29.3.2011 | 11:50
Er að molna undan réttarríkinu?
Frjálshyggjumenn hafa alltaf haldið merki réttarríkisins hátt á lofti. Í þeirra augum er réttarríkið ein helsta vörn frjálsra einstaklinga gegn handahófskenndum tilskipunum hins opinbera. Eða eins og Hayek skrifaði árið 1953:
Since this Rule of Law is a rule for the legislator, a rule about what the law ought to be, it can, of course, never be a rule of the positive law of any land. The legislator can never effectively limit his own powers. The rule is rather a meta-legal principle which can operate only through its action on public opinion. So long as it is generally believed in, it will keep legislation within the bounds of the Rule of Law. Once it ceases to be accepted or understood by public opinion, soon the law itself will be in conflict with the Rule of Law.
Það er gríðarlega alvarlegt mál þegar dómstólar láta undan pressu almenningsálitsins og dæma eftir kröfu dómstóls götunnar í stað þess að dæma eftir lögum og dómavenju. Réttarríkið byggir m.a. á því að hægt sé að treysta því að dómstólar séu sjálfstæðir og íhaldssamir.
Og á enn öðrum stað segir:
Í því andrúmslofti sem hér hefur ríkt um nokkurt skeið er mikill þrýstingur á dómara að dæma eftir því hvernig vindar blása í þjóðmálaumræðunni. Er þá gjarnan vísað til einhvers óskilgreinds réttlætis og sanngirnis. Það er hins vegar afar mikilvægt að dómstólar bregðist ekki skyldum sínum við að gæta lögbundinna réttinda almennings og samfélagsins þrátt fyrir vaxandi þrýsting pólitískra afla, fjölmiðla og hagsmunahópa um annað.
Ekki eru allir sammála um gildi réttarríkisins í frjálsu samfélagi, og sérstaklega ekki eftir hrunið haustið 2008. Háværar kröfur eru um að dómstólar láti lagabókstafinn aðeins frá sér og byrji að dæma eftir einhverju öðru, t.d. því hvernig vindar blása. Þingmenn hafa jafnvel tekið undir slík sjónarmið í ræðustól á Alþingi.
Minnkandi virðing fyrir réttarríkinu kemur einnig fram þegar menn tala um "áhættuna" af því að fara með deilumál fyrir dómara. Icesave-deilan, sem nú tröllríður allri umræðu á Íslandi, er gott dæmi um það. Þar deila menn um "áhættuna" af því að fara með deilumál fyrir dómstóla og fá úrskurð sem byggist á lögum og reglum. Svona málflutningur er dæmi um minnkandi virðingu fyrir réttarríkinu.
Þetta er varhugaverð þróun. Grundvöllur réttarríkisins felst í því að einstaklingar þekki þær leikreglur sem gilda í samfélaginu (bæði í samfélagi einstaklinga og samfélagi ríkja) og geti verið vissir um að á meðan þær leikreglur eru ekki brotnar þá sé ekki hægt að varpa viðkomandi í grjótið. Ef réttarríkið er að hörfa þá er vald ríkisins til að setja reglur á eftir á eða dómara til að dæma eftir handahófskenndum skoðunum að aukast.
Gegn þeirri þróun þarf að sporna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.