3.7.2010 | 13:45
Hrun hins blandaða hagkerfis
Hið blandaða hagkerfi ríkisverndaðra einkaviðskiptabanka og ríkisrekinna seðlabanka er hrunið. Nú er kominn tími til að brjóta upp samband þeirra, afnema ríkisábyrgðir og ríkistryggingar á áhættufjárfestingum einstaklinga, fyrirtækja og banka og koma á aðskilnaði ríkis og hagkerfis.
Það kann að koma einhverjum á óvart að kerfi útblásins reglugerðafargans og umsvifamikils opinbers eftirlits með víxltengslum áhættufjárfestinga og ríkisábyrgða hafi ekki gengið upp. Þeim hinum sömu skal bent á að frá því á þriðja áratug síðustu aldar hafa skarpskyggnir hagfræðingar varað við óumflýjanlegu hruni hins blandaða hagkerfis, því hið blandaða hagkerfi fengi ekki staðist til lengdar ekkert frekar en sósíalisminn í Sovétríkjunum. Niðurstaðan af samkvæmisdansi fjármálakerfis og ríkisvalds er gjaldþrot hins fyrra á kostnað hins síðara.
En hvernig á að aðskilja ríki og hagkerfi? Það gerist í fyrsta lagi með því að leggja niður seðlabankann og afnema einokun ríkisins á útgáfu peninga. Í frjálsu hagkerfi velur fólk sér trausta gjaldmiðla sem er erfitt að fjöldaframleiða, en hömlulaus seðlaprentun rýrir verðmæti gjaldmiðla í ljósi lögmálsins um framboð og eftirspurn.
Annað skref í aðskilnaði ríkis og hagkerfis er tiltekt í hinu mikla bókasafni sem reglur og lög um fjármálastarfsemi er á Íslandi og Vesturlöndum öllum. Stór fjármálafyrirtæki hafa fengið hið opinbera til að reisa mikla og samkeppnishamlandi múra af skilyrðum og skorðum sem tálma rekstur fjármálafyrirtækja og halda nýjum fyrirtækjum frá markaðnum. Múrana þarf að brjóta niður og koma þannig á raunverulegu markaðsaðhaldi og samkeppni á ný. Opinberar eftirlitsstofnanir Vesturlanda hafa víða komið í stað skynsamlegrar gagnrýni neytenda og almennings og hin opinberu afskipti af fjármálastarfsemi hafa stuðlað að mikilli áhættusækni sem skattgreiðendur þurfa núna að greiða fyrir.
Þriðja og seinasta skrefið í aðskilnaði ríkis og hagkerfis er almennur niðurskurður hins opinbera skrifræðisbákns. Ríkisvaldið á ekki að taka stóra sneið af minnkandi köku, eins og staðan er nú um stundir. Miklu vænlegra er fyrir alla nema stjórnlynda sósíalista að taka litla sneið af stækkandi köku.
Aðskilnaður ríkis og hagkerfis er sennilega brýnasta verkefni stjórnmálanna, þegar við sitjum í brunarústum hins blandaða hagkerfis. Nú er mál að koma þeim aðskilnaði á dagskrá.
Geir Ágústsson
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu, 3. júlí 2010. Hana má einnig finna á heimasíðu Frjálshyggjufélagsins
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.