bankanna, alþjóðasamningar um innistæðutryggingar - icesave, og björgun ríkisins á stórum hluta peningamarkaðssjóðanna eru allt dæmi um afar kostnaðarsöm inngrip hins opinbera.
Brynjar (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 16:45
Það má taka undir með pistlahöfundinum, fólk virðist upp til hópa vera svo miklir marxistar að trúa því að ríkið geti búið til verðmæti. Sumt af opinberum rekstri eru verkefni sem nauðsynlegt er að sinna, svo sem störf lögreglumanna, slökkviliðs og að einhverju leyti heilsugæsla. Þessir einstaklingar skapa hins vegar engin verðmæti. Þau verða til úti í atvinnulífinu. Nú er það svo að mjög stór hluti opinberra starfa er óþarfur. Rétt væri að segja viðkomandi starfsmönnum upp. Þá segja sumir að það sé ekki hægt því þá þurfi að greiða viðkomandi atvinnuleysisbætur. Með sömu rökum er hægt að segja að ríkið ætti bara hreinlega að sjá um allan opinberan rekstur og skammta öllum laun.
Samfélagið mun til lengri tíma litið græða mun meira á því að segja upp sem flestum opinberum starfsmönnum. Þeir fara þá út á vinnumarkaðinn og fara að skapa verðmæti. Þeim mun minni sem umsvif hins opinbera eru, þeim mun betri verða lífskjörin.
Freyr (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 23:31
Jahérna, það vantar ekki röksemdafærsluna hjá Steingrími, enda hlýtur allt að vera "bull" sem honum er ekki þóknanlegt. Þeim sem geta ekki flutt mál sitt með frekari röksemdafærslu væri hollara að tjá sig minna.
Freyr (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 18:42
Steigrímur þig skortir öll rök en Brynjar kemur að áhugaverðum punkti.
Það er rétt hjá þér Brynjar að Orkufyrirtæki skapi verðmæti og í dag eru þau flest í eigu opinbera aðila. Þá held ég að frjálshyggjumenn telji upp til hópa að eitt af verkefnum ríkisins sé að halda uppi löggæslu.
Almennt séð þá skapa störf hjá hinu opinbera minni verðmæti en í einkageiranum. Það er einfaldlega vegna þess að starfsemi sem lýtur markaðslögmálum er sífellt að keppast við að finna nýjar leiðir til að auka arðsemi sína, einfaldlega til að haldast í rekstri. Óarðbær starfsmaður má búast við því að vera fluttur um í starfi eða látinn taka pokann sinn. Opinberir aðilar þurfa sjaldan að hafa áhyggjur af slíku.
Ríkisfyrirtæki sem lúta markaðslögmálum og keppa á frjálsum markaði geta vel verið að skila af sér miklum verðmætum eins og orkufyrirtæki en þá erum við komin að spurningunni hvort ríkið eigi að standa í samkeppnisrekstri við einkaaðila og hvort slík samkeppni sé á jafnréttisgrundvelli. Þá má líka spyrja sig hvort starfsmenn t.d. OR séu ríkisstarfsmenn.
Einhver nefndi hér menntun og það er rétt menntun er góð fjárfesting en einungis fyrir þann einstakling sem fær hana.
Landið (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 02:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.