Fasismi og aðrar vinstristefnur

Frjálshyggja og sósíalismi, eða stjórnlyndi, eru helstu andstæður í stjórnmálum 20. aldar og milli þessara stefna er hyldýpi. Einn af fyrstu hugsuðum sósíalismans, Saint-Simon, sagði að með þá sem ekki hlýddu áætlunum hans yrði „farið eins og kvikfénað“. Guðfeður sósíalismans töldu einstaklingsfrelsið, þar með talið tjáningarfrelsið, eitthvert mesta böl 19. aldarinnar. Síðan þá hafa sósíalistar víða um lönd tekið upp nöfn frjálslyndra flokka og farið að boða frelsi en undir niðri býr hugmyndafræði sem er andstæð einstaklingsfrelsi. Virðing sósíalista fyrir mannréttindum er nefnilega á hvörfum eins og sýndi sig glögglega þegar þingmaður Vinstri grænna nefndi nýlega að eignarétturinn væri ofmetinn.

Það vill einnig gleymast að þau mannúðarsjónarmið sem sósíalistar boða eiga uppruna sinn í einstaklingshyggju og verða eingöngu framkvæmd við þjóðskipulag sem byggir á einstaklingshyggju. Sósíalískt þjóðskipulag leiðir brátt til þess að valdhafarnir þurfa að taka sér alræðisvald til að ná settum markmiðum. Þá verður til sérkennilegt siðferði þar sem einstaklingurinn fær ekki að hlýða samvisku sinni eða beita eigin reglum. Við slíkar aðstæður verður eina siðareglan sú að tilgangurinn helgi meðalið. Við aðstæður sem þessar er samviskulausum mönnum opin greið leið upp virðingarstigann. Friedrich von Hayek orðaði það svo að lýðræðissinnaður stjórnmálamaður sem færi að skipuleggja atvinnulífið stæði brátt frammi fyrir valinu um að taka sér einræðisvald eða gefast upp.

Vonlegt er að menn spyrji sig hvað það er sem veldur því að lýðræðislegar stofnanir falla og alræðisstjórn tekur völdin. Sjúkdómseinkenni slíks samfélags eru skýr. Almenningur verður langþreyttur á seinagangi þeim sem fylgir lýðræðislegum aðferðum og krafan um markvissar og snöggar aðgerðir ríkisins verður háværust. Þá veljast til forystu þeir menn sem boða mest ríkisafskipti – stjórnmálaflokkur sem er skipulagður eins og herlið tekur að skipuleggja þjóðfélagið allt. Herlið þýskra þjóðernissósíalista var knúið áfram af óánægju með frjálst fjármagnskerfi og þeirri óánægju mátti auðveldlega snúa upp á Gyðinga. Í Ráðstjórnarríkjunum var sams konar óánægju snúið upp á „bændaauðvaldið“ eða kúlakkana. Afleiðingin varð sú að tilteknir þjóðfélagshópar urðu réttdræpir – ekki á grundvelli gjörða sinna – heldur á grundvelli tilveru sinnar.

Íslenskir sósíalstar eru margir hverjir vel lesnir í sósíalískum fræðum og þeir hafa fundið sér næsta lítt skilgreindan óvin sem er „auðmaðurinn“. Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, sagði í ræðu á Alþingi 22. febrúar sl. að tilteknir fjörutíu, fimmtíu „auðmenn“ væru glæpamenn sem þyrfti að koma á válista í bönkum, þá mætti ekki skipta við. Orðrétt sagði þingmaðurinn að auki: „Flestir á Litla Hrauni eru bara kórstrákar miðað við þessa menn“. Að sama tilefni nefndi hann að þessir menn höguðu sér eins og „hræætur“. Hinn 24. nóvember sl. flutti Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, frumvarp til laga um að kyrrsetja eignir svokallaðra „auðmanna“, en Vinstri grænur munu hafa lagt ríka áherslu á þetta atriði í stjórnarmyndunarviðræðum við Samfylkinguna. Steingrímur J. Sigfússon núverandi fjármálaráðherra minnihlutastjórnarinnar, sagði í ræðu á Alþingi hinn 15. október 2008 að svokallaðir „auðmenn“ gætu sleppt því að láta sjá sig á götum úti ef þeir gengju ekki að skilyrðum formanns Vinstri grænna. Ögmundur Jónasson, núverandi heilbrigðisráðherra minnihlutastjórnarinnar, lagði til á þingi Alþýðusambandsins 23. október 2008 að eignir svokallaðra „auðmanna“ yrðu gerðar upptækar. Sagði Ögmundur orðrétt að „auðmennirnir“ ættu að „skila ránsfeng sínum til baka“. Fjöldi stjórnmálamanna, fjölmiðlamanna og alls kyns álitsgjafa, sem studdur er af hulduher nafnleysingja alnetsins, skirrist ekki við að fella þann dóm að svokallaðir „auðmenn“ séu allir undir sömu sök seldir. Þennan hóp manna megi nánast útskúfa úr samfélaginu.

Í þessu samhengi verður manni óhjákvæmilega hugsað til þýskra þjóðernissósíalista. Þeir beittu viðlíka tungutaki um Gyðinga, sem stig af stigi voru útskúfaðir úr samfélaginu uns allsherjar útrýming þeirra hófst. Teikn eru á lofti um að lýðræði og mannréttindum sé búin bráð hætta hér á landi. Vinstri grænum barst liðsauki á dögunum þegar hingað til lands var ráðinn norskur saksóknari, sem er í framboði til Evrópuþingsins fyrir franskan systurflokk Vinstri grænna. Þessi norski saksóknari hefur fullyrt að „íslenskir fjárglæframenn“ hafi „misnotað aðstöðu sína og skotið undan fé“ eins og það var orðað í frétt mbl.is hinn 10. mars sl. Saksóknari sem ekki hafði hafið rannsókn fullyrti með öðrum orðum að afbrot hefðu verið framin. Ef viðhorf af þessu tagi verða almenn verður brátt lítil þörf á réttarkerfi. Nægilegt verður að nefna menn og meintar sakir þeirra á almannafæri til þess að senda þá til fangavistar.

Það er merkilegt rannsóknarefni fyrir fræðimenn hvers vegna stór hluti íslenskra menntamanna kaus áratugum saman að segja skilið við mannréttindi, hefðbundinn siðaboðskap evrópskrar heimspeki og kristindómsins og taka upp málstað alræðisins. Það þurfti enga leyniræði Khrusjevs til að almenningur á Vesturlöndum fengi vitneskju um glæpi sem framdir voru í skjóli kommúnismans og voru persónugerðir í Jósef Stalín. Ráðstjórnarríkin voru ekki sæluríku fremur en systurríki þeirra, Þýskaland Hitlers. Í Ráðstjórnarríkjunum, jafnt sem í öðrum kommúnistaríkjum, var fólkið réttindalausir þrælar, eign ríkisins og valdhafarnir óbundir af öllum siðareglum. Hér á landi er lögregluríki í uppsiglingu.

Einstaklingsfrelsi og almenn mannréttindi eiga undir högga að sækja. Komandi kosningar munu hverfast um grundvallaratriði: Verður einstaklingunum áfram búið frelsi til orðs og athafna eða verða heljartök ríkisins á öllu þjóðlífi hert til muna?

Björn Jón Bragason (grein þessi birtist áður á AMX)


mbl.is Dvergar til áminningar um hættur einræðisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Jörunds Jónsson

Ef ég á að dæma út frá þessari grein þá myndi ég álykta sem svo að félagsmenn Frjálshyggjufélagsins séu ekki miklir gáfukollar....

Ég mæli með að þið pabbadrengirnir lesið ykkur til í stjórnmálafræði 20. aldar áður en að þið setjið eitthvað meira á prent. 

Jakob Jörunds Jónsson, 15.10.2009 kl. 11:11

2 identicon

Jakob: Hvernig væri að þú gagnrýndir greinina efnislega í stað þess að opinbera þína eigin lítilmennsku með þessari ad hominem-athugasemd?

Sigga (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 12:01

3 Smámynd: Jakob Jörunds Jónsson

Sigga mín,

Þessi grein er þvílíkt bull út í gegn að maður eyðir nú ekki miklu púðri á hana...

Byrjar strax á fyrirsögninni.

Hvernig væri nú að þið, í staðin fyrir að setja svona vitleysu á prent, eydduð smá orku í að skoða þá sviðnu jörð sem frjálshyggjan hefur skilið eftir sig? 

Jakob Jörunds Jónsson, 15.10.2009 kl. 13:21

4 identicon

Komdu með einhver rök Jakob ef þú telur fullyrðingar þínar réttar. Sýndu okkur að þú sért ekki jafn illa upplýstur og þú lætur vera í færslum þínum.

Byrjaðu á að svara tveim spurningum: Hvað er rangt í greininni og hvar hefur frjálshyggjan skilið eftir sig sviðna jörð?

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 14:12

5 identicon

@Vilhjálmur: Hann nefnir fyrirsögnina, fasismi =/= vinstri stefna.

Annars er vandamálið við greinina að hana er hægt að summa upp sem: 'Sósíalismi er slippery slope til Þýskalands Hitlers.'

Sem er hættulega mikil vitleysa og rökvilla.

Höfundurinn segir t.d. eina leiðin til að ná fram jafnræði sé einstaklingshyggja, og að sósíalískt þjóðskipulag leiði til alræðis.

Rökin sem hann virðist færa fyrir þessum fullyrðingum er reynslan af byltingarsinnuðum kommúnistum og nasistum frá fyrri hluta 20. aldar.

Ég verð nú bara að benda á að miðað við reynsluna hjá sósíalísku frændum okkar í Skandinavíu þá á hvorug fullyrðingin við rök að styðjast.

Ingi Thor (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 15:36

6 identicon

Ingi ég held að þú sért engan veginn að skilja hvað átt er við með röksemdafærslu ef þú telur tilvitnun Jakobs í fyrirsögnina vera rök. Fyrirsögnin gefur til kynna að fasismi sé vinstristefna sem vissulega er enda þjóðskipulag sem byggir á sterku ríkisvaldi og heftu einstaklingsfrelsi, þvert á hugmyndir hægrimanna. Ef Jakob telur svo ekki vera er honum frjálst að koma með rök fyrir máli sínu, það hefur hann ekki gert.

Nú er ég ekki höfundur greinarinnar og ætla mér ekki að gera höfundi upp skoðanir en það sem ég les út úr greininni er varúð höfundar við því að stíga þau spor sem geta leitt til öfga-jafnaðarstefnu álíka þeirri sem átti sér stað í Þýskalandi Hitlers. Þá get ég ekki séð annað að en verið sé að vara við þeirri þróun að úthúða alla viðskiptamenn landsins og heimta afnám réttríkisins í til að fullnægja afskræmdri réttlætiskennd öfga vinstrimanna. Munurinn á sósíalistum í dag og þeim sem byggðu upp þjóðskipulag nasist og kommúnista er að nú er búið að skipta út sterkum leiðtoga fyrir andlistlausa embættismanninn og enn hafa sósíalistar ekki lagt niður réttarríkið.

Það hefur alltaf verið trú sósíalista að hægt sé að skipuleggja samfélög niður í minnstu einingar. Áður fyrr var það gert með vopnavaldi nú er það gert með lögum og reglugerðum. Samningsfrelsi eru settar ótal skorður og sama á við um atvinnufrelsi, eignarétt, tjáningarfrelsi o.fl. grundvallarréttindi. Minnihlutaréttindi á kostnað annarra spretta upp og alls konar gerviréttindi á borð við félagsréttindi er dælt út á kostnað raunverulegra grundvallaréttinda sem eiga að tryggja frjálst og opið samfélag. Ríkisvaldið hefur takmarkað og heft mörg grundvallaréttindi einstaklinga á norðurlöndum en munurinn á þeim og öfga vinstrimönnum er að réttarríkið hefur ekki enn verið afnumið.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 19:14

7 identicon

Ég benda á það að það er hægt að búa til lögreglu ríki hvort sem ríkistjórninn sé "hægri" eða "vinstri".

Hallur (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 21:35

8 identicon

Rétt Hallur en slík ríkistjórn væri ekki hægrisinnuð heldur vinstrisinnuð.

Landið (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband