13.9.2013 | 07:08
Þriðja leiðin í ríkisfjármálum
Íslenska ríkið er gríðarlega skuldsett og það er eitt stærsta vandamál stjórnmálamanna í dag. Þar að auki liggja á ríkisvaldinu gríðarlegar skuldbindingar og ábyrgðir, t.d. vegna lífeyrisgreiðslna opinberra starfsmanna, gangagerða, virkjana og svona má lengi telja. Þetta er vandamál. Ef það verður ekki leyst þarf að selja allt í búi ríkisvaldsins á brunaútsölu eða lýsa yfir gjaldþroti, með tilheyrandi sársauka fyrir alla sem enn eru eftir á Íslandi til að borga skuldir hins opinbera.
Tvær leiðir eru oftast nefndar til að bjarga ríkisvaldinu úr skuldasúpunni. Sú fyrri er að hækka skatta og sú síðari að skera niður í ríkisrekstrinum. Skattahækkanir eru auðvitað jafnvitlaus aðgerð og að sprauta eitri í æðar dauðvona sjúklings, og ber að forðast með öllu. Frekari niðurskurður í þeim ríkisrekstri sem er til einhvers nýtur er líka óheppilegur, enda þarf ríkisvaldið gríðarlegt fé til að veita lágmarksþjónustu illa, og hætt við að sú þjónusta versni enn ef ríkið heldur áfram að veita hana en um leið fjársvelta.
Þriðja leiðin er samt til. Hún er sú að ríkið komi sér einfaldlega út úr öllum rekstri, en sérstaklega þeim sem er mikilvægur og það ræður ekki við. Rekstur sem ríkið hefur einfaldlega ekki á sinni könnu verður síður að pólitísku bitbeini. Ekki er hægt að ráða gamla stjórnmálamenn í stöður hjá einkafyrirtækjum nema þeir hafi meira til brunns að bera en flokksskírteinið. Erfitt er að þröngva einkafyrirtækjum út í pólitískt vinsælar en rekstrarfræðilega vafasamar framkvæmdir, og erfitt hefur reynst fyrir stjórnmálamenn að lokka einkafyrirtæki út í slíkar framkvæmdir jafnvel þótt ríkisábyrgðir hafi verið í boði.
Eitt augljóst dæmi um mikilvægan rekstur sem ríkið ræður ekki við er rekstur heilbrigðiskerfis. Hið opinbera heilbrigðiskerfi nýtur að mörgu leyti einokunarstöðu á markaði heilbrigðisgæslu með niðurgreiðslum úr vösum skattgreiðenda og miklu regluverki sem heldur samkeppni við það í skefjum. Það er því nánast aftengt hinu sveigjanlega og aðlögunarhæfa frjálsa markaðshagkerfi. Sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum er skammtað fé úr ríkissjóði í samkeppni við allskyns annan ríkisrekstur. Heilbrigðisgæslan er í raun í samkeppni um skattfé við sendiráðin, háskólana, ráðherrabílana, jarðgöngin og íslensku sauðkindina, svo eitthvað sé nefnt. Pólitískar ákvarðanir þarf að taka við útdeilingu á því fé, og þær eru yfirleitt víðsfjarri öllum rekstrarfræðilegum raunveruleika heilbrigðisstofnana.
Krafan um ríkiseinokun heilbrigðiskerfisins er hávær og pólitískt óvinsælt að andmæla henni, enda þótt oft heyrist að samkeppni sé af hinu góða. Með takmörkuðu skattfé úr að spila hefur heilbrigðiskerfinu verið ýtt út í skammtanir á þjónustu, biðlista og kjaradeilur heilbrigðisstarfsmanna. Þjónustan versnar og kostnaður hækkar. Stjórnmálamenn hafa reynt að skera niður, en það hefur bitnað á þjónustu á meðan sjúklingar eru rukkaðir um sífellt hærri innritunargjöld og meira í lyfjakostnað, auk hækkandi skatta til að fjármagna kerfið.
Í stað aukins fjárausturs í kerfið, sem bætir það ekki, eða aukins niðurskurðar, sem gerir vont enn verra, væri upplagt að koma heilbrigðiskerfinu úr höndum ríkisvaldsins, en til vara bara mikilvægustu einingum þess. Skatta má lækka sem nemur kostnaði við það. Regluverkið mætti skera niður og auðvelda þannig aðgengi nýrra aðila á þennan mikilvæga markað. Þetta mætti gera um leið og ríkisvaldið greiðir, a.m.k. til einhvers tíma, aðgerðir og aðra meðhöndlun með útboði til einkaaðila. Að tryggja að skattfé sé notað til að greiða fyrir læknisþjónustu er ekki eitt og hið sama og að ríkisvaldið standi í einhvers konar rekstri. Þetta vita meira að segja margir sænskir læknir.
Þriðja leiðin að koma verkefnum algjörlega úr höndum ríkis og stjórnmálamanna hefur enga ókosti hækkandi skatta eða vaxandi niðurskurðar. Ríkisvaldið er fjarlægður sem dýr og klaufalegur milliliður í frjálsum viðskiptum og samskiptum. Frjálsir samningar leysa af torskilin eyðublöð. Samkeppni einkafyrirtækja leysir af hólmi rýrnandi þjónustu og hækkandi kostnað einokunaraðilans. Er eftir einhverju að bíða?
Geir Ágústsson
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu, 13. september 2013, og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Tek undir þessi sjónarmið.Hægt er að fella burt RÚV,Þjóðleikhúsið,Þjóðkirkjuna,Sinfóníuhljómsveitina.Hægt er að afskrifa á einhverjum tímafjölda ríkisstyrki til landbúnaðar og hvetja í leiðinni til hámarkshagræðingar í greininni.Hægt er að breyta stjórnkerfinu úr því að vera þingbundin stjórn í það að ráða kunnáttufólk til starfans og sérfræðinga í stað þingnefnda.Og hreinsa burt umframmannafla ráðuneytanna sem oftast en ekki er fólk sem er ráðið af pólitísku flokkunum (til að verlauna fyrir "vel unnin" störf).Og það er ekki eftir neinu að bíða.
Jósef Smári Ásmundsson, 13.9.2013 kl. 08:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.