Sósíalisminn vofir yfir Íslandi

Flestir alþingismenn eru sósíalistar. Það kemur því vonandi fæstum á óvart að þau lög sem Alþingi samþykkir eru flest þess eðlis að þau færa íslenskt samfélag og hagkerfi nær sósíalísku þjóðskipulagi. Í slíku skipulagi á ríkisvaldið næstum því allt, og það sem það á ekki ráðskast það með í gegnum lög, reglur og embættismannakerfi.

Margir sósíalistar halda því fram að þeir séu ekki sósíalistar í raun. Sumir þeirra kalla sig jafnaðarmenn og aðrir róttæklinga og enn aðrir jafnvel frjálslynda og til hægri. En látum verkin tala, ekki orðin. Sósíalismi þýðir ríkisyfirráð á auðlindum og framleiðslutækjum. Aðeins stigsmunur er á raunverulegu eignarhaldi ríkisins og smásmugulegum reglugerðum þess, sem segja hverjir mega gera hvað við hvaða eigur sínar. Ef full yfirráð yfir eigum eru ekki lengur hjá eigendum eignanna, heldur reglugerðararmi ríkisvaldins, þá er í raun ríkisvaldið við stjórnvölinn, og sósíalismi því við lýði.

Samfélagið í sósíalísku þjóðskipulagi skiptist í megindráttum tvo hópa; þá sem afla verðmætanna og þá sem neyta þeirra, og sífellt fjölgar í seinni hópnum þar til hagkerfið hrynur.

Helstu merki um hinn vaxandi sósíalisma eru höft á viðskiptum með peninga (gjaldeyrishöft), óbein þjóðnýting lífeyrissjóðanna í gegnum vaxandi lántökur hins opinbera hjá þeim, umsvifamikill fyrirtækjarekstur ríkisvaldsins, t.d. í gegnum bankana, afslappað viðhorf almennings og yfirvalda til þjóðnýtingar, t.d. á veiðiheimilidum og landareignum, og aukin spilling hjá hinu opinbera, sem verður sífellt erfiðara að leiða hjá sér.

Algjör óþarfi er að forðast að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Sósíalisminn er í sókn á Íslandi og lokaniðurstaða þeirrar sóknar er vel þekkt: Gjaldþrot allra og hagkerfi í rjúkandi rústum. Þeir sem óska sér einhvers annars eiga nú þegar að ganga í hóp þeirra sem berjast gegn sósíalismanum, ella mæta fyrirsjáanlegum afleiðingum.
 
Geir Ágústsson
 
Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 25. apríl 2012 og er aðgengileg áskrifendum að vefútgáfu blaðsins hér

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg sammála þér, en hvernig byrjum við ?

Ertu með eitthvað framkvæmdarplan ?

Emil Emilsson (IP-tala skráð) 25.4.2012 kl. 11:18

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Alvarlegast af öllu finnst mér vera þetta hér: "afslappað viðhorf almennings og yfirvalda til þjóðnýtingar..."

Menn ættu að vera ósparir á að hrópa "SÓSÍALISMI! SÓSÍALISMI!" þegar ríkið sópar til sín einhverjum afkima samfélagsins. Ég held að það sé hægt að komast langleiðina með hugarfarsbreytingu í samfélaginu með því að afhjúpa hin ýmsu ríkisafskipti sem sósíalisma.

Geir Ágústsson, 25.4.2012 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband