Hnýsni um einkahagi

Í umræðum um myndina sem birtist með fréttinni birtist margar af lægri hvötum manna, hvötum sem Íslendingar virðast vera illa haldnir af, nefnilega öfund og hnýsni um einkahagi annarra.

Í opinberri umræðu er jafnvel farið að tala um að rétt sé að afnema bankaleynd, en það hefur hingað til verið talið til mannréttinda að menn fái að eiga eignir sínar í friði fyrir hnýsni meðborgara. Hér er ekki á nokkurn hátt verið að mæla lögbrotum bót og vitaskuld má bankaleynd ekki tálma rannsóknir mála - liggi fyrir rökstuddur grunur um lögbrot. Á tímum líkum þeim sem við lifum nú á, gildir miklu að halda í heiðri grunnstoðir réttarríkisins og almenn mannréttindi, en hvort tveggja á undir högg að sækja.

Ýmsir háværir sjálfskipaðir sérfræðingar, þar á meðal virðulegir prófessorar við Háskóla Íslands, hafa að undanförnu heimtað að allra hörðustu úrræðum lögreglu sé beitt gegn þeim mönnum sem voru í fararbroddi íslensks athafnalífs á umliðnum árum. Það er út af fyrir sig afar hryggilegt að til sé slík mannvonska að óska mönnum þess að verða hnepptir í gæsluvarðhald og þurfa að sæta auðmýkjandi úrræðum á borð við leit á heimilum - og það án þess að sannarlegur grunur liggi fyrir um lögbrot. Í því sambandi er rétt að menn spyrji sig: Hvers eiga börn og konur viðkomandi manna að gjalda?

Hér skal ekkert fullyrt um hugsanleg afbrot íslenskra kaupsýslumanna á undanförnum árum. Sá er þetta skrifar er ekki í neinni aðstöðu til að geta fullyrt um slíkt. Til að gera út um slík mál höfum við komið okkur upp ákaflega dýru og umfangsmiklu réttarkerfi með lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum. Á þeim tímum sem við nú lifum skiptir miklu að treysta á þessar grunnstoðir réttarríkisins, en láta ekki upphlaup og æsingar spilla því sem þjóðfélaginu er hvað dýrmætast.


mbl.is Mynd á bloggsíðu vekur umtal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband