1.6.2011 | 13:23
Siv og svarti markaðurinn
Siv Friðleifsdóttir og fleiri þingmenn hyggjast nú færa megnið af tóbakssölu landsins niður í hinn ábatasama en ofbeldisfulla og miskunnarlausa svarta markað. Þetta á að gerast með lögbanni á sölu tóbaks í venjulegum verslunum og söluturnum. Þeir sem starfa á hinum svarta markaði nú hljóta að gleðjast yfir þessari vænu búbót og vona að alþingismenn láti glepjast af tækifærismennsku og eltingarleik við pólitískan rétttrúnað og afgreiði hið hræðilega lagafrumvarp með hraði, og helst án umræðu.
Svarti markaðurinn hefur tekið vel við sér síðan hrunið 2008 og síðan ákveðið var að stefna með hraðbyri að sósíalísku þjóðskipulagi hér á landi. Gjaldeyrissala er nú stunduð þar af miklum móð enda gjaldeyrishöftum fylgt eftir af meiri ofstopa en elstu menn muna frá fyrri tíð slíkra hafta. Viðskipti með reiðufé eiga sér nú stað í mun ríkari mæli en fyrir örfáum misserum og mun víðar, t.d. á hárgreiðslustofum, smurstöðvum og verkstæðum. Í tilraun sinni til að hrifsa stærri sneið af minnkandi köku standa yfirvöld nú frammi fyrir því að kakan er orðin agnarsmá. Það var fyrirsjáanlegt þegar lagt var af stað með innleiðingu allsherjar sósíalisma hér á landi, en nú er það veruleikinn sem blasir við.
Dekstur yfirvalda við hinn svarta markað er að mörgu leyti skiljanlegt, í ljósi þess að fáir þingmenn kunna nokkur skil á grunnatriðum hagfræðinnar. Almenningur þarf hins vegar að gera meiri kröfur til sjálfs sín en hann gerir til þingmanna sinna, og setja spurningamerki við hinn gengdarlausa yfirgang yfirvalda á frjálsum samskiptum og viðskiptum fólks og fyrirtækja þess. Menn geta ekki búist við því að innleiðing sósíalisma hafi aðrar afleiðingar en sósíalisma. Menn geta ekki búist við því að hinn íslenski sósíalismi endi öðruvísi en sósíalismi annarra landa - með gjaldþroti alls og allra.
Geir Ágústsson
Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu, 1. júní 2011
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:25 | Facebook
Athugasemdir
Sif er aðdraga athyglina frá umræðunni um læknadóp og aðgerðir gegn því. Lyfjafræðingur í Noregi benti á apóteksleidina,LAR, sem gefist hefur vel í Noregi. Þá fá fíklar sinn dagskammt undir eftirliti í apótekinu og ekkert með sér til að selja á gotunni.í stað þess að hrinda þessu ágæta verkefni í framkvæmd,er nú logð ofuráhersla á að einungis megi selja sígarettur í apótekum. Fáránleg tillaga,sem áreiðanlega hefst í gegn, vitleysa,sem hvergi hvergi þekkist annars staðar.
Steini (IP-tala skráð) 1.6.2011 kl. 13:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.