Ríkisvaldið er óréttlætanleg stofnun og óþarfi

Ég fyrirlít ríkisvaldið og lít á það sem ógn við frelsi, velferð og framþróun mannsins á öllum sviðum. Það dregur úr þrótti allra einstaklinga sem það hefur vald yfir, hamlar þeim í leitinni að hamingjunni og rænir þá af þeim verðmætum sem þeir afla í frjálsum viðskiptum og samskiptum. 

Ég er stundum spurður að því hvað ég vilji „í staðinn fyrir ríkið“ ef svo færi að það væri afnumið á morgun. Vil ég einhvers konar óformlegt ríkisvald þar sem fólk hittist og ræðir sín á milli um hvaða lög eiga að gilda í samskiptum og viðskiptum? Vil ég að deilur verði útkljáðar með vopnum í stað þess að vera vísað til dómstóla ríkisvaldsins? Vil ég að varnir gegn þjófum og ofbeldismönnum verði afmáðar? Vil ég að fátækir öryrkjar drepist úti á götu?

Svarið við öllum þessum spurningum er það sama: Ég vil að í stað ofbeldis og ríkisnauðgunar á samfélaginu komi frjálst samfélag frjálsra einstaklinga, og veit að í öllum tilvikum verða lausnirnar sem finnist í frelsinu betri en þær sem finnast í ríkiseinokun á lausnaleitinni.

Einu „lögin“ sem þurfa að gilda eru þau að fólk viðurkenni hinn óhjákvæmilega sjálfseignarrétt allra einstaklinga á eigin líkama og þar með eignarrétt einstaklinga á því sem þeir afla sér með vinnu og í frjálsum samningum, samskiptum og viðskiptum við aðra eignaeigendur (hvort sem það eru samningar um að skiptast á vinnu og fé, frjáls framlög til einhvers eða einhverra, eða eitthvað annað) [1]. 

Tvennt styður svo mína hörðu afstöðu gegn ríkisvaldinu.

Í fyrsta lagi er ég á móti ofbeldi og árásum á líkama og eigur. Það er ég bara, hvort sem slíkt ofbeldi eða þjófnaður gæti flokkast sem „hagkvæmur“ eða „nauðsynlegur fyrir heildina“ eða eitthvað annað – þetta eru réttlætisrökin gegn ríkisvaldinu. Ég er einfaldlega hugsjónamaður í andstöðu minni við ofbeldi og þjófnað. Ég geri engan greinarmun á ræningjanum sem situr fyrir gömlu konunni í myrku húsasundi, og embættismanninum sem rænir launþega af afrakstri vinnu þeirra. Skiptir engu hvort þjófurinn lofar að kaupa í matinn fyrir gömlu konuna fyrir ágóðann af þjófnaðinum eða ekki. Skiptir engu hvort embættismaðurinn lofar að nota ránsfenginn sinn til að kaupa allskyns tryggingar, menntun og malbik á vegina fyrir þann skattpínda eða ekki. 

Í öðru lagi er það alveg á hreinu að allt sem er gert í skjóli einokunar og lögbanns á samkeppni verður verra og dýrara en það sem er gert í samkeppnisumhverfi, þar sem allir með góðar hugmyndir geta prófað þær í samkeppni við aðra og þannig dottið niður á bestu lausnina – þetta eru nytjarökin gegn ríkisvaldinu [2]. Hver er munurinn á lélegri Trabant-framleiðslu Austur-Þýskalands kommúnismans, og lélegri framleiðslu íslenska ríkisins á löggæslu og dómskerfi? Hann er lítill. Bílar og löggæsla eru varningur og þjónusta. Ef framleiðsla varnings eða veiting þjónustu er sett í skjól ríkiseinokunar þá mun afleiðingin vera hærra verð og versnandi gæði. Ríkisvaldið mun hámarka kostnað og lágmarka þjónustu, rétt eins og einkaaðilar sem njóta einokunarréttinda í skjóli ríkisvaldsins.  

En ef ég vil að ríkisvaldið hætti að vera til, hvað vil ég þá „í staðinn“? Ég vil ekkert í staðinn. En ef mig langar að kaupa þjónustu einhvers til að verja eigur mínar fyrir þjófum eða mig fyrir ofbeldi, þá á ég að mega það. Og ef mig langar að kaupa heilbrigðistryggingu þá á ég að mega það. En ef mig langar í hvorugt, þá á það líka að vera í lagi. Og ef einhver sem selur heilbrigðistryggingu vill fá mig í viðskipti við sig, þá má hann reyna að sannfæra mig um að það sé góð hugmynd, sem það eflaust er, en ég vil sjá kaup og kjör áður en ég skrifa undir.
 
Ríkisvaldið er ekki til af nauðsyn. Það er til af því að á einhverjum tímapunkti í sögunni tókst hópi einstaklinga að ná völdum yfir öllum öðrum. Þeim völdum má ná til baka.
 
Ríkisvaldið er ekki hægt að temja eða binda niður, t.d. með stjórnarskrá [3]. Það þarf að víkja. Eitthvað ríkisvald verður alltaf á endanum að stóru ríkisvaldi. Ríkisvald undir stjórn hófsamra einstaklinga lendir alltaf á endanum í höndum stjórnlyndra einstaklinga. Ríkisvaldið er óvinurinn. Það er andstæða friðsamlegra samskipta og viðskipta. Það er stofnun ólík öllum öðrum - stofnun valds, ofbeldis, löglegs þjófnaðar og afskiptasemi.  
 
Geir Ágústsson 
 
Tilvísanir:
[1] The Idea of a Private Law Society, eftir Hans-Hermann Hoppe.
[2] Man, Economy and State, eftir Murray Rothbard (sjá sérstaklega kafla 19 fyrir niðurstöður hagfræðinnar á áhrifum hvers kyns ríkisafskipta).
[3] Anatomy of the State, eftir Murray Rothbard.
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband