Frjálshyggjufélagið fagnar stofnun netlögreglu

Stjórn Frjálshyggjufélagsins lýsir yfir mikilli ánægju með fyrirhugaðar lagabreytingar sem fela meðal annars í sér stofnun netlögreglu á Íslandi. Lítill hópur einstaklinga, sem ráðherra handvelur ("[r]áðherra setur, að fenginni umsögn frá Persónuvernd, nánari fyrirmæli um starfsemi
CERT-ÍS í reglugerð ..."), fær loksins nauðsynlegt svigrúm til að fylgjast með og skipta sér af athöfnun Íslendinga á netinu. Tafir vegna málaflækja, dómsúrskurða og annarra hindrana á vegi réttvísinnar verður hrundið í burtu. Því ber að fagna.

Rök þeirra sem andmæla eru veik og halda ekki vatni. Glæpamenn geta ekki lengur nýtt sér netið til að samræma ólöglegar athafnir sínar. Þjófar, sem stela hugverkum og hreyfimyndum á netinu, mega óttast.

Þeir sem eru saklausir þurfa ekki að óttast eftirlit hins opinbera og óþarfi er að óttast að hið mikla eftirlitsvald sem hið opinbera fær í gegnum netlögregluna muni leiða til misnotkunar. Á Íslandi segir löng saga símahlerana sína sögu. Þær hafa alla tíð verið múlbundnar inn í lagaflækjur og dómsúrskurði, en engu að síður hafa ásakanir um pólitískan ásetning á bak við þær heyrst víða [1|2|3]. Með því að afnema kvöð um dómsúrskurði af eftirliti með netinu er engin hætta á slíku, enda hafa opinberir starfsmenn fengið betri þjálfun nú en í fyrri tíð.

Stjórn Frjálshyggjufélagsins vonar að þessi ályktun verði sú seinasta sem hún sendir frá sér án fyrirfram vitneskju yfirvalda.

(Rétt er að taka fram að þessi færsla er háð. Frjálshyggjufélagið er að sjálfsögðu andsnúið auknu eftirliti ríkisins með borgurunum.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband