17.5.2012 | 06:49
Ríkisvaldið þarfnast hlýðni þess sem það kúgar
Margir, sem horfa með hryllingi upp á ríkisvaldið þenjast út, vita ekki hvernig á að endurheimta það sem ríkisvaldið hefur hrifsað til sín. Karl Marx laumaði þeirri hugsun í fólk að óstöðvandi útþensla ríkisvaldsins væri "óumflýjanleg" þróun, sem væri ekki einu sinni stjórnað af einstaklingum, heldur einhverju óskýru og hálfguðlegu fyrirbæri sem hann kallaði "framleiðsluöflin" (wiki). Til hvers að berjast gegn óumflýjanlegum endalokum siðmenningarinnar eins og við þekkjum hana, og grárri auðn sósíalismans sem tekur við henni? Þróunin er óumflýjanleg! Lokaðu bara augunum og bíddu dómsdags sósíalismans.
En auðvitað er goðafræði Karl Marx ekki raunveruleg, frekar en sú goðafræði sem segir að á toppi Ólympíufjalls í Grikklandi sitji hálfnaktir guðir og skipti sér af málefnum mannanna. Samfélagið er samansafn einstaklinga, og þessir einstaklingar eru með hugmyndir, markmið og hugsanir. Viðhorf almennings hefur úrslitaáhrif á það hversu mikið ofbeldi ríkisvaldið getur leyft sér að beita þá. Þeir sem stjórna ríkisvaldinu eru bara lítið brot af samfélaginu öllu. Minnihlutinn getur ekki stjórnað meirihlutanum nema meirihlutinn leggi sig flatan og leyfi holdmiklum hermönnum hins opinbera að labba yfir sig.
En hvernig tryggir ríkisvaldið að hlýðni borgaranna sé sem mest, og að þeir láti kúgun, rányrkju og ofbeldi yfir sig ganga? Þar koma fræðimennirnir, blaðamenn og aðrir "álitsgjafar" til sögunnar. Þeir fá hlýjan stað í jötu ríkisvaldsins og í staðinn boða þeir náð og miskunn og nauðsyn ríkisvaldsins. Blaðamenn verða "upplýsingafulltrúar" ráðherra ef þeir standa sig vel. Fræðimennirnir fá heilu "rannsóknarsetrin" til ráðstöfunar til að framleiða ríkisáróður ef þeir sanna hollustu sína.
Baráttan gegn ríkisvaldinu hefst í hugum okkar sem ríkisvaldið kúgar og kremur. Um leið og hlýðni okkar og viðhorf snýst gegn ríkisofbeldinu verður erfiðara fyrir ríkisvaldið að valta yfir okkur. Um leið og við, meirihlutinn, gerum forréttindahlöðnum minnihlutanum erfitt fyrir að mergsjúga okkur og stjórna á smásmugulegan hátt, þá verður mun erfiðara að mergsjúga okkur og stjórna á smásmugulegan hátt.
Ríkisvaldið þrífst á auðmýkt þeirra sem það kúgar. Ef sú auðmýkt breytist í virka andstöðu, bæði í orði og í verki, er engin hætta á öðru en að ríkisvaldið megi aftur verða að þjónustutæki almennings (sem mætti gjarnan leggja niður, enda óþarfi) í stað þess að vera kúgunartæki minnihlutans á meirihlutanum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.