11.10.2010 | 15:44
Sérfræðingarnir taka völdin
Flestir skipulagningarsinnar, sem hugsað hafa það mál til hlítar, hvernig koma megi skipulagningunni í framkvæmd, eru ekki í vafa um það, að áætlunarbúskapurinn krefst einræðisskipulags, og að fela verður nefnd sjerfræðinga að stjórna hinu flókna kerfi atvinnulífsins, en úrslita valdið verður að vera í höndum forustumanns, sem ekki má láta lýðræðisvenjur verða athöfnum sínum til trafala. Fylgismenn áætlunar búskaparins hugga okkur hinsvegar með því að einræðisskipulag þetta muni aðeins ná til atvinnu mála.
Þessi orð eru úr útdrætti úr bók F.A. Hayek, Leiðin til ánauðar, sem kom fyrst út árið 1944. Í henni varar Hayek okkur við því hvernig ríkisvaldið fer að því að svipta okkur öllu frelsi án þess að almenningur fái rönd við reist, og jafnvel þannig að almenningur styður frelsissviptingu sína heilum hug.
Ein aðferð alræðissinna sem vilja veg ríkisvaldsins sem mestan (dæmi) er sú að fela "sérfræðingum" mikil "sjálfstæð" völd á afmörkuðum sviðum, og gera þau völd þannig "ópólitísk". Slíkt hefur þann kost (fyrir tiltekinn hagsmunahóp) að þá þurfa ákvarðanir ekki lengur að veltast um í tímafrekum umræðum lýðræðisins og því hægt að framkvæma mun hraðar og markvissar en þar sem málamiðlunum þarf að beita.
Hagsmunahópar eru mjög hrifnir af þessu kerfi. Bankamenn báðu um seðlabanka á sínum tíma og heimtuðu "sjálfstæði" hans til að geta prentað peninga að vild. Þeir sem boða mikla vá af völdum hlýnandi veðurfars vegna "losunar mannsins" á gróðurhúsalofttegundum vilja alþjóðlega stofnun með framkvæmdavald í einstaka ríkjum til að ná sínum markmiðum um "minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda". Femínistar hafa víða komið sér inn í allskyns gamlar og nýjar ríkisstofnanir á Íslandi sem geta útdeilt sektum og öðrum refsingum á óþekk fyrirtæki sem ráða ekki fólk eftir sínu höfði. Hinn ríkisstyrkti hluti listamanna á Íslandi á víða sæti við borð þar sem fé skattgreiðenda er deilt út af miklu "sjálfstæði" til þeirra sjálfra án aðhalds frá kjörnum stjórnmálamönnum.
Þetta er þróun sem heldur stöðugt áfram og sér engan veginn fyrir endann á. Sérhagsmunirnir raða sér í kringum ríkisjötuna og heimta fé skattgreiðenda en heimta um leið "faglegt sjálfstæði" frá stjórnmálamönnunum sem innheimta það. Kjósendur geta ekki losað sig við þessar afætur í kosningum og stjórnmálamenn eru skíthræddir við að styggja þær af ótta við rægingarherferð í næstu kosningum.
Leiðin til ánauðar er beinn og breiður vegur til helvítis þar sem allir hlusta á þá sem heimta af hvað mestri frekju.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.