12.9.2010 | 14:58
Hvenær á að ákæra Jóhönnu Sigurðardóttur?
Úr því að meirihluti þingmannanefndarinnar leggur á annað borð til að þessir fjórir ráðherrar verði sóttir til saka er óeðlilegt annað en Jóhanna Sigurðardóttir og jafnvel Össur Skarphéðinsson fylli líka þann flokk.
Jóhanna sat í ríkisfjármálahópi 2007 stjórnarinnar. Hún hafði nákvæmlega sömu vitneskju og Árni M. Mathiesen, en hvorugt þeirra voru þó ráðherrar bankamála, eins og Björgvin G. Sigurðsson.
Í rauninni er ríkari ástæða til að ákæra Jóhönnu en Árna, þar sem Jóhanna stuðlaði að óráðsíu og stórauknum útgjöldum í sínum málaflokkum rétt í aðdraganda bankahruns og jók þar með á vandann.
Hún bar ábyrgð á Íbúðalánasjóði, en íslensk stjórnvöld höfðu lofað stjórnvöldum á hinum Norðurlöndunum að gera það sem þau gætu til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins. Íbúðalánasjóður mun eiga þar undir, eins og fram kom í Morgunblaðinu sl. föstudag.
Össur var staðgengill Ingibjargar Sólrúnar mikinn hluta þess tíma sem hennar vanrækslusyndir munu hafa átt sér stað. Því er um margt athyglisvert að hann skuli ekki vera í þessum hópi.
Röng niðurstaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sælir.
Áhugaverðir punktar hjá ykkur.
Þessi þingmannanefnd er öll í lýðskruminu. Þeir sem vilja hegna þessum ráðherrum skilja ekki rætur þessarar kreppu. Margir tala um hrunflokka en gleyma því að hrun varð líka annars staðar. Var hrunið erlendis íslensku "hrunflokkunum" að kenna?
Auðvitað eiga ráðherrar að bera ábyrgð á sínu, þannig verður það að vera. Ráðherrar eiga hins vegar ekki að bera ábyrgð á gjörðum stjórnenda einkafyrirtækja. Ráðherrar gátu t.d. ekki stöðva Icesave reikninga Landsbankans vegna reglna EES.
Rannsóknarnefnd alþingis segir að eftir 2006 hafi bankarnir í reynd verið dauðadæmdir. Hvers vegna á þá að refsa ráðherrum vegna einhvers sem þeir gerðu eða gerðu ekki árið 2008?
Um hæfi þessa fólk sem gegndi ráðherraembættum má deila en að gefa sér að það fólk hafi viljað landi og þjóð illt er auðvitað fráleitt. Ég efast ekki um að Sf telur hagsmunum Íslands best fallið innan ESB. Eigum við þá að setja það fólk í fangelsi þegar í ljós kemur, kannski 10 árum eftir að við göngum í ESB, að hagur okkar hefur versnað? Það er gagnslaust að hamast í fyrrum ráðherrum, slíkt kemur ekki í veg fyrir annað hrun vegna þess að rætur hrunsins liggja annars staðar, það skilja þingmennirnir ekki og það gerir þeirra vinnu stórgallaða.
Hvernig væri nú að einhver almennilegur blaðamaður spyrði þingmennina, alla sem einn, hvaðan þeir fjármunir komu sem allt í einu var hægt að lána um alla koppa og grundir? Ég efast um að margir þeirri viti svarið við þeirri spurningu núna og það er auðvitað meira en sorglegt.
Helgi (IP-tala skráð) 12.9.2010 kl. 17:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.