Ef einhver var í vafa um að það sé stríð í gangi, þá skal sá hinn sami láta af efasemdum nú þegar og velja sér lið. Það er stríð í gangi. Stríðið er við sósíalisma og það er háð á mörgum vígstöðvum.
Gjaldmiðlastríð ríkisins við frjálsa verslun er í fullum gangi. Í Bandaríkjunum vinna menn að því hörðum höndum að drepa bandaríska dollarann. Hann stefnir óðfluga í spíral rýrnandi kaupmáttar og sífellt hraðari peningaprentunar til að fjármagna gríðarlegan hallarekstur bandaríska alríkisins. Heimurinn hefur notast við bandaríska dollarann sem forðamynt (e. reserve currency) í um 100 ár og fall dollarans mun því hafa víðtækar afleiðingar fyrir nánast alla aðra gjaldmiðla. Þegar peningar fólksins stefna í verðleysi, þá hrindir það af stað miklum óróa. Almenningur horfir upp á kaupmátt peninga sinna gufa upp og fyllist örvæntingu og ótta. Í Þýskalandi varð hrun gjaldmiðilsins til þess að greiða aðgengi þjóðernissósíalista að valdataumunum. Sporin hræða.
Gjaldmiðlahöftin á Íslandi eru angi af gjaldmiðlastríði hins opinbera við almenning. Þau koma í veg fyrir eðlileg viðskipti við útlönd og venjulegt fólk sem vill verja kaupmátt sparnaðar síns er neytt til að beita ólöglegum aðferðum til að koma fé sínu í skjól fyrir verðbólgunni.
Ríkisreksturinn á Vesturlöndum hefur náð ósjálfbærri stærð, og það fyrir löngu. Hann krefst sífellt meiri skattheimtu til að standa undir sér. Lífeyriskerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi standa ekki undir sér lengur. Þau eru nú fjármögnuð með hárri skattlagningu á alla verðmætaskapandi vinnu. Þegar hendurnar sem skapa verðmætin verða orðnar færri en þær sem taka við verðmætunum verður ekki aftur snúið. Fólk á efri árum verður sett út í kuldann. Yngra fólk missir hvatann til að leggja á sig vinnu og safna til efri áranna. Atvinnulaust fólk sér enga ástæðu til að koma sér í vinnu þar sem stærsti hluti launa þeirra er hirtur til að moka ofan í botnlausa hít hins ósjálfbæra ríkisreksturs.
Sjálft réttarríkið er nú úthrópað. Dómarar sem segjast einungis dæma eftir lögum eru sakaðir um annarlega hagsmuni. Þeir eru beðnir um að dæma eftir tilfinningunni í samfélaginu og öðrum óljósum mælikvörðum. Þegar dómarar eru hvattir til að dæma að eigin geðþótta og fylgja duttlungum almenningsálitsins er lögum og rétti alvarlega ógnað. Þegar fyrirfram vitneskja um hvað má og hvað má ekki er orðin óljós er hætt við að virðingin fyrir lagabókstafnum minnki og ólögleg starfsemi færist í aukana. Þeir sem hæst gala fá sínu framgengt. Þeir sem taka frumkvæði sem síðar meir fellur í ónáð samfélagsins eru dæmdir sem glæpamenn og óþokkar.
Sagan kennir okkur að um leið og yfirvöld eru hætt að fylgja ströngum reglum réttarríkisins þá eru venjulegir borgarar varnarlausir gagnvart óréttlæti og misnotkun hins opinbera á gríðarlegu valdi sínu yfir lífi okkar og eigum.
Náin tengsl viðskiptalífsins við stjórnmálin eru hættumerki. Rétt tengdir aðilar í viðskiptalífinu fá frjálsar hendur til að græða á tá og fingri með því að taka mikla áhættu með fé annarra. Hagnaðinum fá þeir að stinga í vasann, en ef þeir tapa þá er skattgreiðendum hrint í skuldafenið og gert að greiða af lánunum. Bankastarfsmenn heyra það frá stjórnmálamönnum að sama hvað á gengur, þá munu þeir ekki þurfa lýsa sig gjaldþrota ef þeir fleygja sparifé almennings á bálið.
Þessi nánu tengsl koma einkum fram í starfsemi seðlabanka og ríkiseinokunar á peningaprentun. Án seðlabanka og lánveitanda til þrautavara stæðu viðskiptabankarnir einir og varnarlausir frammi fyrir viðskiptavinum sínum ef þeir víkja af leið aðhalds og traustvekjandi viðskiptahátta. Í dag ver ríkisvaldið, í skjóli seðlabanka, bankana fyrir öllum mistökum þeirra. Þeir fjölfalda peningana okkar og stinga miklum hagnaði í vasann. Almenningur trúir því að sparifé sitt sé öruggt, en það er það ekki. Það er gírað margfalt upp og sent út í formi vaxtaberandi lána til eigenda bankanna og viðskiptafélaga þeirra, lána sem verða aldrei greidd til baka nema að mjög litlu leyti.
Eftirlit með lífi okkar eykst í sífellu. Ríkisvaldið tryggir sér aðgengi að öllum kortafærslum okkar með einföldum og auðsóttum úrskurði og eykur heimildir lögreglu til að rannsaka málefni einstaklinga án heimilda og rökstudds gruns um glæpsamlegt athæfi. Almenningi er talin trú um að þetta sé allt í okkar þágu og til að auka öryggi hins almenna borgara, en sagan segir okkur að í raun er um að ræða hert tök hins opinbera á okkur með það að markmiði að fækka undankomuleiðum okkar ef okkur finnst ríkið seilast of djúpt í vasa okkar eða hirða af okkur of mikið af sjálfræði okkar og frelsi.
Listinn yfir vígstöðvar ríkis og okkar er vitaskuld mun lengri. Hér verður samt staðnæmst í þeirri von um að lesandinn hafi áttað sig á stöðu mála.
Stríðið við sósíalismann er í fullum gangi. Ertu búin(n) að velja þér lið?
Geir Ágústsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll.
Eins og þetta er nú hörmuleg lesning er alveg hræðilega mikið til í þessu. Nú hafa vinstri menn fengið tækifæri til að hrinda sínum meðulum í framkvæmd og hana sjáum við nú. Sorglegt.
Hér vantar hægri flokk enda enginn slíkur hér.
Helgi (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 22:33
Saelir Frjalshyggjumenn.
Hver er skodun felagsins um thojdaratkvaedagreidslur almennt?
Kv.
Johann
Johann Gretar Kroyer Gizurarson (IP-tala skráð) 10.4.2011 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.