"Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli."

Á tímum gríðarlegs samdráttar í atvinnulífinu og þar með hraðlækkandi tekjum ríkissjóðs er ekki nema sanngjarnt að stofnanir hins opinbera skeri niður útgjöld sín þó ekki væri nema með sambærilegum hætti og meðalfyrirtæki.

Þjóðkirkjan er eitt af fjölmörgum dæmum um ríkisstofnun sem blés út á valdatíma vinstristjórna Sjálfstæðisflokks og samstarfsflokka hans. Biskupsstofa er dæmi um stofnun innan kirkjunnar sem ætti ekki að þurfa nema örfáa starfsmenn er núna orðið gríðarlegt skrifræðisbákn í stórhýsi við Laugaveg en var á árum áður í litlu húsi við Suðurgötu.

Er ekki kominn tími til að frelsa kirkjuna frá ríkinu og um leið frelsa skattgreiðendur undan bruðlinu? Það getur ekki talist guðlegt að fjármagna rekstur kirkjunnar með skattfé, sem er alltaf innheimt með ofbeldi eða hótun um ofbeldi.

Vitið þér enn eða hvat?


mbl.is Kirkjunni gert að spara um 9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæl verið þið trúsystkin mín.

Við erum alveg tilbúin að skilja að ríki og kirkju. Til þess þarf þá ríkið að skila Þjóðkirkjunni aftur jarðeignum þeim sem það tók og nýtir. Leiguafnot þeirra eigna greiðir ríkið samkvæmt samningum þar um ákveðnum fjölda presta laun. Sá launapakki er lítill við hlið þeirra gæða sem ríkið fékk á móti á sínum tíma með samningum þar um 1907 og 1997. Enginn leigusali á þessu landi, eða um veröld víða í hinum vestræna heimi myndi sætta sig við svo lága leigu sem þjóðkirkjan fær. Þetta er því leiga á geysilegum eignum sem ríkið ásældist og þjóðkirkjan afhenti ríkinu gegn þessu umsamda afgjaldi.  Hefur ríkið með sömu rökum heimtað 9% lægri húsaleigu hjá þeim fjölmörgu eigendum fasteigna sem ríkið leigir húsnæði af ? Nei þar yrði hlegið að vitleysunni og heimtaðar vísitölubætur með engum refjum eins og samningar standa auðvitað til. 

Ég hélt nú að þér trúbræður mínir í pólitík skilduð þetta allra manna best - frjálsa samninga um gæði manna á millum í fullu frelsi. Þar verða menn auðvitað að standa við gerða samninga eins og þið vitið. Þarna er ekki um skattgreiðslu að ræða til kirkjunnar heldur eðlileg (ótrúlega lág samt) greiðsla leiguafnota má segja.

Þannig er flugfreyjan og jarðfræðineminn að fremja lögbrot á gerðum samningum við þjóðkirkjuna þegar þau lækka einhliða samningsbundin gjöld fyrir leiguafnotin og myndi enginn leigusali taka slíku þegjandi.  Þá er hitt ósvinna að sóknargjöldin eru auðvitað ekki eign ríkisins heldur hefur ríkið tekið að sér milligöngu um innheimtu þeirra fyrir hönd allra trúfélaga í landinu og hefur því engan rétt til að halda eftir hluta þeirra. Hitt má svo deila um hvort ríkið eigi almennt að vera í milligöngu um slík gjöld. Kannski ættu íþróttafélögin að fá ríkið til að innheimta félagsgjöldin fyrir sig sem og stjórnmálaflokkarnir ?  Þessi félög myndu auðvitað ekki sætta sig við að ríkið héldi eftir geðþótta hluta innheimtra félagsgjalda sinna. Þeir sem innheimta virðisauka fyrir ríkið (endursöluaðilar vöru og þjónustu) ættu kannski að taka sér þessa aðgerð flugfreyjunnar og jarðfræðinemans sér til fyrirmyndar og skila svo sem 9% minna af innheimtum virðisauka til ríkissjóðs? Þetta gætu innheimtulögfræðingar einnig tekið sér til fyrirmyndar ?

Ég held að það færi best á því að þið breyttuð fyrirsögn ykkar sem virðist vera gerð ásamt greinarstúf ykkar af mikilli vanþekkingu á þessu máli. Eina ræningjabælið sem í þessu máli er, mun vera híði flugfreyjunnar og jarðfræðinemans.

Ég vil leyfa mér að setja hér inn fróðlegan pistil Jóns Vals um málið síðan 2007.

Athuga ber að Jón Valur er kaþólikki eins og kunnugt er og hefur trúfélag hans engra hagsmuna að gæta í þessu máli, en Jón Valur kann að fara rétt með staðreyndir og gæta réttlætis :

Jón Valur Jensson Jón Valur Jensson cand. theol.

"Sunnudagur, 30. desember 2007

Svo hét grein mín í Mbl. 19. des. 2002 þar sem fjallað var um mál sem oft ber hér á góma: eignamál kirkjunnar og rétt Þjóðkirkjunnar til framlags úr ríkissjóði til rekstrar síns. Afar harðar hafa þær árásir oft verið, sem trúleysingjar og afbrýðisamir veraldarhyggjumenn ýmissa flokka hafa haldið uppi, einkum frá og með Kristnihátíðarárinu 2000 og nú enn og aftur, þegar örfámennur hópur virkra trúleysisboðenda hellir sér yfir dagblöð og bloggsíður nánast daglega.

Margir láta sem Þjóðkirkjan eigi hér engan rétt – sniðganga þar með þinglýstar og skráðar eignarheimildir hennar í margar aldir, unz ákveðið var, að ríkið tæki alfarið við jarðeignum þessum gegn endurnýjun þess lagaákvæðis, að ríkið borgi laun presta og Biskupsstofu. Sumir (og raunar fáir) hávaðasamir veitast að kirkjunni fyrir ýmist meinta ágirnd eða sníkjulífi, á meðan aðrir (sjá t.d. umræðuna á þessari síðustu vefsíðu minni) virðast aldrei geta áttað sig á því, að við erum hér hluti af réttarríki, þar sem arfhelg réttindi, m.a. eignarréttur, eru síður en svo eitthvað sem brýtur gegn almennum mannréttindum, heldur eru þau einmitt einn undirstöðuþáttur þeirra.

Já, það er óumflýjanleg grunnforsenda þessa máls, að "kirkjan fer ekki fram á ölmusu, einungis að ríkið standi við gerða samninga," eins og ég sagði í greininni gömlu, en ófyrndu, sem ég endurbirti nú hér á eftir.

Gegn árásum á Þjóðkirkjuna

FORMAÐUR Siðmenntar, Hope Knútsson, ritar grein í Mbl. 30.10. 2002: 'Hvað felst í aðskilnaði ríkis og kirkju?' Þar sker í augu alger vöntun á umfjöllun um eignir kirkjunnar, eins og þær skipti engu í sambandi við þann "styrk" frá ríkinu sem Hope segir Þjóðkirkjuna fá og vill láta afnema. "Þjóðkirkjan nýtur hundraða milljóna króna styrks [svo!] árlega umfram önnur trúfélög," segir hún. Það er einfaldlega rangt. Ríkisvaldið tók kirkjujarðir (fyrir utan prestssetur) í sína umsjá 1907, innheimtir af þeim tekjur og greiðir í staðinn laun til presta.

Hvaðan komu þessar jarðir, 16% jarðeigna landsins 1907? Stór hluti tilheyrði kaþólskri kirkju á sínum tíma. Eins og sjá má af gjafabréfum eignafólks til kirkna og klaustra, áttu þær gjafir að styðja við Guðs kristni, helgast þjónustu við söfnuði hans. Eftir siðaskipti var ekki öðrum til að dreifa til kristnihalds en lútherskum klerkum sem framfleyttu sér, önnuðust viðhald kirkna og önnur útgjöld með þeim eigna- og tekjustofnum sem konungur lét óhreyfða þegar hann hrifsaði undir sig klaustra- og stólseignir. Var hitt þó ærinn skellur að sú menningar- og þjóðþrifastarfsemi sem fram fór í klaustrunum var í einu vetfangi aflögð, er konungur gerði eignir þeirra upptækar.

Kirkjan var á 14. öld langauðugasti landeigandi hérlendis og auðgaðist enn til 1550. Þá áttu biskupsstólarnir 14.119 hundruð í jarðeignum, sjöttung alls jarðnæðis. Síðar hafa margir býsnazt yfir auðsöfnun kirkjunnar, en eins og Björn Þorsteinsson sagnfræðiprófessor fræddi okkur nemendur sína um, var kirkjan leiguliðum sínum léttari í álögum en aðrir landsdrottnar. Að auki veitti hún fátækum og sjúkum ómetanlega hjálp. Um 1650 var þriðjungur jarðeigna í eigu kirkna, biskupsstóla, Kristfjárjarða og spítala, sjöttungur eign konungs og helmingur bændaeign.

Fyrir þá, sem líta ekki á eign sem þjófnað eins og stjórnleysinginn Proudhon, ætti að vera sjálfsagt að skoða þessi mál af jafnaðargeði og réttsýni. Eðlilegri kröfu kirkjunnar að fá að halda tekjustofnum sínum verður ekki mótmælt í nafni trúfrelsis.

Ekki tilheyri ég Þjóðkirkjunni, er ekki þess vegna að verja hana ásælni. En vegna þrákelkni Hope í atsókninni finnst mér rétt að hún upplýsi okkur um fáein atriði:

  1. Heldur hún að kristnir Íslendingar láti höggva undan sér þær efnalegu stoðir sem forfeður okkar reistu til að halda uppi kirkjum, helgihaldi og þjónustu í þágu safnaðanna?
  2. Telur hún kristið fólk svo auðblekkt og geðlaust, að það standi ekki á eignarrétti sínum og eftirkomenda sinna?
  3. Trúir hún í alvöru að hún geti biðlað til ríkisstjórnarflokkanna um stuðning við að ræna kirkjuna eignum sínum og/eða samningsbundinni réttarstöðu? M.ö.o.: Með hliðsjón af því, að ríkisstjórnin segir í stefnuskrá sinni að kristin trú og gildi hafi "mótað mannlíf í landinu og verið þjóðinni ómetanlegur styrkur," auk þess sem báðir flokkarnir eru því andvígir "að löggjafinn gangi of nærri friðhelgi eignarréttarins" eða "taki sér nokkurt vald sem stríðir gegn grundvallarréttindum," trúir Hope því, að flokkarnir gangi á bak þeirra orða? Hefur hún svo lágt álit á þeim að hún ímyndi sér að þeir fáist til þess í bráðræði að hafna þannig kjörfylgi fjölda kristinna manna?
  4. Álítur hún mín lúthersku systkini þvílíkar gungur að þau láti rifta einhliða þeim samningi sem gildir milli ríkis og Þjóðkirkju um árlegt framlag til hennar úr ríkissjóði (sem er metið sem eðlilegt endurgjald fyrir þau 16% jarðeigna í landinu sem kirkjan lét af hendi við ríkið)?
  5. Kæmi það henni á óvart að Þjóðkirkjan fengi (í Hæstarétti eða með því að leita til æðsta dómstigs í Evrópu) þann samning staðfestan eða jarðeignir sínar afhentar aftur, ef ríkið fremdi þau samningsrof að hætta að greiða þetta árlega afgjaldsígildi úr ríkissjóði?
  6. Ef Hope ánafnaði Siðmennt eignir sínar, fyndist henni þá réttlætismál að einhver ríkisstjórn þjóðnýtti þær með einu pennastriki?
  7. Af því að henni er tíðrætt um réttlæti, jafnrétti og trúfrelsi, er að lokum spurt: Yrði það í þágu réttaröryggis ef magnaðasta valdið, ríkisbáknið, gæti sölsað undir sig sameign frjálsra félagasamtaka?

Kirkjan fer ekki fram á ölmusu, einungis að ríkið standi við gerða samninga. Ef ekki væri samstaða á Alþingi um lögin frá 1907 og 1997, ætti Þjóðkirkjan að taka við eignum sínum aftur og ávaxta þær á arðsaman hátt með nútímalegri fjármálastjórn til að tryggja, að hún geti staðið undir helgihaldi, viðhaldi kirkjuhúsa, hjálparstarfi og þjónustu til frambúðar. Ef hún hlypist undan þeirri ábyrgð (t.d. af hræðslugæðum eða í viðleitni til að þókknast öllum, umfram allt einhverri tízkuhugsun), væru það svik við köllun kirkjunnar, þá sem hafa stutt hana og við sjálfan þann sem sendi hana. Til þess hefur kirkjan þegið þennan arf að vinna úr honum til heilla fyrir íslenzka þjóð.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 9.8.2010 kl. 01:26

2 identicon

Þær jarðir sem hinir ágætu herramenn vitna til í svörum sínum voru jarðir sem kirkja lagði undir sig með þjófnaði eftri setningu tíundar. Nú á að beita fyrri sig þýfi kirkjunar í afsökun fyrir áframhaldandi skattheimtu á landsmenn.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 9.8.2010 kl. 10:37

3 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll Vilhjálmur Andri. Þú veist af Hegningarlögum gagnvart svona aðdróttunum. Þessar aðdróttanir eru að engu hafandi nema þú styðjir þær svo sem með einni staðreynd þar sem þú getur sagt frá hverju var stolið, af hverjum og á hvernb hátt það var framkvæmt.

Við erum svo lánsöm að eiga Fornbréfasafnið í nærri 30 bindum, en þar erulöggerningar um kaup og sölu og erfðir nærri því aftur til landnáms. Svo eru auðvitað þinglýsingarbækur sýslumanna eftir það sem sanna löglegt eignarhald.

Vertu nú maður að meiri og komdu með sönnur á staðhæfingu þína eða þú kallast Hildiríðasonur ella.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 9.8.2010 kl. 13:14

4 identicon

Það er alveg augljóst að við settnignu tíundar færðist í hag að byggja kirkjur á jörðum og "gefa" kirkjunni jörðin. Það kalla ég rányrkju með lögum. Kirkjan á engan rétt á þessum jörðum og væri nær að skila þeim.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 9.8.2010 kl. 16:02

5 identicon

skrifaðu svo undir nafni Predikari eða vertu þekktur sem aumur laumupenni.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 9.8.2010 kl. 16:02

6 identicon

Leigupenni biskups mættur?

frjálshyggjumaður (IP-tala skráð) 9.8.2010 kl. 16:26

7 identicon

Það er hreinlega óguðlegt að fjármagna rekstur kirkjunnar með skattfé, sem innheimt er með ofbeldi eða hótun um ofbeldi. Landnámsmenn virtu trúfrelsi en Noregskonungur þröngvaði trúarofstæki skipulagðrar kirkju upp á Íslendinga.

Sigga (IP-tala skráð) 9.8.2010 kl. 17:38

8 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Greinilegt að Vilhjálm skortir rök . Það kemur ekki á óvart i þessu máli því hann slær um sig með þekktum dylgjum og rógi þeirra sem vilja hag kristinna trúfélaga sem minnstan.

Mér finnst að kirkjan ætti að stefna slíkum fyrir róginn og að þeir svari til saka eftir efni hegningarlaga þar um. Þessum mönnum er í lofa lagið að verjast slíkum dómi komi þeir með sönnur fyrir máli sínu með svo sem eins og einu eða tveimur dæmum um stað, tíma, nöfn og hverju var stolið.

En nei það verður víst bið á því.................

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 9.8.2010 kl. 23:26

9 identicon

Predikari þú þekkir ekki sögu þína vel ef þú heldur að kirkjan hafi einfaldlega keypt allar jarðir landsins. Þær voru fengnar í gegnum skattkerfi kirkjunnar m.ö.o. fengnar með valdi.

Það er líka áhugavert að sjá hvað þið "guðsmenn" þolið illa gagnrýni og eruð fljótir að krefjast afnám tjáningarfrelsis.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 00:53

10 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Alls ekki - þú mátt segja hvað sem þú vilt. Þú verður eins og aðrir að geta varið orð þín fyrir rétti. Réttur þinn nær ekki til þess að geta óhindrað þjófkennt náunga þinn án þess að þú hafir sannanir í farteskinu. Þú þarft síðan að lesa þig betur til um þessar jarðir.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 10.8.2010 kl. 01:35

11 identicon

Predikarinn - er þetta ekki Jón Valur?

Sigga (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 10:02

12 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er óvanalegt að málsvarar frjálshyggjunnar hvetji til þess að ríkið rifti einhliða gerðum samningum og svíkist þannig um að greiða fyrir kirkjueignirnar eins og það hefur skuldbundið sig til. Slíks hefði maður fremur haldið að væri von frá VG en svo bregðast krosstré sem önnur.

Þorsteinn Siglaugsson, 10.8.2010 kl. 15:03

13 identicon

Það er bara svo fjarri öllum sannleik að kirkjan séu einhver frjáls félagasamtök í samningum við ríki, þetta er eins mikil ríkisstofnun og ríkisstofnanir frekast geta orðið.

Og burtséð frá öllum samningum þá hljóta frjálshyggjumenn að vera andsnúnir ríkisrekinni kirkju.

frjálshyggjumaður (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 15:12

14 identicon

Kannski Predikarinn sanni tilvist Guðs fyrir okkur fyrst.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 19:55

15 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Mér sýnist sá sem kallar sig frjálshyggjumann hér að ofan því miður ekki vera það. Ef það er nægt tilefni til að rjúfa samning að maður sé á móti þeim sem maður samdi við er ég hræddur um að kapítalískt samfélag eigi litla framtíð fyrir sér.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.8.2010 kl. 10:49

16 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Vilhjálmur Andri, viltu ekki bara standa fyrir ásökunum þínum og digurbarkanum eins og maður í stað þess að dreifa athyglinni ?   Komdu með dæmi , af nógu er að taka að þínu viti miðað við það sem þú segir - um það bil sjötta hver jarðeign á Íslandi á sínum tíma liggur undir. Þú hlýtur að eiga ógrynni af dæmum ef satt er sem þú segir. Einhverjir hljóta að hafa mótmælt gjöfum og veittum arfi, sölusamningi og fleiru. Þeir sem töldu sig eiga um sárt að binda hljóta að hafa snúið sér til sýslumanna eða yfirvalds einhvers með umkvartanir sínar um meintan þjófnað.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 11.8.2010 kl. 11:44

17 Smámynd: Geir Ágústsson

Raunar hefur innleiðing tíundarinnar af sumum verið talin orsök þess að "stjórnleysið" á Íslandi (samkeppni goðanna um að vernda skjólstæðinga sína) rann sitt skeið á enda: Með henni fengu sumir bændur leyfi til að skattleggja aðra og kapphlaupið um þetta skattlagningarvald varð til þess að fleiri og fleiri goðorð runnu saman og voru á endanum framseld til Noregskonungs.

Fyrir tíma tíundarinnar hafði samkeppni í lagavernd og stillingu friðar blómstrað, sem og efnahagurinn.

En þetta verða sagnfræðingar samt að deila um.

Ég segi: Bless allt land úr eigu ríkisins, og já hví þá ekki bara að "borga út" kirkjuna í leiðinni? Hún má hirða hálendið eins og það leggur sig og selja aðgang að því til að borga laun presta.

Geir Ágústsson, 11.8.2010 kl. 12:01

18 identicon

Þetta er útúrsnúningur hjá þér Predikari, það að þú skulir halda því fram að kirkjan hafi "keypt" þessar jarðir eða fenigð á eðlilegan hátt er út í hött. Sýnd þú fram á það að kirkjan hafi fnegið þessar jarðir á eðlilegan hátt.

Að boða fáfræði og villitrú til að féflétta fólk getur ekki talist eðilegur hlutur.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 11.8.2010 kl. 13:54

19 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Vilhjálmur Andri er nú að hætta að verða svara verður miðað við síðustu færslu - og þó fyrr hefði verið. Réttast væri að hvetja byskupinn til að kæra hann strax hjá lögreglunni vegna ærumeiðinga og rangra sakargifta.

Kirkjan á löggilda pappíra fyrir öllum eigum sínum og hefur eignarhald eða tilurð eignarhalds aldrei verið véfengt með neinum rökum eða staðreyndum. Þessar löggildu eignarheimildir liggja fyrir í þinglýsingarbókum og þau sem eldri eru liggja fyrir einnig og er afrit þeirra í Fornbréfasafninu íslenska.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 11.8.2010 kl. 14:13

20 identicon

Kirkjan hefur lifað á ölmusum sem teknar hafa verið af skattgreiðendum með ofbeldi. Viðhorf þessarar forneskjustofnunar birtast vel í ummælum "Predikarans" hér að ofan, sem ég kýs að kalla leigupenna biskups, sem hótar málsóknum, vegna skoðana sem honum þóknast ekki.

Þessi stofnun er steinrunnin og steingeld. Orð Sigurbjarnar Einarssonar árið 2000 eru okkur enn í fersku minni þegar hann líkti andstæðingum kirkjunnar við nasista. Slíkur var hrokinn og slík var málefnafátæktin hjá manni sem átti að hafa verið helsti spekingur Íslendinga á 20. öld.

Sigga (IP-tala skráð) 11.8.2010 kl. 15:51

21 identicon

Hvernig er hægt að koma því heim og saman að maður sé andstæðingur frjálsra samninga ef maður er á móti ríkisrekinni kirkju? Menn sem tala með þessum hætti geta ómögulega verið mjög frjálshugsandi.

frjálshyggjumaður (IP-tala skráð) 11.8.2010 kl. 16:05

22 Smámynd: Geir Ágústsson

Hafa kirkjunnar menn sem hér skrifa engan áhuga á því að koma kirkjunni úr höndum ríkisins og fjárframlega frá því, sem stundum er hækkað og stundum er lækkað?

Hefur enginn kirkjunnar maður lagt fram neinar tillögur í þá átt, þá byggða á meintum rökum um "eignir kirkjunnar" sem ríkið greiðir nú "rentu" af í formi launa og viðgerðar- og byggingarkostnaðar kirkna?

Geir Ágústsson, 11.8.2010 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband