27.1.2013 | 19:50
Bara 100 dagar eftir, eða hvað?
Margir frjálslyndir Íslendingar búast fastlega við því að ný ríkisstjórn, skipuð frjálslyndum einstaklingum, muni taka við af þeirri sem nú situr eftir kosningar til Alþingis í vor. Þetta viðhorf kemur m.a. fram hérna.
En eitt er ljóst: Ekkert er öruggt.
Frjálslyndir menn hafa engan veginn náð að tryggja að nokkur breyting til batnaðar verði eftir næstu kosningar. Skoðanakannanir um þessar mundir benda raunar til að sósíalísk öfl gætu hæglega haldið völdum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til verið skásti kostur frjálslynda á Íslandi, en þar er engan veginn að finna nægan fjölda væntanlegra þingmanna til að hafa afgerandi breytingar á samsetningu Alþingis. Frambjóðendur flokksins virðast að uppistöðu ætla að vera sósíaldemókratar, þ.e. sósíalistar sem vilja fara hægt í sakirnar.
Frjálslyndir menn liggja hreinlega í leti og láta lítið í sér heyrast. Vonbrigði eftir næstu kosningar þeirra verða gríðarleg ef það breytist ekki á næstu vikum. Málstaður þeirra ætti í raun að liggja svo vel við að ótrúlegt má teljast að hann njóti ekki meiri hylli en raunin er. Þeir hinna frjálslyndu sem leggja áherslu á hagvöxt, atvinnusköpun og fjárfestingu til framtíðar þurfa ekki að gera annað en að þylja vel meitluð orð helstu hugsuða hagfræðinnar til að hafa eitthvað að segja. Þeir hinna frjálslyndu sem byggja málflutning sinn á réttlætishugsjóninni þurfa bara að benda á að hver maður á sinn líkama og leggja út frá því í málefnabaráttu sinni.
Hvert er svo hið pólitíska landslag á Íslandi? Það er baðað í sósíalískum ranghugsunum. Ríkisvald hér og ríkisvald þar og öll okkar vandamál gufa upp, ekki satt? Ríkisábyrgð á bönkum og áhættusækni í fjárfestingum, fikt við vaxtaprósentur og ríkisvæðing fyrirtækja í gegnum vaxandi regluverk, og enginn fer sér lengur að voða, ekki satt?
Eftir hrunið haustið 2008 fóru margar Evrópuþjóðir sér hægt í að þenja út ríkisvaldið, tóku til og hlífðu skattgreiðendum eins mikið og pólitískur veruleiki leyfði á hverjum stað. Þær þjóðir eru að uppskera í dag með aukinni fjárfestingu og uppbyggingu til framtíðar þar sem Evrópusambandið heimilar slíkt. Á Íslandi var sósíalisma sópað yfir allt og alla og niðurstaðan er framlengd kreppa, sem í raun dýpkar með hverju ári sem ríkisvaldið heldur áfram að moka.
Frjálslyndir menn mega ekki þegja. Þeir þurfa að rífa kjaft á málefnalegan hátt. Þeir þurfa að benda á kýlin og lofa því af einlægni að stinga á þau ef og þegar kosningar hafa fært þeim umboð til slíks.
Eru 100 dagar í betri ríkisstjórn, eða 1500 dagar? Það er undir frjálslyndum mönnum komið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.