Biðin eftir næstu ríkisstjórn

Ríkisstjórnin sem nú situr gerir vont ástand verra með hverjum deginum sem líður. Næsta ríkisstjórn fær hið mikla og erfiða verk að vinda ofan af öllum þeim skaða sem núverandi ríkisstjórn hefur valdið á íslenskri þjóð. Nauðsynlegt mun reynast að taka erfiðar ákvarðanir, en það forðast núverandi stjórnvöld eins og heitan eldinn.

Fyrsta verkefnið er tafarlaust afnám gjaldeyrishaftanna. Sú aðgerð verður flóknari eftir því sem henni er frestað lengur. Afnám þeirra mun þurfa að eiga sér stað, og slíkt afnám mun hafa áhrif á gengi krónunnar. Það eru rök fyrir afnámi eins fljótt og auðið er, en ekki afsökun fyrir frekari frestun. Núverandi ríkisstjórn skýlir sér á bak við höftin og þorir ekki að sleppa krónunni lausri í nauðsynlega aðlögun að raunveruleikanum. Báðir stjórnarflokkarnir hafa þar að auki pólitíska hagsmuni af því að viðhalda höftunum. Næsta ríkisstjórn hefur vonandi dug til að takast á við verkefnið og ljúka því hratt.

Næsta skref er aðskilnaður ríkis og hagkerfis. Vinna við að leggja niður peningaframleiðslu ríkisins þarf að hefjast sem fyrst. Sú hagfræði sem boðar ríkieinokun á peningaútgáfu og verðlagsstýringu á verði peninga (vextir), og er meðal annars kennd við hagfræðideild Háskóla Íslands, er hrunin fyrir löngu. Frjáls peningaútgáfa olli engum verulegum vandræðum í mörg þúsund ár, og raunar bjuggu menn við miklu stöðugri kaupmátt peninga sinna en við þekkjum í dag. Ríkisútgáfan og ríkiseinokunin seinustu hundrað árin hefur valdið gríðarlegum skaða og raunar miklu meiri efnahagslegum skaða en ríkisafskipti af nokkru öðru sviði samfélagsins. Menn geta aðlagast verðlagsstýringu á einstaka vöru, t.d. kindakjöti og innfluttum osti, en eru öllu vanmáttugri til að bregðast við fikti við sjálfa peningana, milliliðs viðskipta og grundvöll þróaðs samfélags manna.

Sjálf útfærslan á endalokum ríkiseinokunar á peningaútgáfu og sjálfs ríkisgjaldmiðilsins mun valda tímabundnum erfiðleikum fyrir þá sem treysta á kaupmátt hans. Það ætti að vera góður hvati fyrir stjórnmálamenn að drífa af einkavæðingu peningaútgáfunnar. Því lengur sem henni er frestað, því meiri vandræði á hagkerfið og samfélagið í heild sinni í vændum.

Önnur og mikilvæg verkefni liggja einnig fyrir við næstu ríkisstjórnarskipti. Vinda þarf ofan af skattahækkunum og hefja mikla lækkun skatta, mikið og þungt regluverk á atvinnustarfsemi þarf að minnka og einfalda og aðlögun að Evrópusambandinu þarf að stöðva, svo fátt eitt sé nefnt. Ríkisreksturinn þarf að draga saman, bæði með skattalækkunum og umtalsverðri einkavæðingu. Allan ríkisrekstur dagsins í dag þarf að endurskoða með það að markmiði að koma honum út á markaðinn, fjarri afskiptum stjórnmálamanna, og fjarri skjóli ríkisábyrgðar á áhættusækni með annarra manna fé.

Skattheimta ríkisins þarf að minnka verulega svo svigrúm einkaaðila og einstaklinga til að byggja upp hagkerfið geti aukist. Útgjöld hins opinbera þarf að færa niður fyrir skatttekjur svo skuldasöfnun hins opinbera stöðvist og hröð niðurgreiðsla skulda geti hafist.

Næsta ríkisstjórn hefur vonandi dug og þor til að takast á við hin miklu og erfiðu verkefni sem hennar bíða. Ef hún slær einhverjum þeirra á frest munu vandræði Íslands halda áfram að aukast. Ef hún reynir t.d. að fjármagna ríkið með áframhaldandi lántökum mun það bitna á næstu kynslóðum. Ef hún reynir að halda í einokun ríkisins á peningaútgáfu mun stöðug og langvarandi verðbólga halda áfram að hrella íslensk heimili og fyrirtæki. Ef hún reynir að framlengja gjaldeyrishöftin verður svarti markaðurinn bráðum eina athvarf þeirra sem vilja skiptast á verðmætum, vinnu og þjónustu.

Verkefnalisti næstu ríkisstjórnar liggur nokkurn veginn fyrir, bæði til lengri og skemmri tíma. Núna hefst biðin eftir því að verkstjóri gefi sig fram.

Geir Ágústsson

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 12. maí 2011.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband