9.6.2010 | 09:19
Ísland þarfnast stjórnarskipta
Skilgreina má óháðan" fræðimann eða álitsgjafa á Íslandi sem einstakling sem annað hvort hefur verið á framboðslista vinstriflokks, eða kýs einn slíkan (nema hvort tveggja sé). Einhliða áróður og umfjöllun" fjölmiðlanna er vinstriflokkunum svo mjög í hag, að auðvelt er að ímynda sér veggi fréttastofa landsins þakta kosningaspjöldum Samfylkingar og Vinstri grænna.
Þrátt fyrir það rennur nú smám saman upp fyrir íslenskum almenningi að þótt vissulega hafi margt farið úrskeiðis á Íslandi á sínum tíma þá dugir ekki endalaust að benda aftur til fortíðar til að útskýra afglöp þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.
Skattgreiðendur sjá nú fram á að geta arfleitt jafnt börn sín sem barnabörn að skuldum vegna gríðarlegs hallareksturs hins opinbera. Tónlistarhöllin við höfnina er enn í byggingu. Hundruðum milljóna er sólundað í þýðingar á umsóknareyðublöðum Evrópusambandsins. Ríkið talar um að ráðast í mannaflsfrekar framkvæmdir" á kostnað skattgreiðenda, sem vitaskuld þýða ennþá mannaflsfrekari uppsagnir hjá einkaaðilum. Hækkandi skattbyrði, gjaldeyrishöft og aðrar viðjar eru smátt og smátt að kyrkja hagkerfið. Ríkið hefur tekið yfir allar tegundir fyrirtækja og rekur þau nú með tapi á kostnað skattgreiðenda, um leið og samkeppnisaðilum þeirra blæðir hægt og rólega út og svona má lengi telja.
Íslendingar gleymdu um tíma að velferð og verðmætasköpun krefst vinnu og framleiðslu, og að þegar menn taka áhættu með fé sitt eða annarra þá eigi það á vera þeirra ábyrgð, en ekki ríkisins. Ekki er mikið gert til að minna landsmenn á þetta. Skuldsett og ríkistryggð neysla er ennþá dagskipanin. Ríkisstjórn Íslands vill koma Íslendingum á spena evrópskra skattgreiðenda, og er alveg sama þótt það þýði dauða hins íslenska hagkerfis.
Upprisa Íslands úr öskustó fjármálakreppunnar krefst þess að Íslendingar fái notið frelsis til að láta gjaldþrota fyrirtæki fara á hausinn og athafnafrelsis til að byggja upp á nýtt án þess að skattböðlar kreisti hverja krónu úr verðmætaskapandi höndum. Þetta skilja fæstir á Alþingi nú um stundir, og það sést á reglugerða- og skattlagningarflóðinu sem hellist yfir okkur. Ísland þarfnast viðhorfsskipta á Alþingi, og þar með stjórnarskipta. Því fyrr, því betra.
Geir Ágústsson
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu, 9. júní 2010
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.