Vinstristjórn í villu

Í kreppum koma ávalt fram eftir á spekingar og yfirlýsingaglaðir stjórnmálamenn með nýyrði á hverju strái. Velferðabrú, kynjuð hagstjórn, skjaldborg um heimilin og manaflsfrekar framkvæmdir eru nýyrði sem hljóma í ljósvakamiðlunum frá morgni til kvölds. Stjórnmálamenn og stjórnmálaskýrendur dusta rykið af Keynes og ætla sér að leysa kreppuna með því að „búa til“ störf eða halda í störf þar sem þeirra er ekki þörf. Langtímamarkið víkja fyrir skammtíma lausnum skammsýna og örvæntingafullra stjórnmálamanna sem telja sig þurfa að gera eitthvað. Hvað þá skiptir ekki höfuð máli, krafan er að gera eitthvað.

Það sem ríkið gerir eða gerir ekki getur skipt höfuðmáli hversu snemma eða seint við förum út úr kreppunni og á hvaða grunni við ætlum að byggja hagkerfið upp aftur. Sú aðferðafræði sem einkennt hefur núverandi stjórnvöld byggir á miklum höftum, ríkisvæðingu og miðstýringu. Slík aðferðafræði leiðir aðeins af sér fákeppni, dregur úr verðmætasköpun og hamlar allri nýsköpun og framförum. Þráhyggjan að gera bara eitthvað hefur því leitt okkur að hugmyndafræði sem fyrir löngu var komin á haugana. Það ætti því betur við að vinstristjórnin fundaði á ruslahaugunum en í þjóðminjasafninu.

Það er söguleg staðreynd að þeim mun frjálsari sem hagkerfi eru þeim mun betur vegnar þeim og þeim mun meiri höft sem eru þeim mun verr vegnar. Gott dæmi er um það er kreppa sósíalismans en hún stóð í rúm 70 ár í Sovétríkjunum og stendur enn yfir á Kúbu og Norður Kóreu. Á meðan hafa frjáls hagkerfi vaxið og dafnað leitt af sér nýjungar og framfarir á öllum sviðum. Þá vara kreppur á frjálsum markaði í stutta stund og verða gjarnan vegna leiðréttingar markaðarins á röngum ákvörðunum annað hvort stjórnmálamanna eða fyrirtækja og einstaklinga.

Vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri grænna ætlar að leiða okkur inn í kreppu sósíalismans í von um að lina tímabundnar afleiðingar eðlilegrar leiðréttingar markaðarins á afskiptum stjórnmálamanna af vaxtastefnu, lánastofnunum, tröllauknu regluverki og slettirekustefnu í garð fasteingaeiganda. Ágætur hægrimaður sagði eitt sinn: „Vitur maður lærir af mistökum sínum og forðast að gera sömu mistökin aftur en heimskur maður slær höfðinu í steininn og er dæmdur til að endur taka sín, aftur og aftur.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband