22.7.2010 | 20:10
Manngæska eða velferðarkerfi - þitt er valið
Margir stuðningsmenn "velferðarkerfisins" tala gjarnan um mikla manngæsku sína og þá skoðun sína að eitthvað "öryggisnet" þurfi að vera til staðar fyrir "þá verst settu" í samfélaginu, gjarnan öryrkja, aldraða, langveika, atvinnulausa, námsmenn, alkóhólista, fórnarlömb misnotkunar, þolendur slysa, þá sem velja sér lífsviðurværi sem skilar engum tekjum (t.d. listamenn), og svona má lengi telja.
Aðrir sjá hins vegar litla manngæsku í því að beita ríkinu til að flytja fé úr einum vasa í annan í gegnum skattkerfið. Margir sjá allskyns hættur í því, t.d. þá að ríkisvaldið umbuni vinum sínum í nafni "velferðar", "menningar", "almannahagsmuna", "fjölbreytni" og svona má lengi telja.
Þeir sem gagnrýna tilvist "velferðarkerfis" telja oftar en ekki að sönn manngæska hljóti miklu frekar að felast í frjálsum framlögum til þeirra sem eiga um sárt að binda úr vösum þeirra sem velja að opna þá fyrir útgjöldum annarra. Að þvinguð tilfærsla á fé sé ekki manngæska, heldur pólitísk afskiptasemi sem oftar en ekki tengist pólitískum markmiðum frekar en mannúðarmarkmiðum. Saga velferðarkerfisins segir t.d. ýmislegt sem bendir til þess.
Sitt er hvað, manngæska og velferðarkerfi. Á það þarf e.t.v. að minna oftar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.