Gjaldeyrishöftin eru pólitísk brella

Samfylkingin vill hafa krónuna í höftum til að láta evruna líta þeim mun betur út. Gjaldeyrishöftin eru pólitísk brella sem er ætlað að kvelja Íslendinga til stuðnings við evruna.

Efnahagsleg rök fyrir höftunum eru ekki til staðar, nema að því leyti að ef menn vilja flótta frá efnahagslegum veruleikanum, þá eru höftin gott tæki til þess. Íslendingar þurftu að aðlaga sig að breyttum kaupmætti krónunnar árið 2001 þegar fastgengisstefnunni var sleppt. Þá tók krónan dýfu, allt innflutt hækkaði í verði, allt útflutt varð að miklu fleiri krónum en áður, og eftir tvö eða þrjú misseri hafði rykið sest.

Íslenska krónan hefði að öllu jöfnu átt að fá að taka út svipaða aðlögun eftir hrunið. En hún fékk það ekki. Það sem í upphafi var af mörgum talin vera efnahagsleg en jafnframt tímabundin nauðsyn varð að varanlegri pólitískri brellu og fullnægingarmeðali fyrir þá sem tilbiðja opinbera haftastefnu og ríkismiðstýringu.

Samfylkingarráðherrar munu halda áfram að tala krónuna niður og evruna upp á meðan fjölmiðlamenn halda áfram að reka hljóðnema upp að þeim, og þeir munu berjast hart fyrir því að haftastefnunni verði haldið áfram, sama hvað tautar og raular. Seðlabanki Íslands hefur að öllum líkindum fengið þau pólitísku fyrirmæli að viðhalda höftunum til a.m.k. ársins 2013 þegar Samfylkingin verður í seinasta lagi kosin út í hafsauga. Öllum árum er róið að því að sópa Íslandi sem lengst í átt að Brussel á meðan.

Þetta sáu margir fyrir, og þetta er að rætast. Höftin eru brella, og hafa markmið sem koma heilsu hins íslenska hagkerfis ekkert við.

Geir Ágústsson

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 12. október 2011 og er aðgengileg áskrifendum að vefútgáfu blaðsins hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband