Nokkur heilræði um hagstjórn

Stjórnmálamenn eru ekki kosnir vegna hæfileika þeirra í hagstjórn eða þekkingu á atvinnulífinu og starfsumgjörð fyrirtækja. Þeir eru kosnir vegna hæfileika þeirra til að lofa kjósendum því sem kjósendur vilja (eða telja sig vilja). Þeir eru kosnir vegna þess að þeirra hugmyndir um "samfélagið" náðu hylli kjósenda.

Þess vegna þarf ekki endilega að láta það koma sér í sífellu á óvart að stjórnmálamenn beita oft röngum aðferðum til að ná yfirlýstum markmiðum sínum. Sú ríkisstjórn sem nú situr er skínandi dæmi um slíka samkundu stjórnmálamanna. Þar boða menn hagvöxt og ný störf, en þegar rýnt er í tölurnar kemur í ljós (ekki óvænt) að enn er samdráttur og engin ný störf að verða til, nema e.t.v hjá hinu opinbera.

Þess vegna er ekki úr vegi að veita stjórnmálamönnum nokkur heilræði um hagstjórn. Þau eru einföld, virka, hafa sannað sig oft, en geta verið örlítið óþægileg í framkvæmd fyrir stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum.

Heilræðin sem nú er boðið upp á eru eftirfarandi:

  • Stórkostlegur samdráttur í rekstri hins opinbera: Leggja niður stofnanir, einkavæða allt sem fæst fé fyrir, fækka opinberum starfsmönnum, afnema lög um ríkiseinokun svo einkaaðilar geti tekið við þeim opinbera rekstri sem eftirspurn er fyrir, og gera allt sem mönnum dettur í hug sem dregur úr rekstrarkostnaði, umfangi og starfsmannafjölda hins opinbera.
  • Stórkostleg lækkun skatta, samhliða hröðum niðurgreiðslum á lánum hins opinbera: Þegar ríkisreksturinn hefur verið stórkostlega dreginn saman ætti að skapast svigrúm fyrir stórkostlega lækkun skatta og uppgreiðslu á skuldum hins opinbera. 
  • Afnám laga og reglugerða: Atvinnulífið er umvafið allskyns lögbundnum skyldum og kvöðum sem draga úr þrótti þess og hægja á allri nýsköpun og verðmætasköpun. Þessu þarf að breyta og snúa við í umhverfi aukins svigrúms fyrir alla sem vilja skapa verðmæti.
  • Opnun hagkerfisins fyrir viðskiptum: Tollar og takmarkanir á inn- og útflutningi draga mjög úr þrótti hagkerfisins. Tollar ættu að heyra sögunni til, helst í gær. Hið sama gildir um aðrar hindranir á viðskipti við útlendinga.
  • Seðlabanki Íslands - leggja hann niður: Ríki og hagkerfi þarf að aðskilja. Það er sennilega stærsta lexían sem þarf að lærast eftir hrunið á fjármálakerfi heimsins. Ríkið á ekki að geta prentað peninga, ákveðið vexti á peningum eða skipt sér af því hver gefur út peninga og hver notar þá. Ríkið á að mæta "tekju"þörf sinni með einfaldri og heiðarlegri skattheimtu, en ekki undirförulli peningaprentun. Gjaldeyrishöftin heyra vitaskuld sögunni til þegar Seðlabanki Íslands hefur verið lagður niður.

Þá er bara að hefjast handa!


mbl.is Boðar 2.200 ársverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Ljúft að láta sig dreyma!

Sigurður Haraldsson, 15.3.2011 kl. 23:26

2 Smámynd: Geir Ágústsson

"Urge immediate abolition as earnestly as we may, it will, alas! be gradual abolition in the end. We have never said that slavery would be overthrown by a single blow; that it ought to be, we shall always contend."

William Lloyd Garrison

Geir Ágústsson, 16.3.2011 kl. 08:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband