Komið að ferðaþjónustunni (grein)

Ríkisstjórn Íslands er mönnuð einstaklingum sem vilja mikla útþenslu ríkisvaldsins. Leiðirnar að aukinni útþenslu ríkisvaldsins eru nokkrar, en á Íslandi eru tvær algengastar. Sú fyrri er sú að tala fyrir nauðsyn minnkandi ríkisvalds eða aukins einkaframtaks, lækka skatta örlítið en nóg til að fita skattstofna, og eyða síðan hverri einustu krónu af auknum skatttekjum í útþenslu ríkisins (leið Sjálfstæðisflokksins). Sú síðari er að auka útgjöld ríkisins langt umfram skattheimtu, safna skuldum, og beita fyrir sig hallarekstri ríkissjóðs til að réttlæta skattahækkanir, sem aftur munu ekki duga fyrir enn auknum ríkisútgjöldum (leið vinstriflokkanna).

Því miður fer lítið fyrir því að ríkisvaldið á Íslandi sé minnkað, en það er önnur saga. Breið pólitísk samstaða er um þann ásetning að stækka ríkisvaldið, og þar með fyrir hækkun skatta. Spurning er bara: Hækkun skatta á hvern?

Ferðaþjónustan varð svo óheppin að lenda í smásjá ríkisvaldsins að þessu sinni. Áður höfðu eldri borgarar og aðrir sem áttu sparnað og eignir lent undir öxi skattheimtumannsins, og þurfa nú að selja úr búi sínu til að eiga fyrir skattinum. Einnig höfðu fyrirtækjaeigendur þurft að taka á sig högg frá skatthamrinum. Þá höfðu almennir launþegar þurft að fá blóðsjúgandi sprautu yfirvaldsins í handlegg sinn.  En núna er sem sagt komið að ferðaþjónustunni.

Ferðaþjónustan bregst skiljanlega illa við með því að kvarta og kveina, halda ráðstefnur og fá útlenska samstarfsaðila til að tjá sig um málið, en hvar var hún þegar skattar voru hækkaðir á laun eða sparnað? Hvar var ferðaþjónustan þegar gjaldeyrishöftum var skellt á þá sem eiga eða hafa tekjur í krónum? Hún þagði. Hún var fegin að vera utan sviðsljóssins. Núna er hins vegar komið að henni, og núna á hún fáa vini. Ekkert seður botnlausar fjárhirslur ríkisins, og núna þegja allir aðrir og eru því fegnastir að ríkisvaldið hefur fundið sér fórnarlamb í ferðaþjónustunni og lætur því aðra í friði. Í bili.

Þetta er auðvitað veik vörn hjá skattgreiðendum. Samtakamátturinn er enginn. Ríkisvaldið er fegið hinni veiku andspyrnu, sem er bundin við einn og einn hóp í einu - þann sem á að kasta á skattheimtubálið hverju sinni.

Ríkisvaldið ætlar að hækka skatta, og ekkert fær það til að breyta þeim áformum. Þetta vita allir. Núna finnst mörgum vera komið að ferðaþjónustunni. Þar gengur jú svo „vel“. 
 
Geir Ágústsson
 
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 15. október 2012 og er aðgengisleg áskrifendum blaðsins hér.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband