Velferðarríki andskotans

Þegar ríkisstjórn vinstriflokkanna tók við stjórnartaumum hét hún því að starfa í anda „norrænna velferðarstjórna”. Þetta var snjallt orðalag. Flestir Íslendingar tengja Norðurlöndin við öflugt velferðarkerfi og sambland af háum sköttum og háum endurgreiðslum í formi allskyns bóta. Það var því viðbúið að ríkisstjórnin hækkaði alla skatta og fyndi upp á nýjum álögum til að fjármagna stækkandi velferðarkerfi.

Hin íslenska vinstristjórn reyndist samt vera kaþólskari en páfinn þegar kemur að norrænni velferð. Á meðan Norðurlöndin reyna að takast á við halla í fjármálum hins opinbera og lækka skatta, sérstaklega á launafólk, stefna Íslendingar í hina áttina. Nú er svo komið að skattarnir á Íslandi eru svipaðir og þar sem þeir eru hæstir á Norðurlöndunum, en á sama tíma hefur velferðarkerfinu verið fórnað á kostnað allskyns gæluverkefna ríkisstjórnarflokkanna sem bæði auka hallann á fjárlögum og eyðileggja verðmætasköpun í landinu. Hér má nefna óþörf útgjöld eins og hið kolólöglega stjórnlagaráð, ESB-umsókn og pólitísk réttarhöld. Og það er komið í veg fyrir atvinnuuppbyggingu með stöðvun stórra framkvæmda í nafni umhverfisverndar, gjaldeyrishöftum til að láta evruna líta betur út, þjóðnýtingu veiðiheimilda, og lengi má telja.

Hið íslenska vinstri er miklu lengra til vinstri en gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum. Hinn norræni jafnaðarmaður vill að breytingar eigi sér stað í smáum skömmtum á löngum tíma, til að trufla ekki verðmætasköpun og starfsemi hagkerfisins. Hinn íslenski jafnaðarmaður er tilbúinn að varpa fyrir róða öllu því sem virkar á meðan hann er við völd því hann veit að íslenskir kjósendur munu aldrei endurnýja umboð hans.

Íslendingar hafa nú vonandi lært sína lexíu og greiða vonandi aldrei aftur fyrir aðgengi vinstriflokkanna að ríkisstjórn. Flokkar jafnaðarmanna og sósíalista í Skandinavíu hafa fyrir löngu hafnað þeirri ofurtrú á ríkið sem var við lýði fyrir um þrjátíu til fjörutíu árum. Íslenskir „skoðanabræður” þeirra stefna í þveröfuga átt. Þeir vilja skattpína almenning í drep, en láta hjá líða að veita almenningi þjónustu í staðinn. Þetta þjóðskipulag er réttnefnt velferðarríki andskotans.

Geir Ágústsson

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 13. júlí 2011 (tengill á grein fyrir áskrifendur að vefútgáfu Morgunblaðsins: HÉR).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er grátleg velferðarstjórn.  Jafnvel verri en maður vissi að hún yrði.

En það er auðvitað velferð vina og vandamanna eins og t.d. leynilegar einkavæðingar og gjafir innan fjármálageirans sýna.

Hvað er Steingrímur að gera með BYR?

Fyrst milljarðar af almannafé í batteríið og svo...???

jonasgeir (IP-tala skráð) 14.7.2011 kl. 19:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband