Viltu sósíalisma eða frelsi?

Ríkisstjórnin hefur nú unnið markvisst að því í hálft fjórða ár að innleiða sósíalisma á Íslandi. Það hefur hún gert með útvíkkun ríkisvaldsins, auknu regluverki og fleiri boðum og bönnum. Þeir sem standa nálægt valdhöfunum hafa fengið leyfi til að skara eld að eigin köku á meðan aðrir hafa þurft að horfa upp á rýrnun lífskjara sinna og fækkun tækifæra.

Sósíalismi er slæm hugmynd byggð á vondum ásetningi. Hann gengur út á tvennt í raun, sama hvað öllu orðagjálfri líður: Að koma í veg fyrir að nokkur utan kjarna valdhafa geti bætt kjör sín, og setja þumalskrúfu á þá sem þóknast ekki yfirvöldum. Sósíalistar boða hagfræði sem kvelur hagkerfið, og elur á siðfræði öfundar, græðgi, yfirgangs og harðræðis. Sósíalistar segja að hugmyndafræði þeirra snúist um að jafna lífskjör, sem hún gerir, því í sósíalísku þjóðskipulagi hafa allir það jafnskítt, nema fámenn yfirstétt valdhafa og þeirra sem henni eru þóknanlegir.  Sósíalistar segjast berjast fyrir réttlæti og vissulega finnst sósíalistunum réttlátt að ræna aðra og setja afraksturinn í eigin vasa, en aðrir hljóta að mótmæla réttmæti slíks „réttlætis“.

Núna, eftir þrjú og hálft ár af innleiðingu sósíalisma á Íslandi, eru afleiðingar hans margar að koma fram. Samkvæmt fréttablaði Ríkisskattstjóra þurftu 59 fjölskyldur á Íslandi að selja eignir árið 2010 til að eiga fyrir hinum svokallaða „auðlegðarskatti“, en hann er annað orð fyrir hreina eignaupptöku ríkisins. Smátt og smátt fer skattstofn eignaupptökuskattsins allur í felur eða til útlanda eftir krókaleiðum. Hverja á þá að mjólka ofan í ríkishítina?

Tölfræðin segir að hagvöxtur hafi tekið við sér á Íslandi en við nánari athugun kemur í ljós að hann er meira og minna skuldsett neysla hins opinbera og einstaklinga. Fjárfesting er nánast engin og þó vantar ekki tækifærin til að fjárfesta á Íslandi. Ríkisvaldið stendur í vegi fyrir verðmætasköpun og endurreisn hagkerfisins.

Ísland er orðið að tilraunastofu fyrir sambland af hagstjórn og pólitískri hugmyndafræði sem er margreynd, virkar ekki og skilur eftir sig eyðimörk af skuldum og sóun. Þetta kusu Íslendingar yfir sig á sínum tíma og hafa vonandi lært, í eitt skipti fyrir öll, að af tvennu illu er skárra að láta stjórna sér af jakkafataklæddum en raunsæjum íhaldsmanni en vinstrimanni fullum af heift og hefndarþorsta, vopnaður hagfræðikenningum stöðnunar og ríkiseinokunar. Best væri þó að takmarka ríkisvaldið sem mest, svo þeir sem starfa fyrir það geri sem minnstan skaða.

Eftir tæpt ár verður kosið til Alþingis. Ætlar þú, kæri kjósandi, að kjósa áframhaldandi sósíalisma og ríkisforsjá, eymd og volæði, eða eitthvað sem eykur frekar líkurnar en hitt á því að þú fáir að ráða því nokkurn veginn sjálf(ur) hvernig þú hagar lífi þínu?
 
Geir Ágústsson
 
Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 26. júlí 2012 og er aðgengileg áskrifendum að vefútgáfu blaðsins hér.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Ingi Jónsson

Heyr, heyr!

Kristinn Ingi Jónsson, 26.7.2012 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband