Taka þarf af skarið

Nú hafa ráðamenn vælt undan því í nokkra mánuði hve erfitt ástandið er í efnahagslífi Íslands. Án þess að gert sé lítið úr þeim erfiðleikum sem blasa við er ljóst að blaðrið skilar okkur skammt, enginn hefur nokkurn tíman náð árangri með því að ætla að gera eitthvað - menn verða að láta verkin tala.

 

Til þess að koma íslensku efnahagslífi á lappirnar á nýjan leik verður að skera niður í útgjöldum hins opinbera. Það er einungis hægt að ná fram raunhæfum niðurskurði með tvennum hætti: Með því að fækka starfsmönnum hins opinbera eða með því að lækka laun hjá hinu opinbera. 

 

Vinstri Grænum má þó hrósa fyrir það að forystumenn þeirra hafa talað hreint út með það að þeir vilja lækka laun ríkisstarfsmanna. Reyndar er athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum verkalýðsfélaga við því, með tengsl Ögmundar Jónassonar og BSRB í huga, en það er önnur saga. 

 

Vissulega má halda því fram að sú stefna að vilja frekar lækka laun en að minnka umsvifin sé slæm - enda er hún það - en það breytir því ekki að hún er annar þeirra kosta sem í boði eru. Samfylking hefur enn ekkert látið uppi um hvað hún vill gera í ríkisfjármálunum. Raunar virðast forystumenn Samfylkingar komast furðu auðveldlega upp með að segja innantóma frasa og slagorð þegar fréttamenn eru nálægt og sleppa þannig við allar gagnrýnar spurningar frá flokksfélögum sínum á fjölmiðlunum. Það er skylda fjölmiðla að krefja Samfylkingu svara um hvað hún hyggst taka til bragðs í ríkisfjármálum. Í boði eru einungis tveir kostir og landsmenn eiga heimtingu á að vita hvora leiðina Samfylking vill fara. 

 

Hvað sem líður öllum skattahækkunum (sem vinstri stjórnin virðist telja að eigi helst að leggjast sem mest á þá tekjulægstu ef verk hennar hingað til eru skoðuð) þá liggur alveg ljóst fyrir að útgjöld hins opinbera verða að minnka. Hver króna sem sparast í ríkisrekstrinum nýtist til verðmætasköpunar í þjóðfélaginu og til verða skatttekjur og störf. Það er því gríðarlega ámælisvert að ríkisstjórn landsins hafi enn ekki tekið á eyðslu hins opinbera en hafi þess í stað lagt í vegferð skattahækkana til að kæfa atvinnulíf landsins og minnka enn frekar ráðstöfunartekjur heimilanna.

 

Á vefsíðunni rikiskassinn.is má skoða í hvað hið opinbera eyðir meðal annars fé. Síðuna má sjá hér. Auk allra þeirra gæluverkefna sem þarna eru talin upp og mættu missa sín má benda á að eigi einhver raunverulegur niðurskurður að eiga sér stað þarf einfaldlega að fækka skólum, fækka starfsmönnum í stjórnsýslunni og minnka báknið. Stjórnmálamenn verða einfaldlega að hemja sig í góðmennskubrjálæðinu og grafa aðeins færri göng, skrifa færri nefndarálit og hætta að byggja skóla í hverju einasta 200 manna krummaskuði landsins. Mörgum kann að þykja leiðinlegt að missa af því að aka í gegnum göng, lesa nefndarálit eða þurfa að ferðast einhverja vegalengd í skóla, en menn verða einfaldlega að horfast í augu við raunveruleikann og hætta að halda alltaf að "einhver annar" geti borgað fyrir bruðlið.

 

Það er svo auðvitað furðuleg aðstaða að þurfa að hvetja vinstri flokka þessa lands til að minnka báknið sem blés út á valdatíma svokallaðs hægriflokks landsins.


mbl.is Hörkubarátta framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Veistu: Það er flest hugsandi fólk búið að fá ógeð á svona Hannesar Hólmsteins vaðli.

hilmar jónsson, 14.7.2009 kl. 13:22

2 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Gaman væri ef Hilmar myndi gagnrýna efnislega pistilinn í staðinn fyrir að stimpla hann sem HHG vaðal. "Skemmtilegt" að geta þess eða hitt þó heldur að umsvif hins opinbera jukust gríðarlega í valdatíð sjálfstæðisflokksins. Síðan er kaldhæðnislegt að vinstri stjórn þurfi að beita niðurskurðarhnífnum eftir bruðlið.

Kristján Hrannar Pálsson, 14.7.2009 kl. 13:53

3 identicon

Ég er með nokkrar hugmyndir um niðurskurð. Afnema listamannalaun, hætta með forsetaembættið sem er algjörlega tilgangslaust, er á móti tónlistarhöllinni en hún skapar vinnu þannig að það hlýtur að vera hægt að spara þar með því að stórlega minnka flottræðisháttinn þar og  nýta þetta t.d. sem listaháskóla líka, hlýtur að vera hægt að  finna einhverjar leiðir. Hætta við að sækja um ESB allavegana í bili enda nokkuð ljóst að við erum þjóð sem ekki er enn búin að læra að labba og uppfyllum ekki skilyrðin.

Auðbjörg (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 14:07

4 identicon

Sæll Hilmar.

Ef að þú telur þig tilheyra þeim hópi sem kallast "hugsandi fólk" (líkt og Georg Bjarnfreðarson taldi sig tilheyra þeim sama hópi) þá værir þú ef til vill til í að deila með okkur hér í athugasemdakerfinu hvað þú vilt gera til að rétta af fjármál hins opinbera?

Þar sem útgjöld ríkisins eru að langstærstum hluta laun þá er það einfaldlega svo að til að draga þessi útgjöld saman þarf annað hvort að láta hvern launþega hafa minna, eða láta færri launþega hafa fé. Svo einfalt er það mál nú og hér í færslunni er einfaldlega bent á þessa augljósu staðreynd, sem svo margir virðast vilja tala sig í kring um. 

Máni Atlason (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 14:09

5 Smámynd: hilmar  jónsson

HALLÓ: Er ekki búið að vera að skera niður í heilbrigðis-mennta og félagskerfinu þannig að til vandræða horfir ?

Mín vegna má tónlistarhús bíða.

Hinsvegar leysum við ekki vandann með því að senda fleiri á atvinnuleysisbætur.

Annars væri sennilega stærsti sparnaðurinn fólginn í því að leggja niður Sjálfstæðisflokkinn og koma endanlega í veg fyrir þær hræðilegu afleiðingar sem græðgisvæðing hans hefur haft í för með sér í gegnum tíðina. Adios...

hilmar jónsson, 14.7.2009 kl. 14:18

6 identicon

Þetta er merkileg kenning, komandi frá hugsandi manni. Setjum svo rökræðunnar vegna að allt slæmt sé sjálfstæðisflokki að kenna. Heldur þú þá að komið verði í veg fyrir afleiðingar gjörða hans með því að leggja niður flokkinn?

Þú heldur kannski líka að þegar kviknaði í Valhöll um helgina hefði dugað, til að koma í veg fyrir brunann (sem er afleiðing) að losa sig við eldgjafann? 

Annars er enginn að tala um að "senda fleiri á atvinnuleysisbætur". Það er á tæru að verðmætasköpun verður ekki í ríkisrekstrinum og því þarf að gefa einkageiranum það andrými sem hann þarf til að halda uppi sómasamlegum lífsgæðum hér á landi.

Það er annars lýsandi fyrir mannréttindaást vinstrimanna að tala fyrir því að leggja niður stjórnmálaflokka sem eru þeim ósammála - ekki frelsi fyrir fólk til að ráðstafa atkvæði sínu eins og það vill, heldur forræðishyggja. Lítið dæmi, en lýsandi.

Máni Atlason (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 14:26

7 identicon

Ég myndi vilja ríkisvæða t.d olíufélögin og fl einkafyrirtæki sem eru gjörsamlega búin að gera upp á bak.  n1 er t.d dæmi um fyrirtæki sem er ákaflega illa rekið og búið að skuldsetja sig fram úr hófi.

með því að ríkisvæða t.d þessi félög getur ríkið stjórnað/lækkað bensínverð og séð til þess að einkaaðilar séu ekki að mjólka þessi fyrirtæki eins og er verið að gera í dag.  ég er ekki að tala um að ríkisvæða vel rekin fyrirtæki heldur þau sem eru tæknilega gjaldþrota og eigendur eru bara í dag að mjólka, því þau fara á hausinn fyrr en seinna.

Ingólfur (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 17:32

8 identicon

Ingólfur, áttu þá við að ganga á eignarrétt þeirra manna sem reka sín fyrirtæki með hætti sem þóknast ekki stjórnmálamönnum hvers tíma?

Ég verð að vera ósammála - ég vildi einmitt alls ekki sjá það gert.

Máni Atlason (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 17:59

9 identicon

Ingólfur, heldur þú að verð muni lækka verði ein grein verslunar á Íslandi ríkiseinokunarvædd? Það er eðli einokunarmarkaða að bjóða mun hærra verð, besta dæmið um það er ÁTVR sem ríkið rekur einmitt.

Ingólfur, hvað verður um markmið samkeppnisrekstrar þegar illa rekin fyrirtæki eru ríkisvædd um leið og þau verða "illa rekin"?

Gott dæmi um þetta er ríkisvæðing Icelandair; bæði Iceland Air og Iceland Express hafa þurft að skera niður í rekstri sínum á sársaukafullan hátt, Express hefur tekist að gera það vel en Icelandair illa.

Samkeppni er keppni og ef keppni endar þannig að taparinn sýpur ekki seyðið af tapinu er enginn tilgangur með keppninni.

Vignir Már Lýðsson (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 09:42

10 identicon

Sammála Vigni, lykilatriðið er að samkeppni er einmitt keppni - og í keppni er alltaf einhver sem tapar. Ef fyrirtæki fá ekki að tapa (og fara þá á hausinn) þá er enginn sem "vinnur". Það fyrirtæki sem býður bestu vöruna, þjónustuna, verðið eða hvað eina sem er sem neytendur hvers tíma leita eftir verður að geta unnið, annars er enginn hvati til að standa sig vel.

Máni Atlason (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband